29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (1094)

25. mál, talstöðin í Papey

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Ég vil leyfa mér til framhalds og uppfyllingar nál. á þskj. 185 að segja fáein orð.

Þessi þáltill. er komin fram vegna þess, að nú í sumar var ákveðið að hætta að starfrækja talstöðina í Papey. Ég skal geta þess fyrst, að í fjárl. 1930 var ákveðin 10 þús. kr. fjárveiting til að koma upp talstöð í Papey. 1931 komst það í framkvæmd að setja þessa stöð á stofn, en stofnkostnaðurinn varð ekki nema 3280 kr., eftir þeim skjölum, sem hér hafa legið fyrir. Þessi talstöð varð því miklu ódýrari en áætlað var upphaflega, og um það var ekki nema gott eitt að segja. Af skjölum málsins sest það einnig, að talsvert ólag hefir verið á sambandinu milli stöðvarinnar í Papey og á Djúpavogi, en ég veit ekki, af hverju það hefir stafað. Gæti hugsazt, að það hafi stafað aðeins af því, að rafgeyma þá, sem þarf við þessar skeytasendingar, hafi í svipinn vantað, eða þá að fólk það, er við stöðina starfaði, hafi verið óvant að nota þau tæki, sem til þess þarf.

Svo er annað. Landssímastjóri hefir þótt stöðin gefa lítið af sér og vildi fá Papeyjarbóndann til að taka hana að sér, en það hefir ekki fengizt ennþá. En þótt talstöðin væri komin þarna upp, þá þótti sjómönnum á Austfjörðum vanta allmikið á, að fengið væri það, sem þeir höfðu óskað eftir í sambandi við þessa talstöð, þar sem engar veðurfregnir voru sendar frá þessari stöð, en það hefir enn ekki orðið af því, að veðurstofan setti upp reglulega veðurathugunarstöð í Papey, en það telja sjómenn nauðsynlegt til að geta fengið nægilega glöggar fregnir af veðrinu á hafinu utan allra annesja.

Þegar það varð ljóst, að ætti að hætta að starfrækja stöðina í Papey, urðu sjómenn mjög óánægðir. Hafa þeir nú óskað, að þetta yrði lagt fyrir þingið og gerð gangskör að því af stj., að séð yrði um, að stöðin yrði starfrækt áfram, og ennfremur, að veðurfregnir yrðu daglega sendar út frá Papey.

Svo sem kunnugt er, þá er Papey á siglingaleið skipa fyrir utan Berufjörð. Þar er skerjótt leið og vandfarin inn á Berufjörð. Ef stórveður skella á, verður það helzta úrræði sjómanna að ná landi í Papey og liggja þar af sér veðrið. Mér hefir verið tjáð, að þar væri gott skjól fyrir báta í norðan- og suðvestanátt, en það eru einmitt hættulegustu veðrin á þessum slóðum. Í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að hafa þarna talstöð, svo að þeir sem þarna kynnu að verða að nauðlenda, geti sent skeyti til lands og látið menn vita, hvar þeir eru staddir.

Þegar líður á vetur, sækja menn sjó frá Fáskrúðsfirði, Eskifirði og jafnvel Norðfirði alla leið suður fyrir Hvalsneshorn, og er það langur sjóvegur. Á þeirri leið er Papey eina athvarfið, sem hugsanlegt er, að bátar gætu bjargað sér til, ef í nauðir rekur, og hún er syðsta stöðin á þessari leið, sem bátar geta náð til, því er nauðsynlegt, að þarna sé talstöð, sem gæti látið vita til lands, hvort bátar eru komnir eða ekki. Þá vita menn fremur, hvar báts er að leita eða hvort þarf að leita hans, þegar hægt er að senda þannig tilkynningar um þá til heimila bátsverja og til slysavarnafélaga, hvar þeir eru staddir. Allt þetta mælir með, að talstöð sé í Papey. Ég býst því við, að þar sem stofnkostnaður þessarar stöðvar var ekki meiri en ég hefi áður getið um, þá láti stjórn og þing ekki undir höfuð leggjast að starfrækja þessa stöð framvegis, þó að Það kynni að kosta 300–100 kr. árlega.

Ég skal geta þess, að ég átti fyrir hönd samgmn. tal við landssímastjóra og forstöðumann veðurstofunnar um þetta mál. Út frá samtalinu við forstöðumann veðurstofunnar býst ég við, að geti orðið að samningum, að veðurstofan taki að sér stöðina í Papey og geti komizt að sæmilegum samningum við Papeyjarbóndann. Forstjóri veðurstofunnar taldi enga frágangssök fyrir veðurstofuna að taka að sér að hafa þarna reglulega veðurathugunarstöð, ef hann gæti fengið sérstakt tilboð eða ákveðinn samning um starfrækslu stöðvarinnar frá Papeyjarbóndanum. Það eru greiddar 200 kr. til fullkominna veðurathugunarstöðva, og ef við það væri bætt svo sem 100 kr. til Papeyjarbóndans, gæti ég hugsað, að hann gerði sig ánægðan með það. Ég get ekki fullyrt, hvort bóndinn gengur að þessu, en það er sýnilega mikill hagur fyrir svona eyjarbónda að geta haft stöðugt talsamband við land, svo að ég býst við, að hann verði ekki mjög strangur í kröfum.

Þó að það kunni að þykja svart útlit fyrir þessa till., þar sem þrír nm. hafa skrifað undir með fyrirvara, þá er það ekki eins hættulegt fyrir málið og búast mætti við, því að ég veit ekki betur en að þessir nm. vilji, að málið gangi fram, en vilja aðeins fara aðra leið að því.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta, en vænti þess, að till. verði samþ.