02.12.1933
Neðri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í D-deild Alþingistíðinda. (1741)

86. mál, lendingarbætur í Flatey á Breiðafirði

Flm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Það hefir lengi verið á döfinni að bæta lendinguna við Flatey á Breiðafirði, sem er, eins og ég tók fram áðan, eini hafnarbærinn fyrir norðurströnd Breiðafjarðar. Hefir verið áætlað, að kostaði 24 þús. kr. að bæta fullkomlega úr lendingargöllum þar. En hreppurinn og sýslan eru svo fátæk, að þau hafa ekki treyst sér til að leggja út í svo dýrar framkvæmdir. En síðar hefir verið gerð rannsókn á því, að hægt væri að gera verulegar lendingarbætur þar með byggingu á bryggju, sem kosta myndi 3000–5000 kr. Ég bar því fram á þingi í fyrra, að fé til bryggjugerðar og lendingarbóta yrði hækkað um 2000 kr. í þessu skyni, en deildin vildi ekki opna fjárl., og varð fjárveitingin því ekki samþ. Nú ber ég fram þáltill. um, að ríkið leggi fram 1/3 til þessarar bryggjugerðar, gegn 2/3 frá héraðinu. Er þess að gæta, að hér er ekki um hafnarbætur fyrir Flateyinga eina að ræða, heldur alla norðurströnd Breiðafjarðar og aðra, sem viðskipti hafa við Flatey, vegna þess, að hún er eini hafnarstaðurinn á þessum slóðum.