14.11.1933
Efri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (1215)

16. mál, takörkun eða bann á innflutningi á óþörfum varningi

Flm. (Magnús Jónsson):

Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði í gær um innflutningshöftin frá 1920, sem giltu með ýmsum breyt. að ég ætla til ársins 1924. (Forsrh.: Þau giltu til ársins 1925.), eða 1925, Þá vil ég benda á það, að þau höft voru sett vegna þess, að þjóðina skorti erlendan gjaldeyri, en nú er slík ástæða ekki fyrir hendi. Annars vildi ég minnast dálítið á sögu innflutningshaftanna frá 1920, því hún virðist eitthvað farin að dofna í hugum sumra. Þessi gömlu höft giltu í raun og veru ekki nema aðeins eitt ár. Þau voru sett í marz 1920, og var þá strax gefin út reglugerð, er bannaði innflutning ýmsra vara. En stj. þótti heimildin í þessum lögum ekki nógu rík, svo hún tók það ráð að gefa út bráðabirgðalög 15. apr. 1920. Síðan gaf hún út aðra strangari reglugerð, með bakhjarl í þeim lögum, og setti innflutningsnefnd. En það fór svo á þinginu 1921, þegar stj. eftir fyrirmælum stjskr. lagði bráðabirgðalögin fyrir þingið, að þá voru þau felld með 22 shlj. atkv. í Nd. Enginn þm. greiddi þeim atkv. En þegar svo var komið, áleit stj., að höftin hefðu ekki nægilega stoð í heimildarlögunum frá 1920, og lagði því niður innflutningsnefndina. Það má því segja, að í marz 1921 hafi verið hætt að framkvæma lögin frá 1920. Ástæða til þessarar breyt. var aðallega sú, að vörur höfðu mikið lækkað í heiminum, en sá lækkun vildi ekki koma fram hér á landi vegna haftanna. Með þessu er sögu gömlu haftanna í raun og veru lokið. Þau voru sett á í marz 1920 og stóðu eitt ár, voru afnumin á þinginu 1921 með falli bráðabirgðal. Ég og fleiri hv. þm. vildum þá þegar afnema heimildarlögin frá 1920, en það fékkst ekki. En þau lög voru þá skýrð svo, að þau heimiluðu aðeins að hefta innflutning á óþörfum eða gagnslausum vörutegundum, en ekki þeim vörum, sem telja má óþarfar af því, að nóg væri til af þeim í landinu sjálfu. Í þessum skilningi var svo farið að banna innflutning á einu og öðru smávegis; það var ungað út fjölda reglugerða um eitt og annað, sem bannað var og stj. kom auga á í þann og þann svipinn. Stundum munaði þetta ekki nema svo sem 10–15 þús. kr., sem innflutningur gat minnkað við eina reglugerð, en allar þessar reglugerðir voru áhrifalausar, því þær voru andvana fæddar og gerðu því ekkert gagn. Á þessu gekk til ársins 1923. Þá var nú fjárhagur landsins kominn í voðalegt öngþveiti í höndum Framsfl. sá flokkur hafði þá haft tvo fjármálaráðherra, hvorn eftir annan. Var óstjórnin og óreiðan þá svo mikil, að enginn vissi, hvernig efnahagurinn var. En til þess að reyna nú að bæta úr þessu, þá setti stj. nýja afarstranga reglugerð um innflutningsbann á vörum. Mun það hafa verið í byrjun ársins 1924, en þessi reglugerð kom aldrei til framkvæmda. Á því ári varð stefnubreyt. í þessum málum, er Íhaldsfl. tók við stjórn. Sú stj. gaf þá að vísu út aðra reglugerð, sem var miklu mildari en hin, en hún kom ekki heldur til framkvæmda, því um sama leyti kom annað fyrirbrigði, sem svelgdi upp í sig öll áhrif innflutningshaftanna, en það var verðtollurinn. Þá voru og mikil góðæri og innflutningurinn óx. Þessi aukni innflutningur kom fram mest á byggingarvörum, skipum, veiðarfærum, salti, kolum o. fl. Þetta var ekkert skaðlegt. Þjóðarauðurinn var að vaxa, og hann var jafnóðum festur í nauðsynlegum og arðbærum eignum. Þessi aukni innflutningur sýndi á pappírnum óhagstæðan verzlunarjöfnuð, en hann veitti stórfé í ríkissjóðinn, og ríkissjóðurinn gat borgað niður sínar skuldir.

Því hafði verið spáð árið 1921, ef innflutningshöftin yrðu afnumin, að þá mundi koma ógurleg skriða af óþörfum varningi inn í landið, allt mundi drukkna í óþarfa, — en hvað skeður? Það verður enginn var við neina breyt.; Það verða engir varir við neinn herbrest eða landskjálfta í sambandi við afnám innflutningshaftanna. Það getur náttúrlega skeð, að eitthvað lítilsháttar hafi aukizt innflutningur á leikföngum o. þ. h., en það gekk ekki til neitt líkt því, sem hæstv. forsrh. vildi láta það heita. Með stjórnarskiptunum 1924 var bara tekin upp önnur stefna í þessum efnum, stefna, sem dugði prýðilega. Tollur var mikið hækkaður á óþörfum varningi. Þm. voru öruggir um, að það mundi nægja til að hafa hemil á innflutningnum, og það reyndist rétt, og söluverðið hækkaði ekki sem svaraði tollinum. Þetta var betra en að láta smygla vörunum inn í landið, eins og alltaf er mikil hætta á, að gert verði þar, sem höft eru.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að ræðum hv. 3. landsk., hv. 2. hm. Árn. og hv. 6. landsk. Mér finnst þessir hv. þm. ræða málið alveg á röngum grundvelli. Þeir virðast álíta innflutningshöft sett til verndar landbúnaðinum, og eigi þau að hafa samskonar áhrif fyrir hann eins og verndartollar. En þetta er algerlega rangt. Ég gat um það í fyrri ræðu minni, að höftin væru aðeins sett til þess að varna innflutningi á óþarfavörum, og aðeins sem slík gætu þau haft stoð í heimildarlögunum frá 1920. Það væri ekki nokkur minnsta heimild í þeim lögum til þess að banna innflutning t. d. á matvælum eða nokkrum öðrum gagnlegum vörum, heldur aðeins óþarfavörum. Að það hefir samt sem áður verið gert, kemur ekki þessu máli við, því sjálfsagt hefðu verzlanir ekki þurft annað en að flytja inn þessar vörur þrátt fyrir bannið, lofa svo stj. að krefja sekta, en neita að greiða og láta dómstólana dæma. Tilgangur heimildarlaganna frá 1920 var frá því fyrsta enginn annar en sá, að spara kaup á óþarfavarningi. Þau lög verða ekki skilin á annan hátt. Það er því svo fjarri því, að hægt sé að segja, að landbúnaðinum sé rétt hnefahögg í andlitið með þessu frv., því að það snertir landbúnaðinn ekki neitt. Hitt er sér á parti, og má ræða um það sem sérstakt mál, hvort landbúnaðinum sé þörf á vernd fyrir sínar framleiðsluvörur, en það stendur ekkert í sambandi við þetta frv.

Hv. 3. landsk. sagði, að það væri rangt hjá mér, að innflutningshöftin, sem nú gilda, hefðu ekki komið að gagni. Hann sagði, að það þyrfti ekki annað en að líta í verzlunarskýrslurnar til þess að sjá, að þau hefðu gert gagn, því innflutningurinn hefði stórminnkað á fyrsta ári. Ég játaði þetta í fyrri ræðu minni, að ekki hefði verið flutt eins mikið inn og áður fyrsta árið, en þetta var svo aðeins meðan verið var að selja fyrirliggjandi birgðir af hinum bönnuðu vörum, meðan verið er að eyða nokkurskonar varasjóði verzlananna. En nú er reynslan orðin sú, að nú er innflutningurinn orðinn meiri það sem liðið er af þessu ári heldur en var áður en höftin voru sett og innflutningurinn var frjáls. Það fór í því efni eins og bæði ég og hv. 1. landsk. spáðum þá, að innflutningurinn mundi minnka fyrst í stað, en síðan sækja í sama horfið. En annars er það hæpið að treysta eingöngu á verzlunarskýrslurnar í þessum sökum, því innflutningurinn fer svo mikið eftir árferði. Þannig var það árin 1925 til 1927, að innflutningurinn lækkaði um 17 millj. kr., en á árunum 1927 til 1929 óx innflutningurinn aftur um 29 millj. kr. Þannig getur innflutningurinn sveiflazt til um tugi millj. kr. á þeim tímum, þegar allt er frjálst. Það er því ekki örugg sönnun fyrir áhrifum innflutningshaftanna, þó hægt sé að styðja fingrinum niður á eitt ár og segja: Þessu hafa höftin komið til leiðar.

Ég ætla ekki í þessum umr. að tala um þá vernd, sem landbúnaðurinn kann að hafa notið vegna innflutningshaftanna. Ég fullyrði ekkert um það, að þau hafi nokkur verið, en hafi lögin verið notuð til þess að banna innflutning á þörfum varningi, þá er það alveg ósæmilegt, og vilji stj. banna í framtíðinni að flytja inn slíkar vörur, þá verður hún að útvega sér til þess sérstaka heimild hjá Alþingi. En út af þessu vil ég þó aðeins segja, að það fer ekki vel á því, að hinir sömu menn, sem í ræðu og riti básúna út um landið, hve dýrtíðin sé mikil í Rvík, heimti, að bannað sé að flytja inn ódýr matvæli til þess að Rvíkurbúar séu neyddir til að kaupa vörur bænda. Annars verð ég að segja það, í sambandi við það, sem talað hefir verið um, að ekki mætti verða neitt tímabil á milli þess, að innflutningshöftin væru afnumin, og hins, að ný ráð yrðu fundin til hjálpar landbúnaði og iðnaði í samkeppni við innfluttar vörur, að ég sé ekki betur en það sé opin leið fyrir þá hina sömu n., sem þetta frv. fer væntanlega til, að gera till. um nýjar ráðstafanir í þessum efnum. Hinsvegar get ég tekið það aftur fram, að ég sé ekki ástæðu til þess, að bannaður verði innflutningur á nauðsynjavörum. Þess er ekki þörf, og það er heldur ekki réttlátt. Hæstv. ráðh. spurði, hvaðan ég hefði það, að innflutningshöftin hér væru óvinsæl meðal annara bjóða, og að þau mundu spilla fyrir okkur. Ég vil svara því, að ég hefi ekki betur getað skilið en að það sé nú keppikefli hverrar þjóðar að víggirða sig sem mest fyrir innflutningi vara frá öðrum þjóðum, en þær þjóðir kosta aftur á móti kapps um að reyna að brjóta niður þær víggirðingar, og hvað okkur snertir, þá veit ég ekki betur en að til sé þjóð, sem vildi flytja hingað inn landbúnaðarafurðir og hefir eftir því leitað. (Forsrh.: Hvaða þjóð er það?). Ég veit ekki, hvort ég má segja það upphátt; ég held, að það sé ekki opinbert mál, en það er svo stutt á milli okkar hæstv. ráðh. hér í þessari hv. d., að ég get hvíslað því að honum á eftir. En annað er það, sem er þó opinbert, og ég get fært máli mínu til stuðnings, að við höfum þó orðið að slaka til við Englendinga með því að lækka niður í 15% toll af vefnaðarvörum o. fl., sem hingað er flutt frá Englandi. En úr því að við höfum orðið að lækka okkar tolla til þess að geta náð samningum við þá, þá er auðsætt, að þeir mundu ekki þola okkur það, ef við færum að setja bann á þeirra vörur, enda skaut því upp hjá hæstv. forsrh., að höftin væru vopn, sem við ættum ekki ótilkvaddir að fleygja úr höndum okkar, og ef þau eru vopn í höndum okkar í viðskiptum við aðrar þjóðir, þá ana nærri geta, að þessi vopn, þ. e. a. s. höftin, muni ekki vera vinsæl hjá okkar viðskiptaþjóðum. Það væri þá kannske þessi ástæða til þess að halda í höftin, að það væri svo gott fyrir okkur að eiga þau til þess að kaupslaga með þau við aðrar þjóðir. En það getur þá bara verið dálítið vafasamt, hvort borgar sig að halda við höftunum þjóðinni sjálfri í skaða, í þeirri von, að hægt verði síðar að verzla með þau. Annars vil ég svara spurningum hæstv. ráðh. og segja honum, hvers vegna hann á ferðum sínum í útlöndum hefir aldrei orðið var við það, að höftin væru óvinsæl.

Aðrar þjóðir hafa aldrei minnzt á höftin við okkur, af því að þau eru einsdæmi í veröldinni; þær þekkja ekkert tilsvarandi hjá sjálfum sér og láta sér því hér um bil á sama standa, en aftur amast þær við tollum og slíku, sem fellur undir það. er þær þekkja hjá sér. Smæð okkar hefir í þessu efni varið okkur gegn íhlutun annara þjóða.

Hæstv. ráðh. minntist á 2 menn frá þjóðum, sem við höfum erfiðar verzlunarástæður við, ítalskan sendimann og Spánverja, sem hann sagði, að ekki hefðu heimtað höftin afnumin. En Miðjarðarhafsþjóðirnar geta fátt eitt selt okkur og eiga því erfitt með að gera okkur slíkar kröfur. Hæstv. ráðh. sagði reyndar, að Spánverjar gætu margt selt okkur, enda þótt þeir hefðu ekki sett fram slíkar kröfur. Þetta minnir mig á Spánverjann, sem fékk hér innflutningsleyfi, sem enginn annar gat fengið, að því er sagt var, til þess að koma okkur ekki illa við Spánarstjórn. Get ég skilið, að þessi maður hafi ekki kosið höftin afnumin hjá öðrum, því að hann hefir eflaust grætt á þessu, þar sem hann hafði einn innflutningsleyfi.

Þá upplýsti hæstv. ráðh., að stj. veitti sérstakar undanþágur um innflutningsleyfi frá Miðjarðarhafslöndunum, gegn ákvörðun haftanna. Þessu er ég ekki að amast við út af fyrir sig, vil aðeins að haldið sé áfram og höftin afnumin alveg. Þarna bætist líka enn ein ástæða við gegn þessum höftum. Ef fara á að gefa innflutningsleyfi fyrir sérstakar þjóðir, þá held ég, að þau séu líka farin að syngja sitt síðasta. Hæstv. ráðh. sagði, að haldið myndi áfram á þessari braut, ég held, að ef halda á áfram á þessari braut, þá muni höftin verða að hverfa alveg, ef vel á að fara.

Ég vildi stuðla að því, að þetta mál gæti fengið hér skjóta afgreiðslu. En með framkomu þessa frv. tek ég enga afstöðu til þess, hvað gera beri til að vernda innlendan iðnað og framleiðslu. Slíkar ráðstafanir verður að gera óháðar heimildarl. frá 1920. Þau heimila aðeins að banna innflutning óþarfavarnings, en hafa ekki það hlutverk að vernda innlenda framleiðslu. Ef slíkar ráðstafanir skyldu koma til tals, mun ég verða fús til viðtals og samkomulags. Og ef einhverjir eru hræddir um, að menn fari hér svo mjög eftir vilja sérstakra kjósenda, þá get ég bent á, að ég á líka allmarga kjósendur, sem væru slíku fylgjandi.