08.12.1933
Sameinað þing: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í D-deild Alþingistíðinda. (1478)

84. mál, áfengismálið

Pétur Ottesen:

Ég verð nú að segja það, að það var ekki að ófyrirsynju eða ástæðulausu, þó að hv. þm. Vestm. byrjaði ræðu sína á því, að það bæri að með dálitið óvenjulegum hætti þetta fundarhald hér í kvöld, þar sem fundur var settur í þann mund, sem skikkanlegt fólk í þessu landi er vant að ganga til hvílu sinnar. Það má náttúrlega segja það með réttu um hv. alþm., að þeir séu ekki hvað sízt vökumenn þjóðarinnar. En ég verð að segja það, að það hefði verið æskilegra að mínu viti, að þeir helguðu þessa sína vökumennsku í nótt öðru heppilegra og betra máli heldur en því, sem hér liggur fyrir.

Það er ákaflega áberandi í öllum malaflutningi andbanninga, þeirra manna, sem hafa nú lagt fram ákaflega mikla krafta og mikið starf í að reyna að rífa niður þá bannlöggjöf, sem við höfum í þessu landi, og þær litlu varnarráðstafanir, sem í henni felast ennþá, hvað þeir vitna nú djarft og freklega í þá þjóðaratkvgr., sem fór fram fyrsta vetrardag síðastl. um bannlögjn. Það er ákaflega áberandi, segi ég, hversu gersamlega þeir snúa við blaðinu í þessu efni, því að það er alkunnugt, að á tveimur undanförnum þingum, þinginu 1932 og þinginu 1933, ætluðu þeir að knýja fram afnám bannlaganna án þess að skeyta nokkuð um vilja kjósendanna í því efni, án þess að leita þjóðaratkvæðis um málið. Þá þurfti ekki að spyrja þjóðina ráða. Nei, henni kom það ekkert við. þeir börðu í borðið, espuðu sig og ygldu á allan hátt, þegar heim var bent á þann eðlilega hlut, að eins og bannlögunum var komið á að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, eins væri sjálfsagt og eðlilegt, að það yrði ekki afnumið án þess að þjóðaratkvgr. yrði látin ganga um málið. Þeir ætluðu að springa yfir þeirri lítilsvirðingu, sem þeim þótti Alþingi vera sýnd með því að skjóta því undan þeirri ábyrgð að ákveða þetta á eigin hönd og bera það undir þjóðina. Ég get ekki útmálað þá fyrirlitningu, sem fólst í svip þeirra og látbragði yfir því, að menn skyldu vera að tala um að bera þetta undir þjóðina, svo lítilmótleg, þjóðingarlaus og einskisverð fannst þeim þessi þjóðaratkvgr. þá. Nú hrópa þeir jafnhátt um það, að sjálfsagt sé á þessu aukaþingi, sem skotið er á til þess eins að afgr. stjórnarskrármálið og kosningalögin, að afnema bannið, án þess að nokkrar þær breytingar séu gerðar á áfengislögunum, er miða að því að draga úr hættunni, sem óhjákvæmilega er samfara því takmarkalausa vínflóði inn í landið, sem af þessu leiðir. — Þetta er þjóðarviljinn, segja þeir, og við krefjumst, að eftir honum sé farið. Nú hlaupa þessir hv. þm. til handa og fóta og segja, að það sé hreinasta brot á þjóðarviljanum, sem fram kom við atkvgr., þessum helgidómi, sem þeir fordæmdu aður, en sjá nú ekki sólina fyrir, ef þessu aukaþingi sliti svo, að hinir vínþyrstu menn fái ekki takmarkalausa fullnægingu á sínum gráðuga vilja. Og svo er ásóknin í þetta mikil og stjórnlaus, að þeir grípa til þess óyndisúrræðis, þegar öll von er úti um að koma þessu máli fram á þinglegan hátt — fá það samþ. í báðum deildum —, að reyna þá seinustu nóttina, sem gert er ráð fyrir að þingið standi, að koma þessu fram með þeim óskaplega hætti, að með þeirri aðferð, sem nú er valin, er hreint og beint reitt til höggs við sjálft þingræðið. (ÓTh: Guð hjálpi þeim!). Já, ég get sannarlega, af öllum þeir trúarkrafti, sem ég á til, tekið undir með hv. þm. G.K. og sagt: Guð hjálpi þeim.

Það varð ekki hjá því komizt að benda á þetta óskaplega ósamræmi um aðstöðu til þjóðarviljans, sem kemur fram hjá þessum hv. þm. á tveimur undanförnum þingum og nú á þessu aukaþingi. Það er fullkomlega þess vert, að því sé gaumur gefinn, hvernig þeir hv. þm., sem að till. þessari standa og ég beini nú máli mínu til, hlaupa úr einu í annað í þessu máli, eftir því sem vindurinn blæs, og ekki er það minnst um vert, ef þeir fengjust sjálfir til að leiða hugann að ósamkvæmninni í sinni eigin framkomu, sem ég mun nú frekar gera að umtalsefni; en áður en ég geri það vil ég fara nokkrum orðum um þjóðaratkvgr., sem fór fram síðasta vetrardag.

Atkvæðagreiðslan hefir fallið þannig, að 14 kjördæmi hafa verið með afnámi bannsins, en 13 á móti. hað hefir fengizt meiri hl. með afnámi bannsins á þann hátt, að tiltölulega lítill hluti á landinu, Reykjavík, Rangárvallasýsla, Vestmannaeyjakaupstaður og nágrenni Rvíkur. Gullbr.- og Kjósarsýsla, skera úr um það, að meiri hl. hefir fengizt fyrir því að afnema bannið. Það eru því 4 kjördæmi af 27, sem marka stefnuna og á veltur um úrslit þessa máls. En ég er ekki að gera lítið úr atkvgr., þó að hún hafi fallið svo sem raun varð á, því að það er okkar háttur um atkvæðagreiðslu, að úrslit mála eru ekki bundin við það, hvernig atkv. falla á hverjum stað, heldur er það meiri hl., sem ræður og vitanlega á að ráða. En þó er rétt í þessu sambandi, þegar verið er að hrópa hátt um þjóðarviljann í þessu efni, að benda á, að þessi vilji er nokkuð staðbundinn og gagnstæður vilji á sér stað í eins mörgum kjördæmum, eins og atkvgr. sýnir.

Ég hefi nú fyrir skemmstu bent á ósamræmið í framkomu andbanninga á þingi fyrr og nú viðvíkjandi því, hvort þetta mál skyldi borið undir þjóðaratkvæði eða ekki. Þá er ekki síður ástæða til að benda á það ósamræmi, sem kemur fram hjá þeim í því fyrr og nú, hvernig með málið skyldi farið á þingi að aflokinni þjóðaratkvgr.

Ég vil benda á eitt atriði, sem rétt er að athuga í samhandi við það, þegar verið er að tala um þjóðarviljann, sem ég alls ekki vil gera lítið úr, og það er, hvernig þetta mál var lagt fyrir þjóðina og hvað það er, sem hefir mótað þjóðarviljann. Ég vildi, að hv. þm. Vestm. hlustaði á það, sem ég segi um þetta atriði, ef hann er ekki mjög vant við látinn, af því það snertir hann sérstaklega sem flm. þeirrar þáltill., sem lögð var til grundvallar fyrir samþ. síðasta þings um þjóðaratkvgr.

Það kemur mjög greinilega fram, hvernig þeir menn, sem fluttu þáltill. um það á síðasta þingi að bera þetta mál undir þjóðaratkvæði, hugsuðu sér gang þessa máls, og hvernig þeir hugsuðu sér, að um hnútana væri búið áður en Alþingi tæki síðustu ákvörðun um það, að bannið yrði afnumið eða breytt yrði áfengislöggjöfinni. Og ég vil biðja hv. þm. Vestm. sem einn flm. þeirrar till. og nú er í fararbroddi þeirra manna, sem halda fram þjóðarviljanum, að taka sérstaklega vel eftir því, sem þeir segja í grg. sinni fyrir þeirri till. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fari svo, að þjóðin vilji afnema bann það, er nú gildir, ætlast flm. til, að ríkisstj. láti semja og leggi fyrir næsta þing löggjöf um innflutning áfengra drykkja og um sölu þeirra, sem flm. gera ráð fyrir, að fari fram undir eftirliti ríkisins og með þeim takmörkunum, sem réttar þykja, að beztu manna yfirsyn, til þess að koma í veg fyrir óhóflega áfengisnautn.“

Þannig er málið lagt fyrir þjóðina. Hún er spurð að því, hvort hún vilji afnema bannlögin með því, að svo sé um búið aður en þingið taki endanlega ákvörðun um afgreiðslu þessa mals, að samin sé eftir beztu manna yfirsýn heilsteypt áfengislöggjöf, þar sem gerðar séu miklar ráðstafanir gegn þeirri hættu, sem leiðir af því að hleypa sterkum drykkjum óhindrað inn í landið. Það er þetta, sem þjóðin hefir fyrir augum, þegar hún greiðir atkv. um, hvort þetta spor skuli stigið eða ekki; það er í trausti þess, að slíkar varnarraðstafanir séu gerðar aður eða samtímis því, sem bannið er afnumið, að fengizt hefir meiri hl. með því að afnema bannið.

Ég vil ennfremur benda a, að hv. flm. þessarar þáltill. þótti ekki nógu ríkt kveðið að orði í grg. þeirra fyrir till., heldur áréttar fyrsti flm. till. þetta ennþá betur við flutning málsins. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við flm. þáltill. gerum ráð fyrir í grg. og teljum sjálfsagt, ef svo fer, að þjóðaratkvæði sýni vilja til afnáms bannlaganna, að þá undirbúi stj. löggjöf um áfengismálin og leggi hana fyrir næsta þing. Þá ber við samning slíks frv. að taka tillit til þeirra manna, sem vilja berjast gegn neyzlu áfengra drykkja. Ætlumst við til, að notkun þeirra verði svo stillt í hóf, að sem minnst tjón yrði að fyrir þjóðfélagið. Við álítum óþarft að taka þetta fram í sjálfri þáltill., en töldum hað nægja að taka þetta fram í greinargerðinni“.

Það er á þessum grundvelli, sem flm. þáltill. um þjóðaratkvgr. ætluðust til, að málið yrði lagt fyrir þjóðina, að kjósendur mættu hafa tryggingu fyrir því, ef atkvgr. felli á þann veg, að meiri hl. yrði á móti banninu, að að engu yrði hrapað um endanlegt afnám bannsins, heldur yrði jafnframt og samtímis svo vel um alla hnúta búið eftir beztu manna yfirsýn eins og framast er unnt að gera, á þann hátt, að einskis skyldi látið ófreistað til þess að standa á móti þeirri hættu, sem stafaði af því að heina straumi sterkra drykkja aftur inn í landið. Það verður ekki komið við neinum undanbrögðum um það, að þetta var meiningin með atkvgr., og öll frávikning frá þessu eru refjar og svik við kjósendur.

Nú bar svo við, að á þessu þingi hefir í hv. Ed. verið flutt frv., sem eingöngu fer fram á það, að bannlögin verði felld úr gildi og heimilaður sé nú þegar innflutningur sterkra drykkja. Hin hliðin á málinu, að gera jafnframt nauðsynlegar ráðstafanir til að hamla upp á móti skaðseminni af áfengisflóðinu, hún er gersamlega vanrækt og öll loforð um það svikin. En því verður ekki neitað, að í Ed. er málið borið fram á þinglegan hátt. Um hitt má aftur nokkuð efast, hve sterkur vilji hefir verið fyrir því hjá andbanningum að koma málinu fram á þinglegan hátt. þessu frv. er útbýtt 16. nóv., og eins og menn muna, kom þingið saman 2. nóv. og var ekki gert ráð fyrir, að það stæði lengur en þann mánuð. Það er því ekki fyrr, sem þessir miklu upphrópunarmenn um áhrifavald þjóðaratkvgr. koma fram með þetta frv. til fullnægingar á henni. Þessu máli var visað til n. 20. sama mánaðar. Svo liggur það í n. þangað til meiri hl. hennar, þ. e. þeir, sem voru á móti frv. og afnámi bannsins án frekari breytinga á áfengislöggjöfinni, komu með sitt nál., sem gekk út á það, að vísa málinu frá aðgerðum þessa þings. En minni hl. n., sem var annar af flm. frv., kom ekki með sitt nál. fyrr en 5. þ. m., eða nokkrum dögum seinna en upphaflega var ætlazt til, að þingi væri lokið. Af þessu má nokkuð marka um það, hvað mikill vilji virðist vera fyrir hendi hjá þessum hv. þm. fyrir því að láta þetta mál ganga fram á þinglegan og eðlilegan hátt, þar sem þeir í fyrsta lagi verða svo síðbúnir að flytja málið inn í þingið, og liggja síðan sjálfir á því þangað til komið er að þinglokum. (JJós: Við vorum að bíða með þessa till., til þess að sjá, hvað gerðist í hv. Ed.). Ég var ekkert að tala um aðgerðir hv. þm. Vestm.; hann getur beðið rólegur þangað til ég kem að honum.

Ég verð að segja, að það virðist ekki vera ákaflega sterkur vilji hjá andbanningum fyrir því að koma þessu máli fram á þinglegan hátt. En sú taugin virðist mér miklu sterkari hjá þeim að knýja þetta mál fram á þann hátt, sem hv. þm. N.-Ísf. hefir nú lýst, — með því að ganga mjög áberandi og hættulega á snið við þingræðið, sem gert væri með því, ef Alþingi visaði þessu löggjafarmáli frá sér á hendur ríkisstj.

Svo er það, að nú fyrir nokkru síðan taka nokkrir þm. sér það fyrir hendur að bera þetta mál fram á þann hátt, sem menn sjá og heyra af þeim umr., sem fara fram á þessari síðustu nótt þingsins. M. ö. o., að það, sem þeir leggja til í þessu máli, er efnislega seð mjög í samræmi við það frv., sem kom fram í hv. Ed., því að það, sem hér er farið fram á, felur ekkert í sér annað en að fyrirskipa ríkisstj. að byrja hið nýja ár með því að afnema bannlögin, skrúfa frá krananum og hleypa hinum sterku drykkjum óhindrað inn í landið án þess að á nokkurn hátt sé til þess ætlazt, að neitt sé aðhafzt eða gert til að draga úr skaðsemi og fyrirsjáanlegri hættu og þjóðarböli, sem óhjákvæmilega leiðir af slíkum tiltektum. Þetta er því undarlegra, sem sumir hverjir af flm. þessarar fáránlegu till. voru einnig flm.þáltill. um þjóðaratkvgr., þar sem lögð var svo rík áherzla á það, að ekkert skyldi aðhafzt í endanlegu afnámi bannsins án þess að gerðar yrðu „eftir beztu manna yfirsýn“ allar hugsanlegar ráðstafanir til varnar skaðseminni, sem af þessu kynni að leiða.

Hvað viðvíkur formshliðinni á þessu máli, þá hefir hv. þm. N.-Ísf. bent nægilega á það, svo þar þarf raunar engu við að bæta, hver reginfjarstæða það er og hversu ákafleg hætta er í því fólgin, ef Alþingi ætti að fara að taka upp þann sið að visa frá sér sínum sjálfsögðu störfum, sem eru löggjafarstörfin, yfir í hendur ríkisstj. Það er vitanlega svo mikil hætta í þessu fólgin fyrir þingræðið, að það er óhugsandi, að í nokkru tilfelli, og þá sérstaklega í svo mikilsverðu máli sem hér um ræðir, geti slíkt orðið ofan á á Alþingi, því að með því er hreint og beint verið að reiða til höggs við þingræðið og lýðræðishugsjónina. Að hvorutveggju þessu er skeytunum stefnt og að lýðræðinu ekki síður, því það kemur vitanlega fram í krafti þingræðisins í öllum lýðræðislöndum. Það er þess vegna, jafnframt því, sem verið er hér að reiða til höggs við þingræðið, líka verið að reiða til höggs við lýðræðið, og það er það, sem menn verða að gera sér fullkomlega ljóst, því að þjóðaratkvgr., sem fram hefir farið í þessu eina máli, er alveg sérstætt fyrirbrigði og raskar í engu þeirri grundvallarhugsun, að lýðræðið komi fram í krafti þingræðisins. Þessa hlið malsins verða menn að athuga gaumgæfilega, þegar þeir nú fara að greiða atkv. um þessa þáltill., sem gengur út á það að reiða til höggs við þann sterkasta og mikilvægasta þátt í öllu okkar löggjafarstarfi og löggjafarstarfið er grundvallað á í öllum lýðfrjálsum löndum. Það er því af þessum ástæðum útilokað, að það geti komið til nokkurra mála, að Alþingi afgr. þetta mál á þennan hátt, og því síður, þar sem málið hefir verið borið fram í hv. Ed. á þinglegan hátt, og það er sýnt og sannað með aðgerðum þeirrar deildar, að það er ekki nú að þessu sinni hægt að koma málinu fram á þinglegan hátt. Það sætir því hinni mestu furðu, að fram skuli koma till., seni ganga svo bersýnilega í berhögg við þinglega afgreiðslu mála.

Hv. fyrsti flm. þessarar till. hefir reynt að þvo hendur sínar og sinna samherja af þessum verknaði með því að vitna í eitt eða tvö fordæmi, sem hann kallaði svo, þar sem ýtt hafi verið undir stj. með að gefa út bráðabirgðalög. Annað var það, að á þinginu 1923 komu fram raddir um, að þrátt fyrir bann gegn útflutningi hrossa að vetrarlagi gæti verið tiltækilegt, þegar þörf landsmanna eftir þessum markaði varri sérstaklega brýn, að gefa stj. heimild til þess að leyfa, að nokkuð yrði vikið út af ákvæðum laganna. Þáv. forsrh., Jón heitinn Magnússon, benti á, að aðstaða stj. væri ekki sterk, og gæti það orðið tilefni árasa á hana, ef hún gerði slíkt, öðruvísi þá en með bráðabirgðalögum. En þetta var svo smávægilegt atriði, svo lítilfjörleg frávikning um framkvæmdaratriði l., sem allir voru sammála um, að það getur alls ekki talizt fordæmi fyrir því, sem hér er farið fram á. Og þessi frávikning var innan mjög þröngra takmarka, og því þótti ekki þörf að breyta lögum út af þessu, heldur hefði stj. þetta lítilfjörlega framkvæmdaratriði í sinni hendi, og að réttara væri að gera þetta þá, ef til kæmi, með bráðabirgðalögum en ganga í berhögg við bókstaf laganna. Hitt fordæmið var skapað af þessum hv. þm. á þinginu 1932. Honum tókst þá að afvegaleiða nokkra þm., en það hafa þeir harmað síðan sárlega; það sýna atkvgr. þeirra þvert ofan í þær undirskriftir, sem hv. þm. Vestm. flekaði út úr þeim. hað gekk þannig fyrir sig, að eftir að búið var að fella frv. um dragnótaveiðar á þinginu 1932, fer þessi hv. þm. á stúfana og fær undirskriftir liðlega helmings þm. undir áskorun til stj. um að gefa út bráðabirgðal. um að færa út heimildina til dragnótaveiða, þær nægja þessa illa fengnu heimild og gaf út bráðabirgðal. Auðvitað varð hún að leggja þau fyrir næsta þing. Og eitt af því fyrsta, sem þetta þing gerði, var að fella l. úr gildi, og meðal þeirra, sem það gerðu, voru einmitt sömu þm., sem hv. þm. Vestm. hafði flekað til þess að skrifa undir áskorunarskjalið. Það sýnir bezt, hve sárt þeir iðruðust. (JJós: Þeir bjuggu bara til ný l.). Já, þeir bjuggu til ný l., og þau með slíkum endemum, að áhrifavald manna á landsmál var gert mismunandi, eftir því hvar þeir bjuggu á landinu. Í þessum lögum var af löggjafans hálfu stigið fyrsta sporið til að kljúfa þjóðfélagið í tvennt. Ætti hv. þm. að kunna svo að skammast sín, að hann minntist ekki á þessi l. að fyrra bragði. (JJós: Ég tel mér sóma af þeim l.). Já, ekki get ég gert að því, þótt hv. þm. þyki sómi að skömmunum. (JJós: L. hafa þó nú þegar orðið fjölda sjómanna til ómetanlegs gagns). Nei, þvert á móti. Þau hafa orðið öllum til ógagns og bölvunar. Annars held ég, að hv. þm. væri nær að fara ekki mikið út í dragnótaveiðarnar nú; honum mun veitast nógu erfitt að standa fyrir þeim næturverkum, sem hann hefir nú vakið hér upp. (JJós: Já, það er bezt að halda sér innan landhelgi!). Já, fyrst hv. þm. nefnir landhelgi og vill draga hana inn í þessar umr., þá gefur það fullkomið tilefni til að benda honum á, að þessi þáltill. hans, sem hér er til umr. nú, sýnir fullkomlega, hversu mjög hann yfir höfuð dottar nú orðið á verði landhelgismálanna. Þingræðið er landhelgi Alþingis, og nú er hann líka að ráðast á þá landhelgi. Hv. þm. er hreint og beint farinn að trolla líka í þeirri landhelgi! (JJós: En hvað segir þá hv. þm. um þjóðarviljann?). Ég held því fram eindregið, að hv. þm. sé að afflytja þjóðarviljann með því að nota hann svo sem nú gerir hann. Það á sem sagt að afnema áfengisl. án þess að í stað þeirra séu sett nokkur l., sem verndað geti þjóðina fyrir hættu áfengisflóðsins. En það eru hrein og bein svik við þjóðina. Þar er verið að svíkjast aftan að þeim mönnum, sem í góðri trú greiddu atkv. með afnámi bannsins, fullvissir þess, að staðið yrði við gefin loforð um að ganga vel frá þessu máli. En nú er ekki um ráð hugsað, heldur aðeins um það, að opna fyrir áfengisflóðinu, án þess að gera nokkrar ráðstafanir gegn þeirri hættu, sem af því stafar. Ég held, að hv. þm. ætti sem minnst að tala um þjóðarviljann, fyrst hann ætlar að fara svona að. (JJós: Hv. þm. ætti að lesa till. okkar). Það þarf sannarlega ekki að lesa till. nema einu sinni til að sjá, að svona er það. Þetta og ekkert annað er það, sem þeim gengur til. (JJós: hér er aðeins um bráðabirgðafyrirkomulag að ræða). Þó að það sé bara fyrirkomulag til bráðabirgða, þá á það a. m. k. að gilda til næsta hings. Og það er harla lítil vörn fyrir hv. þm., þegar hann er að svikja gefin loforð og reiðir til höggs við þingræðið, að það sé aðeins til bráðabirgða. (JJós: En hv. þm. Borgf. er að reiða til höggs við þjóðarviljann). Þetta er alrangt. Ég er einmitt í fullu samræmi við þjóðarviljann, en það er hv. þm. Vestm. aðeins að því leyti, að hann vill opna fyrir áfenginu, en láta allt annað, sem þessi þjóðarvilji krefst, að gert sé jafnframt, ógert. (JJós: Hvers vegna greiddi hv. þm. Borgf. atkv. með þjóðaratkvgr.?). Ég greiddi atkv. með þjóðaratkvgr. af því, að ég gerði ráð fyrir heilindum þeirra, sem fluttu till. um það, af því að ég hélt, að það, sem fólst í till. og grg. hennar, væri blekkingarlaust. — Ég heyri, að hv. þm. Vestm. stynur þungan. Mér þætti ekki ótrúlegt, að hann ætti eftir að gera það betur áður en lýkur. (JJós: Spyrjum að leikslokum, en ekki vopnaviðskiptum). Það hefir verið bent á, hvílíkt bráðlæti það er að vilja nú knýja fram aðra hlið málsins, — þá, að veita vínstraumnum inn í landið, en ætla svo að vanrækja hina, sem snýr að því að verjast hættunni af vínflóðinu. Það hefir verið bent á, að þeir, sem stóðu að þjóðaratkvgr. 1908, voru ekki svona bráðlátir. Þeir vildu taka tillit til þeirra kringumstæðna, sem þá voru, og horfðu ekki í það, þótt niðurstaðan af atkvgr. kæmi ekki fram með krafti l. fyrr en þremur árum síðar. Þeir lögðu ekki bókstaflegri skilning í þjóðaratkv. en svo, að þeir töldu sjálfsagt að ganga eins vel og hægt var frá lagasetningu um þetta efni. Alveg þetta sama felst í atkvgr. nú, ef vilji kjósenda er ekki skammskældur eins og hv. þm. Vestm. vill gera. Ég sé ekki, að sá þjóðarvilji verði framkvæmdur öðruvísi en að Alþ. gefi sér gott tóm til þess að setja fullkomna lagasetningu um það efni. En bráðlæti hv. flm. till. er svo mikið, að þeir vilja ekki með nokkru móti fara eftir rólegum ályktunum þjóðarviljans, sem eru á þá leið, að í þessu máli megi ekki rasa fyrir ráð fram, heldur skuli Alþ. gefa sér gott tóm til athugana. (JJós: Er hv. þm. þá svo ánægður með áfengisl., að þar megi engu breyta?). Nei, ég er ekki ánægður með ástandið í þessum efnum eins og það er, en ég vil ekki fara úr öskunni í eldinn. En það vill hv. þm. Vestm. gera, þegar hann vill opna allar gáttir fyrir víninu og setja engar skorður við afleiðingum þess. Og það er í fyllsta ósamræmi við þjóðarviljann.

Það var minnzt á það hér áðan af hv. hm. N.-Ísf., að svo gæti farið, að næstu kosningar snerust að nokkru leyti um það, hvort afnema skuli bannið eða ekki. Ég er honum ósammála um þetta atriði. Ég held, að næstu kosningar muni ekki snúast um það. En næstu kosningar geta að nokkru leyti snúizt um þær varnarráðstafanir, sem eru sjálfsögð og eðlileg afleiðing afnams bannl. Og hugur kjósenda til þess máls er á þann veg, að ég tel gróða að því, að hann fái að koma greinilega fram, svo sem verður í næstu kosningum. En ég vil benda á það, að næstu kosningar geta látið til sin taka með það, hvort viðhöfð skuli sú venja hér á Alþ. að ráðast á þingræðið. Mér kæmi ekki á óvart, þótt þeir hv. þm., sem nú hafa slíkt á samvizkunni, reki sig á það, að atferli þeirra hafi ekki farið framhjá þeim kjósendum, sem standa á þingræðis- og lýðræðisgrundvelli. — Hv. þm. Vestm. bar mikinn kvíðboga fyrir því, að erfitt yrði að halda uppi bannl. eftir atkvgr. í haust. Ég vil benda honum á það, að þessi ótti byggist algerlega á þeirri misskildu þýðingu atkvgr., sem hann heldur fram, þeirri nefnilega, að nú beri að opna allt upp á gátt fyrir víninu án þess að hugsa um nokkuð annað. En þetta er helber misskilningur. Hv. þm. hlýtur að finna það sjálfur. Og hv. þm. hlýtur að vita, að kjósendur ætla fulltrúum sínum, þm., að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir í þessu máli; þeir ætla Alh. að gera það, en ekki stj., að öðru leyti en því, að undirbúa málið. Þm. eru fulltrúar kjósendanna beint og milliliðalaust og þá geta þeir krafið til reikningsskapar gerða sinna. atkvgr. hefir snúizt á móti banninu, en hún felur líka í sér ótvírætt, að sjálfsagt se, að Alþingi geri jafnframt og samtímis því sem bannið er afnumið nauðsynlegar varúðarraðstafanir vegna þess spors, sem þar verður stigið.