08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (1685)

69. mál, landhelgisgæsla

Flm. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Þáltill. þessi hefir orðið fyrir nokkrum hrakningum hér í d., þar sem liðinn er nær mánuður frá því að hún kom fram. Stundum hefir hún verið tekin á dagskrá, en ekki rædd nema að litlu leyti fyrr en í dag. Að hún þó er tekin til umr. í dag, er sakir þess, að ég taldi ekki viðeigandi, að þessu þingi væri lokið án þess að hún yrði útrædd.

Hæstv. dómsmrh. hefir nú svarað því, sem að honum var beint, og reynt að bera í bætifláka fyrir hina ófullkomnu gæzlu með því að sýna fram á, að ekki væri nægilegt fé fyrir hendi til þess að hafa hana fullkomnari. Ég skal ekki fara langt út í þessa sálma, en lítilshattar vil ég þó að honum víkja. Það er rétt, að fé það, sem veitt er í fjárl. til landhelgisgæzlunnar, er takmarkað, en þess ber að gæta, að hér er um framkvæmd að ræða, sem ekki aðeins er undirstaða afkomu þess mikla fjölda manna, sem sjávarútveg stunda og vinnu hafa í sambandi við hann, heldur og líka um framkvæmd, sem afkoma ríkissjóðs er allmjög undir komin. Ég held því, að það sé ekki rétt af ríkisstj. að halda mjög í fé til þessara hluta, þar sem það er víst, að sparnaður í því skaðar ekki aðeins þá, sem sjávarútveg stunda, heldur og líka ríkissjóðinn sjálfan.

Hæstv. ráðh. gat þess, að sektarfé fyrir landhelgisbrot færi minnkandi ár frá ári, og virtist helzt draga þá ályktun, að það stafaði af bættri landhelgisgæzlu, en ég verð að telja mjög vafasamt, að svo sé. Það má miklu frekar líta svo á, að það geti stafað af lélegri gæzlu, a. m. k. er það almannamál á Austfjörðum, að með öruggari landhelgisgæzlu þar væri hægt að afla ríkissjóði mikilla tekna fyrir sektarfé, umfram það, sem nú er. Hæstv. ráðh. mótmælti því ekki, að landhelgisgæzlan fyrir Austfjörðum hefði verið léleg síðastl. haust, enda var það ekki hægt. Vanræksla hennar gekk svo úr hófi fram, að slíkt mun með einsdæmum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það hefði andað kalt frá mér til foringja varðskipanna með dæmi því, sem ég nefndi. En þetta er ekki rétt. Dæmið nefndi ég aðeins til þess að sýna fram á, að ekki væri útilokað, að varðskip hefði hitt togara fyrir austan, sem sagzt hafði liggja við akkeri, en ekki hefði verið grunlaust um, að lægi við vörpuna. Þetta er vitanlega ekki sannað, en hitt er víst, að togari þessi var að veiðum inni á Sandvík rétt áður en varðskipið bar þarna að. Með þessu er ég alls ekki að segja, að varðskipsforingjarnir hafi með vilja sleppt þessu skipi, en ég tel, að þetta sé rannsóknarefni, því að ég hefi t. d. heyrt það haft eftir skipverjum varðskipsins, að togarinn hafi ekki haft nema aðra vörpuna inni, og á hinni hliðinni hafi hvorki verið varpa né hlerar, og hafi skipstjóri togarans átt að segja, að hann hefði misst vörpuna á hrauni. Þetta er vitanlega ekki nema sögusögn, og ég vona, að hæstv. ráðh. skilji, að hér er engin árás á varðskipsforingjana, heldur er aðeins farið fram á rannsókn, vegna áhuga okkar sjómanna og útgerðarmanna á því að hafa gæzluna í sem beztu lagi. (Dómsmrh.: Var varðskipið Ægir?). Já. Það var Ægir, í september.

Hæstv. dómsmrh. hefir nú fundið afsökun fyrir hinni lélegu landhelgisgæzlu fyrir Austurlandi í því, að ekki sé nægilegt fé fyrir hendi til þess að hafa hana sæmilega. Út af þessu vil ég henda honum á, að það eru tímaskipti að því, hversu nauðsynleg og áríðandi landhelgisgæzlan er á hinum ýmsu svæðum kringum landið. Þannig er t. d. mest nauðsyn á gæzlu fyrir Norður- og Austurlandi frá því um miðjan ágúst og til septemberloka. Hið sama mun og gilda fyrir Vesturlandi. Eigi því að vera gagn að landhelgisgæzlunni, þarf hún að vera góð á þessum svæðum, a. m. k. þetta tímabil. Mér er ókunnngt um, hversu mikið sparast á því að láta þessi tvö aðalvarðskip okkar aðeins starfa að gæzlunni á víxl. Við sjáum ekki, að annað sparist við það en aflgjafi skipanna, þar sem gjalda þarf mönnunum kaup hvort sem skipin eru úti að gæzlu eða liggja bundin inni á höfn. Annars er það svo, að fiskimennirnir telja sig eiga kröfu á því, að hið opinbera geri sitt til þess að verja fiskimiðin; svo mikið greiða þeir í ríkissjóðinn og til almenningsþarfa.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið meira um þetta mál. Ég hafði hugsað mér að mæla fyrir því hér á Alþ. áreitnislaust, en þó með fullri alvöru. Og þó hæstv. dómsmrh. hafi nú viljað afsaka stj. og gerðir hennar í þessu efni, þá vænti ég þess, að hv. d. liti þannig á, að þessi umkvörtun okkar, sem við norðausturströnd landsins búum, sé ekki að ófyrirsynju fram komin, enda þykist ég hafa fært rök fyrir því.

Ég skal geta þess, að ég fyrir mitt leyti get vel greitt atkv. með brtt. hv. 2. landsk., því ég get vel trúað, þó ég þekki ekki til þess sjálfur, að víðar sé pottur brotinn í þessu efni heldur en á Austurlandi.

Ég veit ekki, hvort það er fyllilega þinglegt, en mig langar samt sem áður til að mega í sambandi við þetta mál víkja ofurlítið að öðru máli, sem snertir sjávarútveginn. Ég ætlaði mér að gera það í sambandi við annað dagskrármál, sem ég þykist nú sjá, að ekki muni vinnast tími til að taka fyrir. Getur hæstv. forseti sagt mér til, ef hann telur mig fara of langt frá því efni, sem fyrir liggur.

Ég vil þá byrja á að lýsa óánægju minni yfir því, hvernig til hefir tekizt um skipun mþn. í sjávarútvegsmálum. Eins og allir vita, skipa hana þrír menn, og eru tveir þeirra búsettir á Ísafirði, en einn í Vestmannaeyjum. Þessi aðfinnsla er alls ekki byggð á því, að ég hafi nokkuð á móti þessum mönnum persónulega. Ég þekki þá alla persónulega og skal lýsa því yfir, að ég þekki þá að góðu einu. En mér þykir nefndarskipunin dálítið einkennileg, fyrst og fremst fyrir það, að í n. eru valdir menn, sem ekki hafa staðþekkingu nema í tveimur landshlutum, og auk þess eru teknir tveir menn úr sama byggðarlagi. Það hefir út af fyrir sig ekki mikið að segja, að þessir tveir menn eru bræður. En hitt skiptir máli, að tveir af landsfjórðungunum hafa orðið algerlega afskiptir hvað snertir sér þekkingu innan nefndarinnar. Það má þó vera, að einn af nm. hafi nokkra þekkingu á staðháttum og útgerðarháttum í Norðlendingafjórðungi, en ég þori að fullyrða, að þeir eru allir gersamlega ókunnugir staðháttum á Austurlandi, sem eru bæði hvað snertir fiskimat og veiðiaðferðir talsvert frábrugðnir því, sem er annarsstaðar á landinu, og sama er að segja hvað snertir afkomu manna. Það má e. t. v. segja, að þetta sé ástæðulítil aðfinnsla, þar sem ég viðurkenni, að í n. séu hæfir menn, því um það sé mest vert. En mér þykir undarlegt, ef svo er ástatt á meðal sjómanna og útgerðarmanna á Austurlandi, að enginn sé þeirra á meðal hæfur til að starfa í mþn. sem þessari. Ég tel, að hér hafi orðið mistök, sem valdið geta nokkrum óþægindum og sem ég vænti fyllilega, að hæstv. stj. vilji bæta úr. En það sé ég ekki, að hægt sé að gera, úr því sem nú er komið, á annan hatt en þann, að einum nm. sé falið að fara til Austurlandsins og dvelja þar nokkurn tíma. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að þegar störf þessarar n. verða lögð fyrir þing og stj., þá komi það í ljós, að ókunnugleiki n. í ýmsum landshlutum valdi töfum og e. t. v. ágreiningi um árangurinn af starfi hennar.

Það má vel vera, að hæstv. stj. liti á þetta sem óþarfar aðfinnslur, en mér þótti rétt að láta það koma fram áður en þingi lýkur, og jafnframt, hvernig ég álít, að bæta eigi úr þessum misfellum. Stj. er vitanlega sjálfráð, hvernig hún tekur þessu. Ég þykist hafa komið fram með aðfinnslur mínar áreitnislítið og algerlega áreitnislaust í garð nefndarmannanna. Hinsvegar get ég ekki seð, að þó tekin væri til greina uppástunga mín um að játa einn af nm. kynna sér ástand sjávarútvegsins á Austurlandi og e. t. v. Norðurlandi, þá þyrfti að leiða af því mikinn kostnaðarauka. Ég býst við, að n. starfi nokkuð mikið hér í Rvík, og ég ætla, að hún gæti starfað hér með tveimur mönnum, þó einn maðurinn væri nokkurn tíma á ferðalagi úti um land.

Ég vil svo þakka hæstv. forseta fyrir, að hann hefir lofað mér að skjóta þessu hér að. Skal ég ekki fjölyrða um það frekar og ætla ekki að taka til máls um það aftur, þar sem ég vænti, að hæstv. stj. taki bendingum mínum vinsamlega.