02.12.1933
Sameinað þing: 7. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (1414)

57. mál, varalögregla

Thor Thors:

Það er nú orðið mjög áliðið fundartímans, þar sem hv. þm. Seyðf. fann óstöðvandi hvöt hjá sér til að standa upp og halda eina af sínum löngu og, að því er hann sjálfur álítur, mælskufullu ræðum. Því er þannig háttað með þennan hv. þm., að það er bersýnilegt í hvert sinn, sem hann stendur upp, hversu innilega ánægju hann hefir af að hlýða á sjálfan sig. Því verður nú heldur ekki neitað, að honum er létt um mál og að það getur verið gaman að hlusta á hann, en þessi síðasta ræða hans, hún var vissulega ekki eins merkileg og hún var löng.

Hv. þm. Seyðf. varði miklu af fyrri hluta ræðu sinnar til þess að sýna fram á, hvað hefði mátt gera við það fé, sem búið er að verja til ríkislögreglunnar. Nú vil ég spyrja hv. þdm.: Hvað kemur þetta því máli við, sem verið er að ræða um? Þetta fé er búið, og það verður ekki endurheimt, og þess vegna skiptir þetta engu máli.

Það er ánægjulegt að sjá bankastjórann rísa upp hér og benda á fyrirtæki, sem mætti verja fé til, og það gæti gefið leiðbeiningar um, hvernig hann mundi reka sína bankastjórastarfsemi, ef hann hefði nægilegt fé á milli handanna. En í þessu sambandi skiptir þetta tal hans ekki máli og er talað út í loftið, og er furða á, að þessi þm., sem annars er talinn skýr maður, skuli leyfa sér að tefja dýran tíma hins virðulega Alþingis með þessu hjali.

Það er einkennilegt, hve digurbarkalega þessir herrar, hv. sócíalistar hér á þingi, tala um stofnun ríkisiögreglunnar, þegar það er augljóst, að þeir áttu stórkostlegan þátt í, að hún var stofnuð. Sérstaklega kom hv. 2. þm. Reykv. fram eins og hreinasti ofbeldismaður, þar sem hann hefði þó átt, sem friðsamur sócíaldemókrat, að sjá um, að allt væri lögum samkvæmt og regla héldist. það liggur í augum uppi og hefir verið bent á það við umr. hér, að jafnaðarmenn eiga stórkostlegan þátt í því, hve dýr lögreglan hefir orðið, með því að bægja þeim mönnum, sem í henni hafa verið, frá vinnu. Þeir voru ekki að horfa í það, þó að hér ættu hlut að máli fátækir heimilisfeður, sem áttu enga björg aðra en þá, sem hendur þeirra veittu þeim, eða hugsa um velferð þeirra alþýðuheimila, sem þar var um að ræða. Þar réði ekkert gerðum þeirra, nema miskunnarlaust og blint flokksofstæki, og það er því þeirra eigin þunga sök, hve dýr lögreglan hefir arðið. Hv. þm. Seyðf. var að spyrja um, hvað hefði fengizt fyrir þessa lögreglu. Síðan lögregian komst á fót hefir linnt þeim árásum, sem hafnar voru gegn þjóðskipulaginu.

Hæstv. dómsmrh. hefir nú skýrt jafnaðarmönnum frá því, hvernig á því stendur, að lögreglan hefir ekki verið lögð niður fyrr, og þarf því ekki að gera það frekar. En það er dálítið einkennileg þessi fælni íslenzku sócíalistanna við lögregluna. Það er einkennilegt, þegar framkoma þeirra er borin saman við afstöðu flokksbræðra þeirra erlendis, sérstaklega í Danmörku. Það hefir virzt svo, að íslenzkir sócíalistar hafi haft mikið dalaeti á dönskum sócíalistum og viljað taka þá til fyrirmyndar um margt. T. d. er í blaði jafnaðarmanna hér í dag sagt frá því, að danskir kommúnistar hafi hafið árás á forvígismann dönsku jafnaðarmannanna, Stauning, og er Alþýðublaðið mjög sárt yfir þessu. Það er dálítið einkennilegt, að jafnframt því, sem jafnaðarmenn kvarta undan árásum danskra kommúnista á jafnaðarmenn þar, þá virðast þeir bera sérstakan velvildarhug til kommúnista. Hv. þm. Seyðf. var í ræðu sinni að sýna fram á, að kommúnistar væru ekki eins hættulegir og bent hefir verið á hér í þinginu, og taldi enga ástæðu til að beita sérstökum varúðarráðstöfunum gegn þessum stjórnmálaflokki. Þetta er einnig í samræmi við síðasta hluta ræðu hans, þar sem hann talaði með hárri raustu um „byltingu og gerbreytingu þjóðskipulagsins!“ Áður en ég vík að því atriði, vil ég svara nokkrum fyrirspurnum, sem hv. þm. Seyðf. beindi til hv. þm. G.-K., sem ekki er viðstaddur. Fyrsta fyrirspurnin var ákaflega alvarleg og var um, hverskonar hernaðarfyrirtæki fánaliðið, sem æfir sig í Kveldúlfsporti, væri. Ég vil leyfa mér að skýra hv. þm. frá því, að það er engin ástæða til þess að hræðast þessa sveit hvorki fyrir hann né aðra. Það eru aðeins nokkrir ungir menn, sem æfa sig ýmist þar eða annarsstaðar í leikfimi og fögrum limaburði. Þeir hafa engin vopn, en aðeins fána sinn, hinn íslenzka þjóðfána, og sé ég ekki ástæðu til að kalla hann vopn, hvað sem hv. þm. gerir. Þeim hefir verið leyft að æfa sig í Kveldúlfsporti ásamt fleiri fyrirtækjum, t. d. æfir sig þar lúðrasveit, sem spilar oft við kröfugöngur hjá kommúnistum, og það sýnir, að portið er ekki notað í pólitískum tilgangi. Ennfremur vil ég segja hv. þm. það, að ef hann langar til að koma í Kveldúlfsport og æfa sig þar t. d.í ræðuhöldum, þá er honum það velkomið og flokksbræðrum hans líka.

Út af þessari fyrirspurn um þessar æfingar vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. dómsmrh., hvort hann viti, hvernig þær æfingar hafa farið fram, sem hv. 2. þm. Reykv. beitti sér fyrir í fyrra. Það lið var kallað baráttulið Alþfl., og þætti mér vænt um að fá upplýst, hve margir menn hafa verið í því og hvaða vopn þeir hafa haft og hvaða hlutverk þeir eiga að vinna.

Áður en ég vik að því að svara hv. þm. Seyðf. frekar, þá vil ég fara út í það, sem aðallega gaf mér tilefni til að standa upp, en það eru nokkrar skýringar á þessum l., sem hér liggja fyrir, samanborið við þáltill. Ég vona, að hæstv. dómsmrh. taki það ekki illa upp, þó að ég leyfi mér að skýra þessi lög eins og þau koma mér fyrir sjónir.

Ég fæ ekki betur séð en hér sé um tvennt að ræða. Annaðhvort eru þessar þáltill. baðar, bæði hinna yfirlýstu jafnaðarmanna, sem er á þskj. 104, og viðbótartill. hins raunverulega flokksbróður þeirra, hv. 1. þm. S.-M. (EystJ), sem er skráð á þskj. 231, hreinasta markleysa, eða þær brjóta í bága við lög. Og ég fæ eigi hefur séð en það sé óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu, að þær brjóti í bága við lög. Í till. jafnaðarmanna á þskj. 104 er svo að orði komizt: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að stofna hvergi til varalögreglu í kaupstöðum landsins“. Hér hlýtur að vera brotið í bága við lög um lögreglumenn, nr. 92 frá 1933, því að í 6. gr. þeirra laga segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar sérstaklega stendur á og ráðh. telur nauðsynlegt öryggi bæjar, að lögregluliðið sé aukið meira en segir í 1. gr., getur hann bætt við varalögreglumönnum“. Í 6. gr. l. er ráðh. því gefinn þessi ákveðni réttur.

Ef þáltill., sem fer fram á að taka þennan rétt af ráðherra, er nú samþ., þá er það brot á I. Um till. á þskj. 231 vil ég segja það, að hún brýtur einnig í bága við 1. Þar segir fyrst og fremst, að banna eigi að stofna varalögreglu eins og nú standa sakir. Þetta brýtur einnig í bága við 6. gr., sem gefur ráðh. tvímælalausan rétt til að stofna varalögreglu, þegar hann álítur þörf á þvi. Síðari hluti þessarar þáltill. brýtur líka í baga við l. Þar segir, að aldrei megi stofna til varalögreglu nema áður sé fyrirskipuð og fullnægt hámarksfjölgun lögregluþjóna eftir 1. gr. laga um lögreglumenn frá 1933. Í 1. gr. laganna er svo ákveðið, að nægilegt sé, að starfandi séu allt að tveir lögregluþjónar á hverja þús. íbúa. Ef þessi hámarksfjölgun á skilyrðislaust að ráða, þá eru orðin „allt að“ í 1. gr. þessara laga orðin þýðingarlaus. Ég vil geta þess, að í 2. gr. þessara laga er sagt, að ríkið skuli byrja að gjalda til lögreglu, þegar kominn sé einn starfandi lögregluþjónn á hverja 700 íbúa í kaupstöðum. Ég hygg því, að ákvæði 1. gr. l. eigi að skýrast af ákvæðum 2. gr. Nægilegt skilyrði fyrir stofnun varalögreglu er þá samkv. því, að 1 lögregluþjónn sé fyrir hverja 700 íbúa. Samkv. því sé ég ekki, að ákvæði laganna um lögreglumenn séu því til fyrirstöðu, að stofnuð verði nú varalögregla hér í Rvík. nú eru fastir lögregluþjónar hér 48, en samkv. 2. gr. laganna ætti að vera nægilegt, að þeir væru 43.

Hv. þm. Seyðf. fór mjög á víð og dreif í sinni ræðu. Kemur það einkennilega fyrir sjónir, að öðru leyti en því, að það mun vera eðlisbundin nauðsyn fyrir hv. þm. að halda langar ræður. En hv. þm. afsannaði það ekki, að um þessi l. varð samkomulag á síðasta þingi milli tveggja stærstu þingflokkanna. Og því væri það hreinn og beinn hringlandaháttur, ef Alþ. færi nú að gera óþinglega og ósæmilega tilraun til að breyta með þál. 1., sem þá voru sett. Kjarni þessa máls er vitanlega sá, hvort ríkisvaldið álítur nauðsynlegt að hafa að baki sér vald til þess að halda uppi þeim 1. og boðorðum, sem sett hafa verið á lýðræðislegan hátt. Hv. þm. talaði mikið um lýðræði, og er gott að fá ástæðu til að minnast á það mál. Því hefir verið haldið fram nú undanfarið í andstöðublöðum þess flokks, sem ég fylgi að málum, að nauðsynlegt væri fyrir framsóknarmenn og jafnaðarmenn að standa saman gegn einhverju ímynduðu ofbeldi, sem þeir hafa viljað telja væntanlegt frá mínum flokki. Ég vil nú alveg vísa á bug slíkum aðdróttunum og minna á, að Sjálfstfl. átti mestan og beztan þáttinn í þeirri stjórnarskrá, sem nú nýlega er samþ. og felur í sér aukna tryggingu lýðræðisins og aukin réttindi landsmönnum til handa. Og hvað sem um það kann að verða sagt, að Sjálfstfl. hafi seint komið fram með þá réttarbót, þá er það þó fyrst og fremst fyrir hans tilverknað, að þessi réttarbót hefir fengizt samþ. Og ég vil minna á, að Framsfl., sem nú er að verða sambandsfl. sócíalista, beitti sér mjög gegn þessu réttlætis- og lýðræðismáli. Ég vil nota tækifærið, þar sem ég get nú talað við hv. 4. landsk., að geta þess, að fyrir kosningarnar síðustu varð ég fyrir því láni, að hann elti mig fund af fundi í því kjördæmi, sem ég nú er þm. fyrir. Og í sveitunum kallaði hann þá samninga, sem urðu um stjórnarskrármálið á síðasta þingi, hreina nauðungarsamninga og fór um þá hinum ofsafengnustu og bvirðulegustu orðum. — Í sjávarporpunum þorði þessi hv. þm. að vísu ekki að hafa um hönd sama orðbragðið. Þannig er þá sá lýðræðisandi, sem sócíalistar leggja nú mest ástfóstur á og vilja ólmir tengjast. En það er þó ekki nóg til tryggingar lýðræðinu að haga lagasetningu svo, að allir þegnar þjóðfélagsins hafi sem jöfnust áhrif á löggjöf landsins, því sú löggjöf getur orðið einskis virði, ef ekkert vald er á bak við, sem sér um, að henni sé framfylgt. Íslenzka þjóðfélagið þekkir það af fornri reynslu, hversu gefst að hafa lýðræðisskipulag án þess jafnframt að hafa hæfilega sterkt framkvæmdarvald á bak við til að framfylgja lögunum og á þann hátt að vernda og treysta lýðræðið. Ef því uppi á að halda lýðræðinu, svo að það sé annað og meira en pappírslýðræði, þá þarf til þess vald, sem er sterkara en þau öfl, sem á hverjum tíma sækja á lýðræðið og leitast við að tortíma því. Stofnun hæfilega styrkrar lögreglu er því annar liður lýðræðisins. Hún er vald á bak við ríkisvaldið, sem kveður niður allar árásir á framkvæmd lýðræðisins, hvaðan sem þær árásir koma. Hún á að tryggja það, að ríkisvaldið sé á öllum tímum sterkasta aflið í þjóðfélagi voru. Ég veit nú reyndar, að sócíalistar viðurkenna þetta í hjarta sínu. Afstaða sú, er þeir hafa tekið í þessu máli, er til þess gerð, að slá um sig með henni á kjósendafundum. Og ég er viss um það, að ef sá óheilladagur á einhverntíma að færast yfir þetta land, að sócíalistar komist til valda, þá verða þeir innilega fegnir að taka við sem styrkastri lögreglu. Í því eru þeir auðvitað alveg sama sinnis og flokksbræður þeirra í öðrum löndum. Blekkingar sócíalistaþingmanna um, að varalögreglan sé stofnuð til höfuðs verkalýðnum í landinu, hitta ekki að öðru leyti en því, að með þeim svivirða þeir verkamannastéttina, þar sem þeir með því gefa í skyn, að verkamennirnir séu sérstakir stofnendur lögbrota.

Hv. þm. Seyðf. endaði ræðu sína á því að lýsa yfir því, að sósíalistar „vildu granda núverandi þjóðskipulagi“. Þetta voru hans óbreytt orð, hvernig sem hann síðar kann að víkja þeim við. Ég verð nú að þakka svo hreinskilnislega játningu. En ég vil þó nokkuð draga í efa, að hún sé rétt. Ég vil þá minna á það, að einn byltingamaðurinn situr nú í forsetastól hins sameinaða Alþingis. Ég get raunar eigi varizt þeirri hugsun, að mér virðist svipurinn eigi beint benda til þess, að þessi hv. þm. sé mjög sólginn í að granda núverandi þjóðskipulagi. En maður verður víst að taka eitthvert mark á hv. þm. Seyðf., og er þá ástæða til að óska Framsfl. til hamingju með þennan byltingasinnaða sócíalista, sem þeir hafa kjörið, í fyrsta sinn í þingsögu Íslendinga, til að skipa öndvegissess Alþingis.

Hv. þm. Seyðf. vill afnema þjóðskipulagið. Við sjálfstfl.menn viljum það ekki. Við teljum að vísu, að það sé gallað að mörgu leyti og þurfi umbóta við. En við viljum bæta það, en ekki bylta. Við erum umbótamenn, ekki byltingamenn. Við viljum gera þær umbætur eftir því sem frekast eru föng á á hverjum tíma, að öllum borgurum þjóðfélagsins geti liðið sem bezt. Við vitum, að hagsmunir okkar sjálfra eru bezt tryggðir með því. Af sócíalistum þarf ekki að vænta slíks. Þeir segjast sjálfir vilja kollvarpa þjóðskipulaginu. Mannúðarmálin, sem sócíalistar þykjast berjast fyrir, eru frá þeirra hálfu aðeins kosningabeita, því þeir vilja granda þjóðskipulaginu, eins og hv. þm. Seyðf. tók fram. Við sjálfstæðismenn viljum hinsvegar beita umboði okkar til þess að auka almenna hagsæld, frelsi og lýðræði þjóðarinnar og treysta frjálsræði og framtak einstaklinganna í þjóðfélaginu. Við erum á móti því að hafa öll völd, alla afkomu manna og ytri örlög þeirra undir einum hatti einum stórum, svörtum, ljótum, götóttum, skítugum og lúsugum stjórnarhatti.

Hv. þm. Seyðf. beindi því til hv. 1. landsk. þm., að hann ætti að beygja sig fyrir rökum hans. Þetta er nú meiri græðgin. Sócíalistum er það ekki nóg að hafa gleypt Framsfl., heldur vilja þeir nú líka gleypa Sjálfstfl. Ég verð nú að biðja þá um að kunna sér dálítið betur hóf. En þegar öllu er á botninn hvolft — og það bið ég menn að athuga —, ber þó ekki að taka þessa mælskuþrungnu ræðu hv. þm. Seyðf. eins alvarlega og orðin gáfu tilefni til. Það verður að skoða þau í því Ijósi, að hv. þm. sótti það afarfast, ásamt öðrum sócíalistum, að komast í flatsængina til framsóknarmanna, og það jafnvel þótt þeir hafi það ekki enn á sinni stefnuskrá að granda þjóðskipulaginu.