02.12.1933
Neðri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í D-deild Alþingistíðinda. (1654)

48. mál, samvinnufélagið

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Ég verð að segja það, að ég er talsvert hissa á ýmsu því, er fram kemur í starfsemi þessa þings um meðferð mála. Og það er einmitt í sambandi við þetta mál, sem mér þykir ástæða til að rjfja upp, þó það lengi eitthvað umr., sumt af því, sem áður hefir verið afgr. og er í sama flokki og þetta mál, t. d. ríkisábyrgð vegna samvinnuútgerðar á Stokkseyri.

Það er talið glæsilegt að vera ríkur maður og gaman að geta ausið peningum á báðar hendur. Og vissulega hefði það verið skemmtilegt á þessu þingi, ef hægt hefði verið að ausa peningum úr ríkissjóði í allar áttir og sem víðast um. Nú, það virðist svo, ef litið er á starfsemi þessa þings og afgreiðslu mála, sem svona sé ástatt í þjóðfélaginu. Ég verð því miður ekki var við, að hér á Alþingi sé neitt vald, er beri vott um þá ábyrgðartilfinningu, er sporni við því, að afleiðingarnar af störfum þingsins komi óþægilega við ríkissjóð. Það virðist svo sem ríkisvaldið hafi hér engan málsvara. Ég var að athuga það í gær, að nú á þinginu hafa verið fluttar till. til útgjalda úr ríkissjóði, er nema samtals um 1600 þús. kr. Þar af til nýrra launa og launabóta handa opinberum starfsmönnum 30–40 þús. kr., og þó er ótalin stór upphæð til dýrtíðaruppbótar á laun embættis- og starfsmanna ríkisins, ég veit ekki, hvað mikil, ef hún verður framlengd, sem líkur benda til. Í þessari 11/2 millj. kr. upphæð eru sjálfsagt margir liðir, sem á að verja til þess að koma atvinnuvegunum á traustari grundvöll. Og stærsti liðurinn er auðvitað til síldarbræðslustöðvar á Norðurlandi, 1 millj. kr.

En svo er ekki nóg komið með messu. Til viðbótar má telja till. um ábyrgðarheimildir til ríkisstj. vegna ríkissjóðs, og þær nema samtals ca. 5 millj. kr., eftir því sem mér reiknast til. Ég veit satt að segja ekki, hvað vakir fyrir hv. þm., að þeir skuli geta lagt út í að samþ. þetta allt með köldu blóði. Auðvitað eru margar af þessum till. um ábyrgðarheimildir ekki ófyrirsynju fram komnar, og verður sjálfsagt ekki komizt hjá að samþ. ýmsar þeirra. En þar á meðal eru líka margar till., sem segja má um með fullum rökum, að þingið geti vel sóma síns vegna látið vera að afgreiða. Það má náttúrlega segja, að sú till., sem hér liggur fyrir, um 125 þús. kr. ábyrgð fyrir samvinnuútgerð í Borgarnesi, sé ekki nema dropi í hafinu.

Mér hefir talizt svo til, að ábyrgðarheimildir fyrir lánum til rafveitna nemi um 960 þús. kr., vegna banka um 1100 þús. kr., til togaraútgerðar 21/2 millj. kr., til lendingarbóta 75 þús. kr., til samvinnuútgerðar 220 þús. kr., og til ýmsra annara fyrirtækja um 200 þús. kr. Um þessar ábyrgðarheimildir til útgerðarsamvinnufélaga er það að segja frá mínu sjónarmiði, að það var á sínum tíma vel forsvaranlegt af þinginu að gera tilraun í þessu efni, fyrir útgerðarfélag, sem hafði þægilega aðstöðu, eins og samvinnufél. Ísfirðinga. Ég tel, að sú tilraun hafi ekki gefizt vel að öllu leyti, en að sumu leyti má margt gott um hana segja, þó að því sé nú vitanlega ekki lokið. En það er allt annað mál að veita ríkisábyrgð til útgerðar á miður heppilegum stöðum. Og ef þingið ætlar sér að taka þetta skref fullt og veita ábyrgðir til þessara hluta víðsvegar um land, eins og í Borgarnesi og á Stokkseyri, þá lízt mér ekki á blikuna. Og mig undrar, að það skuli ekki vera lagðar hér fram í þessum málum fyllri rannsóknir og upplýsingar um það, að hverju þetta getur leitt fyrir ríkissjóð. Samkv. þessu viðhorfi lítur svo út sem þingið muni samþ. allar till. um fjárgreiðslur og ábyrgðarheimildir, sem fyrir því liggja. Margar þeirra eru náttúrlega nauðsynlegar eða óhjákvæmilegar, en ýmsar af þeim eru aftur á móti þannig gerðar, að það er ekki sæmilegt af aukaþingi að gera meira en annaðhvort að ganga framhjá þeim eða vísa þeim til stj. til fyllri athugunar.

Ég skal svo ekki fara lengra inn á þetta svið. Þm. hafa allt aðra afstöðu til þessara mála á fjárlagaþingj, þar sem lögin heimta, að tekin sé ákveðin afstaða til fjárhags ríkissjóðs, heldur en á þessu aukaþingi. En þó er hér hrúgað inn ábyrgðarbeiðnum og till. um fjárframlög úr ríkissjóði svo skiptir millj. kr., án þess að athuga á nokkurn hátt, hvaða áhrif þær hafa á fjárhag ríkissjóðs. Með tilliti til þess, sem ég nú hefi sagt, greiði ég atkv. á móti þessari þáltill. og ýmsum öðrum, sem koma síðar til atkv. hér í þd. — Ég geri það ekki af því, að ég vilji neita því, að þetta geti orðið til hagsbóta fyrir hlutaðeigandi héruð. En ég lít svo á, að það sé fyrst og fremst hlutverk bankanna að lana fé til slíkra fyrirtækja, en að ríkissjóður eigi að vera laus við alla áhættu af þeim, að öðru leyti en því, sem hann er í bakábyrgð fyrir bönkunum.