08.12.1933
Neðri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í D-deild Alþingistíðinda. (1911)

53. mál, skilanefnd Síldareinkasölu Íslands

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það eru ekki nema örfá orð. — Hv. þm. Borgf. hefir tekið af mér ómakið að því er snertir þessa svokölluðu Austfjarðavíxla. Um þá var samþ. þál., eins og kunnugt er, og þar skorað á stj., að hún hlutaðist til um, að ekki yrði gengið að þessum mönnum, og það hefir hún gert, en engar líkur eru til, að þeim verði borgað úr búi síldareinkasölunnar, og það er vegna þess, að ef ríkið fer að blanda sér inn í þetta, þá er þar opnuð leið fyrir aðra skuldheimtum. þessa mikla þrotabús að koma til ríkissjóðs og heimta borgun úr honum, en það verður til lengstra laga að halda því fram, að ríkissjóður sé ekki ábyrgur fyrir þessum skuldum, og það er mitt álit, að svo sé ekki.

Að því er snertir kostnaðinn, þá viðurkenni ég, að hann er orðinn mikill, en ég skal með ánægju gera allt, sem hægt er, til að hann verði ekki óhæfilega mikill í framtíðinni, en ég vil, til þess að þetta mál sé skoðað frá báðum hliðum, geta þess, að það er ákaflega erfitt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir, hve mikið verk er að koma í peninga eignum þrotabús eins og þetta er.

Um það, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að ekki fyndust dæmi til slíks kostnaðar í allri stjórn einkasölunnar, vil ég bara segja það, að þetta er mesti misskilningur. Ég held, að þar hafi farið í súginn ekki 50–100 þús., heldur fleiri hndr. þús. Það hefir verið reiknað úr hér á þingi, að þó að sjómenn og útgerðarmenn hefðu gefið allan aflann og ekkert kaup fengið, þá hefði samt orðið tap hjá síldareinkasölunni, en það fer þó aldrei svo, að ekki verði eitthvað eftir í þrotabúinu að lokum auk kostnaðarins, þó að hann sé mikill.