24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

2. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég þarf litlu að svara hv. 2. landsk., því að hann beindi litlu til mín. Viðvíkjandi frv. eins og það var borið fram vil ég segja það, að ég tel það heldur óviðkunnanlegt, ef menn eru að bera fram frv., sem þeir geta ekki sætt sig við sjálfir, enda sýndi það sig í Nd. við meðferð frv. þar, að meiri hl. d. taldi þessi sjónarmið rétt, sem ég hafði lagt áherzlu á.

Út af orðum hv. 1. landsk. vil ég segja það, að það er einmitt mikið gert í frv. til þess að hjálpa kjósandanum að láta í ljós vilja sinn um það, hverjir hljóti uppbótarsæti, en hinsvegar getur verið álitamál, hvað langt á að ganga í þessum efnum, og þó vafalaust ekki vert að veita kjósanda meiri rétt en til að strika menn út af landslista og bæta mönnum inn á listann. Að hverjum landskjörskjósanda sé veittur réttur til að láta í ljós vilja sinn um alla röðunina á listanum, er ógerningur, auk þess sem ég sé ekki, að röðun fyrirfram sé á nokkurn hátt betri en röðun eftir á eftir vilja kjósendanna sjálfra við kosningarnar. Hið síðara mundi og stuðla að því, að flokkunum væri það kappsmál að hafa þá menn í framboði í kjördæmunum, sem líklegir væru til að safna um sig fylgi, en á landslista gætu flokkarnir að öðrum kosti sett hreinustu nátthúfur, sem enginn vill kjósa, en þó eru vissir að komast að. Í frv. er hinsvegar reynt að fara eins langt og frekast er unnt í því að gera kjósendunum mögulegt að hafa áhrif á skipun uppbótarþingsætanna.