13.11.1933
Efri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (1193)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Jón Þorláksson:

Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr., þar sem þetta frv. fer væntanlega til þeirrar n., sem ég á sæti í. En það voru nokkrir þættir í ræðu hæstv. forsrh., sem ég tel ekki rétt að láta ósvarað, sérstaklega þeir þættir ræðunnar, þar sem hæstv. ráðh. taldi nauðsynlegt að viðhalda höftunum til tryggingar útflutningsverzlun landsbúa. Ég held, ef nánar er að gáð, að það sé mikill misskilningur, ef hann heldur, að höftin veiti nokkra tryggingu í því efni.

Þessi innflutningshöft, sem hér ræðir um, eiga við innflutning á óþörfum varningi. Það hefir verið tiltekið með reglugerð, hver hann sé, en samt hefir verið farið út fyrir það, sem 1. frá 1920 heimila, sérstaklega ef litið er á þær skýringar, sem gefnar hafa verið á þeim. Verzlunarstéttin hefir samt verið svo háttprúð, að því hefir aldrei verið skotið undir úrskurð dómstólanna, hvort stj. hafi farið þarna fram úr heimild 1. frá 1920. En ég held, að það sé ótvírætt, að það hefir verið gert.

En þegar hæstv. forsrh. heldur, að þessi höft geti átt þátt í að vernda okkar utanríkisverzlun, þá er það byggt á misskilningi. Nú er það að vísu svo, að við verðum að tryggja 2 þjóðum nokkurn innflutning, ef þær eiga að kaupa vörur af okkur. Þær hafa að vísu aldrei beðið okkur um innflutningshöft, heldur tryggingu fyrir markaði fyrir tiltekið innflutningsmagn. En af þessum óþarfavörum er svo lítið flutt inn hingað, að ég minnist þess ekki að hafa séð þær nokkursstaðar nefndar, þegar erlendar þjóðir hafa farið þess á leit, að við keyptum af þeim varning. Það hafa einmitt verið nauðsynjavörurnar, sem þær hafa viljað selja okkur. Ég kannast ekki við, að innflutningshöftin á óþarfavörum samkv. l. frá 1920 geti komið til greina í þessu sambandi.

Öðru máli gegnir um gjaldeyrisskömmtunina. Hana má nota til að tryggja innflutning frá einni þjóð öðrum fremur. En hér er ekki verið að hrófla neitt við valdi stj. til að hafa eftirlit með gjaldeyrisverzluninni.

Þá hafa hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. S.-M. haldið því fram, að höftin hafi verið æskileg viðbót við gjaldeyrisskömmtunarákvæðin, til þess að verjast skuldasöfnun erlendis. Þetta er alger misskilningur. Þegar slík höft á svona litlum hluta af innflutningi landsmanna eru búin að standa eitt ár, er það hætt að hafa áhrif, því að þá er fjármagnið búið að finna aðrar vörutegundir til að verzla með. Það er þá allt komið í starfsemi aftur. Fyrsta afleiðing innflutningshaftanna er sú, að vörubirgðir minnka og fjármagn losnar, þ. e. verzlunin fær laust fjármagn handa á milli, en það fjármagn beinist síðan að öðrum vörutegundum. En þessi tilfærsla á verzluninni kemur oft hart og óeðlilega niður. Ég skal nefna lítið dæmi: Þegar innflutningshöftin voru sett, var hér í Austurstræti örlítil verzlun, sem seldi hanzka. Hana átti stúlka, dóttir embættismanns, sem alið hafði aldur sinn hér í Rvík á þeim árum, þegar embættislaun voru lægri en nú, og af þeirri ætt, sem líklega hefir borið hróður Íslands lengst allra. Hún var veikluð, með lamaðan handlegg, en gat þó fleytt sér á þessari verzlun. Svo komu höftin, og var henni neitað um innflutningsleyfi á þessum varningi, svo að hún varð að loka búðinni. En hanzkar fengust alltaf síðan í hverri búð, er verzlaði með þesskonar varning.

Svo ætla ég að biðja hv. þm., þegar þeir fara héðan út og eru komnir framhjá Hótel Borg, að líta í sýningarglugga, sem þar eru við hliðina á. Þar er komin ný verzlun, sem risið hefir upp síðan höftin komu. Þar eru margskonar vörur á boðstólum og af þeim tegundum, sem ég kann ekki að nefna öðru nafni en skran. Einn daginn eru þar allir gluggar fullir af vörum, sem kosta l kr., en annan daginn af vörum, sem kosta 1,50 o. s. frv. Þessi verzlun hefir getað risið hér upp þrátt fyrir höftin, e. t. v. af því, að útlendingur á hana. Það er svo sem ekki af því, að hann hafi þurft hennar með sér til viðurværis, því að hann á hér aðra verzlun fyrir. Samt hefir hann getað stofnað þessa verzlun með tóman óþarfa.

Svona fer, þegar innflutningshöft á ómerkilegum vörutegundum eru búin að standa lengi. Fjármagnið flyzt þá yfir á aðrar vörur, sem ekki hafa verið á bannlista. Þeir, sem hraktir hafa verið frá atvinnu sinni, komast þangað ekki aftur, en aðrir, sem hafa kröftugra athafnalíf, njóta góðs af og sýna, að peningarnir þurfa ekki að liggja dauðir á sparisjóði hjá þeim.

Þá hefir verið sagt, að hér sé um að ræða vernd landbúnaðarins. Það er sama fjarstæðan. Eftir l. frá 1920 held ég áreiðanlega, að ekki sé heimilt að banna innflutning á matvöru. Það hafa verið sett önnur ákvæði til þess að vernda innlenda framleiðslu, og er ekki ætlazt til, að þeim verði haggað. Þessi ástæða er ekki annað en endurtekning á þeirri ástæðu, sem sumir færðu fram fyrir samskonar höftum 1924. Þá mættust tvær mismunandi skoðanir. Önnur vildi gefa innflutninginn frjálsan sem fyrst, en nota óþarfavarninginn til tekjuauka fyrir ríkissjóð. Þessari skoðun hélt ég þá fram og rúmlega helmingur þingsins, en á móti stóðu aðrir. Voru átökin aðallega í Nd. milli okkar og nokkurs hluta Framsfl., sem vildi banna algerlega innflutning á þeim vörutegundum, sem teldust óþarfar, svo að ekki mætti veita undanþágur. Held ég, að þessi deila hafi dáið út á hann hatt, að allir hafi sætzt á að láta aðflutningstolla á óþarfavörum eina um að takmarka innflutning þeirra. Sú stefna varð ofan á, og átti það mikinn þátt í fjárhagslegri velgengni ríkissjóðs 1924 og 1925.

Þegar gripið var til haftanna fyrir 2 árum, varð sú stefna ofan á að hindra innflutning þessara vörutegunda með banni. Bar það nokkurn árangur fyrir gjaldeyrisgetu landsmanna í byrjun. En heldur ekki nema í byrjun, því að nú er fjármagnið búið að finna sér aðrar brautir, og er því nú verzlað eins mikið og áður í landinu. En ríkissjóður hefir misst tekjustofn, því að dregið hefir úr innflutningi þeirra vara, sem gefa miklar tekjur í ríkissjóð. Því er ég nú sannfærður um, að undir öllum kringumstæðum sé rétt að afnema innflutningshöftin á óþarfa vörum. Ég geri ráð fyrir því, að hækkun bráðabirgðaverðtolls, sem stj. fékk samþ. á síðasta þingi, nægi til að hafa hemil á innflutningi þeirra. Hinsvegar álít ég, að gjaldeyrisskömmtuninni verði að halda og beita henni til tryggingar á útflutningsverzlun landsmanna.