02.12.1933
Efri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (1292)

63. mál, áveitur

Kári Sigurjónsson:

Eins og hv. form. 1andlbn. hefir skýrt fra, hefir mál þetta verið nokkuð athugað í landbn. Hann skýrði og frá því, að líkur væru til, að n. öll greiddi till. atkv. Ég ætla ekki að bera það til baka, að líkur geti verið til þessa, en þó vil ég taka það fram, að nokkuð er það bæði í orðalagi og efni þessarar till., sem ég get ekki gengið inn á með ráðnum huga. Það, sem ég hefi aðallega nokkuð við að athuga, er orðalag á seinna lið fyrri málsgr. till., um samræmingu á greiðslu áveitukostnaðar. Þetta ákvæði till. bendir til þess, er þing og stjórn upphaflega lögðu fram fé sem lán og styrk til áveitufyrirtækjanna. Á þeim tíma varð eigi séð nema skammt fram í tímann um fjárhagsleg afdrif þeirra. Orðalag till. virðist byggt á þeirri hugsun, að þegar á síðasta þingi var gengið inn á að gefa Flóaáveitunni svo að segja allt það fé, sem ríkissjóður hefir lagt til þessa fyrirtækis, sem á sínum tíma var álitið þjóðþrifafyrirtæki, þá hafa önnur áveitufyrirtæki orðið hart úti, þegar þau njóta ekki hlutfallslega jafnmikillar uppgjafar. Það liggur í orðalagi till., að þeir verði hlutfallslega hart úti, og jafnvel sagt „harðast“ úti, sem ekki njóti þessa jafnréttis. Ég kann illa við þetta orðalag. Það, sem gerðist á síðasta þingi, er Flóaáveitunni var gefinn eftir svo að segja allur stofnkostnaðurinn, var ekkert jafnréttisverk. Það var líknarverk, sem unnið var á nauðstöddum atvinnuvegi. Ég held, að þeir landshlutar, sem engar uppgjafir hafa fengið úr ríkissjóði, slíkar sem Flóaáveitan, líti ekki svo á, að Skeiðaáveitan hafi orðið hart úti í viðskiptum við ríkissjóð, og þurfi þess vegna að gera jafnréttiskröfu miðað við önnur héruð landsins. Ég lít ekki heldur svo á. Ég lít svo á, að þegar ríkið styður einhvern atvinnuveg verulega, þá veiti það honum styrk, en greiði þar með enga skuld eða kröfu. Nú er sagt með till., að Skeiðaáveitan eigi jafnréttiskröfu miðað við Flóaáveituna. Ef þetta er svo, mundu þá ekki mörg héruð í landinu og einstaklingar geta borið sig saman við bændur á Skeiðaáveitusvæðinu?

Mér finnst sú hugsun, sem bak við netta atriði till. vakir, vera röng, og mér finnst hún vera flutt með þeirri frekju, að ég get ekki orða bundizt. Ég mun þó ekki greiða atkv. á móti till., af því málinu er vísað til hæstv. stj., sem ég treysti til þess að láta málefnið hvorki njóta þess né gjalda, í hverju formi eða með hvaða orðalagi það er nú flutt. Það var ekki hugsun mín að knésetja hv. flm., en ég vil mælast til þess, að þeir, sem biðja um stór framlög úr ríkissjóði, séu hofmannlegir í málaleitun sinni um framlag opinbers fjár.

Þá skal ég minnast á síðasta málsl. till., um tilraunastöðina. Ég skal játa það, að ég hefi ekki haft í mínum búskap aðstöðu til þess að kynnast tilraunastöðvum og því gagni, sem af þeim má verða, til þess að geta myndað mér skoðun um þær frambærilega hér á Alþingi. En ég get ekki varizt þeirri hugsun, að þar sem búið er að undirbyggja einn atvinnuveg, svo sem búið er með stóráveitunum austan fjalls, sé of lítið gert úr bændunum, með því að treysta þeim ekki til að kunna að fóðra á því heyi, sem grasakur þessi gefur af sér, án þess að tilraunastöð sé sett til að kenna þeim þetta. Má vera, að það kunni að þykja nokkuð gamaldags skoðun, en ekkert sakar samt, þó að hún komi hér fram.

Þó ég nú greiði því atkv., að stj. taki til undirbúnings löggjöf í þessa átt, er þáltill. fer fram á, þá er ég alls ekki viss um, ef ég síðar á þingum ætti að greiða atkv. um svona mál, nema ég brygði fæti fyrir slíkar kröfur. Því þarf nú ekki að gera ráð fyrir. En ég áleit rétt að gera þessa aths. an þess ég ætli að ganga gegn því, sem hv. form. landbn. hefir sagt, er hann lýsti því yfir, að n. mundi greiða till. atkv. á þessu þingi.