29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (1425)

79. mál, síldarbræðslustöð Útvegsbanka Íslands hf á Öndundarfirði

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. l. þm. Reykv. telur, að dýrt muni vera að kaupa þessa verksmiðju á þann hátt, að ríkið yfirtaki eitthvað af enska láninu frá 1921. Það er satt, að það lán var dýrt. En vitanlega hefir vaxtauphæð lánsins áhrif á kaupverð verksmiðjunnar. Hv. þm. var að lýsa eftir samvinnumönnum. Ég hefði getað lýst eftir sjálfstæðismönnum, þegar verksmiðja dr. Pauls þar keypt og þegar síldarbræðsluverksmiðja ríkisins var stofnuð. Þá vildu sjálfstæðismenn hafa ríkisrekstur á henni. Ég vildi láta reka hana sem samvinnufyrirtæki, þannig að verksmiðjan tæki vöruna til vinnslu og skilaði aftur andvirði hennar að frádregnum rekstrarkostnaði. En útgerðarmenn, sem flestir eru sjálfstæðismenn. hafa einatt þvingað fram, að verksmiðjan. keypti síldina og ynni úr henni á eigin ábyrgð. Hv. þm. telur hægt að láta Útvegsbankann gera þessa verksmiðju að samvinnufyrirtæki. Bankinn hefir nú bæði viljað selja einstaklingum og samvinnufyrirtækjum verksmiðjuna, en ekki tekizt. Hann hefir orðið að sætta sig við vafasama leigjendur ár frá ári. Það er að vísu ekki mikill munur á, hvort ríkið eða bankinn rekur þessa verksmiðju. Eðlilegra er þó, að ríkið geri það, enda er bankinn ófús til þess.