24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (1156)

11. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. flm. frv. hefir nú borið fram skrifl. brtt. við fyrri málsgr. frv. Ég hygg, að ég megi segja, að samgmn. líti með sæmilegum velvilja til þeirrar brtt. Þó ég fullyrði ekki, að n. fallist á hana einróma, býst ég við, að meiri hl. n. fylgi henni. Ég vil geta þess, ef þessi brtt. verður samþ., þá verður brtt. í nál. óþörf. Hv. flm. vildi halda því fram, að brtt. n. og undirtektir við fyrri málsgr. frv. væru sprottnar af ókunnugleika. Ég skal játa, að ég er ekki persónulega kunnugur á þessum stöðvum, en það, sem fyrir n. vakir, er það eitt, að tryggja sem bezt símasambandið við Dalatanga. Hv. flm. vildi ekki mikið gera úr því, að þessar millistöðvar gætu skemmt það samband. Ég skal ekki segja, að það sé víst, að stöðvarnar Brekka og Fjörður mundu til muna skemma sambandið, en þó getur það viljað til, og eins þegar verst stendur á, að millistöðvar rjúfa sambandið kannske meiri hluta úr sólarhring. Þeir, sem við síma starfa, þekkja slík dæmi. Það sjá allir, hvernig færi, ef slíkt kæmi fyrir samtímis því, að vitinn á Dalatanga bilaði. Í slíku tilfelli þarf vitinn að hafa öruggt beint samband við Seyðisfjörð, sem svo hefir öruggt samband við Reykjavík. Ég skal geta þess, að landssímastjóri gerði talsvert úr því óhagræði, sem millistöðvar á þessari línu gætu gert, og vitanlega ber hann betra skyn á þessa hluti en hv. flm. og ég. Annars skal ég ekkert fjölyrða um þessi ákvæði frv. og brtt. Ég legg til, að brtt. hv. flm. verði samþ., og verða þá brtt. n. sennilega teknar aftur sem óþarfar.

Þá hafa hv. flm. brtt. á ýmsum þskj. talað fyrir þeim. Það hefir nú viljað svo til, að þeir hafa haft færri tilheyrendur hér í hv. d. en þeir sennilega hefðu óskað. Þess vegna er síður ástæða fyrir mig að fara að fjölyrða um þessar brtt. Það viðurkenna víst allir, að þær nýju línur, sem felast í þessum brtt., eru þarfar, þó að þörfin kunni að vera mismunandi brýn og þó að mismunandi ráð eigi við til að bæta úr þörfinni.

Um brtt. á þskj. 47, frá hv. 2. þm. Arn., er það að segja, að n. mælir með henni. þessi brtt. er nánast sagt aðeins lagaskýring. Það er sagt í símalögunum, að lína eigi að liggja inn Gnúpverjahrepp, og þá er það í samræmi við það ákvæði, að leggja línuna eftir fyllstu heimild inn að Ásólfsstöðum. Hv. flm. hefir fært rök fyrir því, að þörf sé fyrir síma á Ásólfsstöðum, og vill n. fallast á þau rök og mælir með þeirri brtt. Sama er að segja um brtt. hv. 2. þm. Eyf., að n. mælir með henni, ef samþ. verður brtt. við þá brtt. á þskj. 148, frá sama hv. þm., sem er þess efnis, að ákveða tvær landssímastöðvar í Öngulsstaðahreppi á þess að tilnefna sérstaka bæi, þar sem stöðvarnar eigi að vera. Einnig getur n. fallizt á brtt. á þskj. 50, frá hv. þm. N.-Þ., um nýja línu frá Skinnastað, 24 km. vestur Kelduhverfi, og leggur til, að þessar báðar till. verði samþ. og línur þessar lagðar á sínum tíma.

Þá er enn brtt. á þskj. 54, frá hv. 2. þm. Rang., um að ákveða, að leggja skuli nýja símalínu frá Efra-Hvoli í Hvolhreppi að Hólabæjum í Þykkvabæ. Landssímastjóri hefir upplýst n. um, að þetta sé samtals 27 km., frá Efra-Hvoli um Fróðholtshjáleigu að Hólabæjum. N. vill ekki bera á móti því, að þörf muni vera fyrir aukið símasamband í þessum hreppi. ho mun þessi hreppur hafa símasamband í bezta lagi, eftir því sem gerist hér á landi. Hv. flm. kvartaði yfir því, að það væru aðeins tvær stöðvar í hreppnum. Því miður eru nú til margir hreppar hér á landi, sem ekki hafa tvær símastöðvar. Samt þræti ég ekki fyrir, að þarna sé þörf á betra símasambandi, þó það sé þegar betra þar en viðast hvar annarsstaðar, en meiri hl. n. telur tæplega rétt að bæta úr þessari þörf áður en bætt er úr meira aðkallandi þörf á símasambandi annarsstaðar. N. álítur aftur á móti, að þarna sé sérstaklega upplagt fyrir íbúana að leggja einkasíma. Hv. flm. talaði um, að símasamband innanhrepps væri þarna sérstaklega ófullnægjandi, en þá er einmitt einkasími, sem bændurnir sjálfir ráða yfir, rétta lausnin. Ég vil ekki segja, að n. mæli eindregið á móti þessari brtt. hv. 2. þm. Rang., en meiri hl. n. gerir það. Ég get bætt því við, að landssímastjóri telur lítt fullnægjandi að bæta úr þörfinni þarna á þann hatt, sem um er að ræða eftir brtt. Hann segir, að af því leiði fjölgun stöðva einmitt á þeirri línu, þar sem unnið er að því að fækka stöðvum, og eru það rök, sem benda í þá átt, sem ég hefi minnzt á, að þarna mundi heppilegasta lausn malsins vera sú, að leggja einkasíma.