14.11.1933
Efri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (1203)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Jón Jónsson:

Því hefir verið haldið fram af flm. frv. þessa og ýmsum öðrum hv. þdm., að innflutningshöftin næðu ekki tilgangi sínum, dygðu ekki til þess að rétta við greiðslujöfnuðinn gagnvart útlöndum, en ég hefi bara ekki orðið þess var, að þeir fyndu þessum orðum sínum stað, enda mun það harla erfitt. Það er augljósust sönnun fyrir gagnsemi innflutningshaftanna, að síðastl. ár var góður greiðslujöfnuður við útlönd, þrátt fyrir lítinn útflutning vegna lags afurðaverðs o. fl., en árin þar á undan mjög slæmur, og leikur ekki vafi á því, að höftin hafa átt sinn þátt í því. Hitt má vera, að eitthvað sé til í því, að einhver mistök hafi orðið á framkvæmd þeirra, en til þess að ráða bót á þeim ágalla á ekki að afnema þau, heldur leiðrétta þau atriði í framkvæmd þeirra, jafnframt því, að þau koma í ljós. Hvað frv. Það snertir, sem hér liggur fyrir, þá tel ég það, eins og það er borið fram, hreinasta hnefahögg í garð landbúnaðarins. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu erfitt það hefir verið að selja afurðir landbúnaðarins fyrir viðunandi verð, og verði að því horfið að samþ. frv., þá getur beinlínis orðið stór hætta á því, að sumar framleiðsluvörur landbúnaðarins verði eyðilagðar. Verði t. d. leyfður takmarkalítill innflutningur á smjöri og ostum, þá yrði það til þess að eyðileggja þessar framleiðsluvörur okkar, því að í Danmörku er framleiðslukostnaður þessara vara svo sáralítill, að hann stenzt engan samanburð við framleiðslukostnað þessara vara hér. Nú er smjör frá smjörbúunum hér selt á 3,30 pr. kg., og það vita allir, sem til þekkja, að það verð má ekki lækka, ef bændur, sem þessa vöru framleiða, eiga að geta rekið heilbrigðan búrekstur. Aftur á móti er danskt smjör í innkaupi ekki nema um 2,00 kr. pr. kg., og tollar á því eru hér sáralitlir. Vörutollurinn t. d. ekki yfir 0,06 pr. kg., og verðtollurinn 0,15 pr. kg. af innkaupsverði. Innflutningur á því myndi því óhjákvæmilega lækka verð hins innlenda smjörs sem næst um 1/3 part.

Menn kunna nú að segja, að það sé ekki allskostar sanngjarnt að viðhalda svona viðskiptahöftum til verndar einni framleiðslu frekar en annari, og sé því réttara að skattleggja vöruna til þess að gera hana ekki eins hættulega í samkeppninni við hina innlendu. En ég get ekki séð, að það sé neitt óeðlilegt, því að við verðum fyrst og fremst að hugsa um það, að sem flestir þegnar landsins geti lifað heilbrigðu lífi, og burtséð frá því, verður ekki að teljast ósanngjörn krafa til kaupstaðabúanna, að þeir kaupi framleiðsluvörur bænda með framleiðsluverði. Þeim yrði sízt betur borgið kaupstaðabúunum, þó að bændur yrðu að hrökklast frá búum sínum og flytja til kaupstaðanna. Vinna þeirra myndi rýrna við það og afkomumögulegleikar yfir höfuð. Ég tel það öllum landsmönnum fyrir beztu, að þeir styðji hver annan eftir því sem geta og sanngirni mælir með. Samkv. því, sem ég nú hefi tekið fram, er ég á móti frv. því, sem hér er til umr., tel það eins og sakir standa með öllu óframbærilegt, en væri hægt að benda á aðrar betri leiðir til þess að ná því takmarki, sem innflutningshöftunum er ætlað að ná, þá horfði málið öðruvísi við. En á þær leiðir hefir bara ekki verið bent.