18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (1543)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Jón Jónsson:

Ég vék að því við fyrri umr. þessa máls, að það væri varhugaverð leið, sem þingið væri hér að leggja út á, ekki sízt af því, hve stutt seta er því ætluð, með því að fara að samþ. þessa till. Þá minnti ég líka á það, að fjárlögin frá síðasta þingi virtust vera fulláskipuð að því er útgjöld snerti, og því viðsjárvert að auka útgjöldin án þess að tekjur væru nokkuð auknar. Ég er smeykur um, að erfitt reynist ríkissjóði að standast þessi auknu útgjöld án þess að honum sé jafnframt seð fyrir auknum tekjum. Ég get ekki neitað, að það er leitt, hve illa gengur um framkvæmdir á þessu mannvirki, úr því að svona langt er komið á annað borð. En ég held líka, að nokkurs ráðleysis hafi þar kennt um undirbúning málsins, líklega bæði frá þáv. ríkisstj. og bæjarstj. Fyrirhyggjulítið að stækka fyrirtækið stórlega frá því, sem ráðgert var í upphafi, og án þess að tryggja því fé. það er sorglegt um svo dýran hlut, að hann skuli standa þarna, engum til gagns. En það er komið sem komið er, og það virðist geta komið til mála að leggja fram 100 þús. kr., eftir undirtektum hæstv. fjmrh., er hann lét í ljós, að hann treystist til þess, en mér finnst það ekki ná nokkurri átt að fara að lofa viðbótarframlagi, sem engin leið er að standa við, heldur verður aðeins nefnt vanefndir af ríkisins hálfu. Hitt er ekkert athugavert við, þó að ríkið athugi sinn gang í málinu, jafnframt ástæðum hlutaðeigenda. Það er heldur ekki óeðlilegt, þó að örsmáir staðir í fátækum og strjálbýlum héruðum fái að tiltölu hærri styrk til þess að koma upp hjá sér sundlaugum heldur en svo stór og fjölmenn og efnahagslega vel stæð borg eins og Rvík. Þess vegna álít ég ekki, að ástæða sé til þess fyrir ríkið að binda sig meira en raun er þegar á, og mælist ég því til þess við hæstv. forseta, að málsliðir till. verði bornir upp hvor í sínu lagi. Ég get vel fallizt á það, að tímatakmarkið verði lengt, en ég vænti þess, að hinu atriðinu verði frestað.