29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (1328)

77. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Það stóðu svo sakir, að ég var ekki viðstaddur þegar þetta mál var hér síðast til umr. Ég bjóst ekki við, að það yrði afgr. þá. En slíkt gerir þó í sjálfu sér ekki til, þar sem þessi umr. er eftir.

Ég tók það fram í sambandi við annað mál, sem hér var til meðferðar fyrir nokkru, að þessi till. skyldi ekki fara alveg umræðulaust út úr þessari deild. Ég lít svo á og veit, að það er álit margra manna, að það sé alveg óviðeigandi að halda dýrtíðaruppbót áfram eins og nú er ástatt um hag mikils hluta þjóðarinnar. Þetta er að vísu fjölþætt mál, og mætti um það segja mörg orð. En ég mun þó eigi fara langt út í ráð né verða orðmargur að sinni, fyrr en þá að mér gefst ástæða til vegna andmæla. Ég vil þó minna á, að ástand atvinnuveganna, sérstaklega framleiðendanna, hefir verið svo undanfarin ár, að sífelldur rekstrarhalli hefir orðið á atvinnurekstrinum, og stefnir enn lengra niður á við. Hagur fjölmargra þeirra, er landbúnað stunda, stendur nú svo illa, að taka hefir orðið það ráð að auglýsa þá sem hálfgerða vanskilamenn. Hafa þeir orðið að sætta sig við þetta, til þess að fá bjargað sinni brýnustu þörf um að rétta framleiðsluna. Þegar svo er ástatt, er varla rétt að veita dýrtíðaruppbót til þeirra, sem sitja í þeim stöðum, sem eru mjög eftirsóttar og flestir vilja komast í. Það er að vísu satt, að mikið misrétti felst í launakjörum embættis- og starfsmanna eins og þau eru nú orðin. En það er ekki því að kenna, að launin séu yfirleitt of lág, heldur er það vegna þeirrar stefnu, er upp hefir verið tekin um launagreiðslur við þau störf, sem stofnuð hafa verið nú á síðustu árum. — Ég fæ spurningu um það frá hæstv. forseta, hvort ég vilji ekki fresta ræðu minni. Ég get fallizt á það, þar sem fundartími er liðinn, en ég hefi ýmislegt fleira um þetta að segja. [Frh.]