13.11.1933
Neðri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2014)

15. mál, Kreppulánasjóður

Pétur Ottesen:

Ég þóttist verða þess töluvert var í sambandi við kosningarnar síðustu, að ýmsir frambjóðendur, sem ekki höfðu átt sæti á síðasta þingi, gerðu sér mikið far um að reyna að kitla eyru bænda með því að gera lögin um Kreppulánasjóð tortryggileg og óvinsæl og kasta þar með skugga og rýrð á þá af frambjóðendum, sem unnið höfðu að þessari löggjöf. Árásir þessar voru mjög svo á misskilningi byggðar. Hitt kom og berlega fram, að þeir, sem harðast deildu á, höfðu sjálfir ekkert það til brunns að bera, er gert hefði afgreiðslu málsins farsælli, þótt þeir hefðu um fjallað. Þetta var svo þar, sem ég þekki til persónulega, og hefi ég spurt, að svona hafi það verið allvíða í kosningunum. Nú hafa 2 hv. þm. borið fram brtt. við þessi l. Annar flm. hefir gert grein fyrir breyt., og hv. þm. V.-Sk. vildi sýna fram á, að löggjöfin væri ranglega byggð upp. Virtist mér koma fram hjá honum líkt og ég hafði orðið var við í kosningunum og hefi nú lýst, að er að miklu leyti sprottið af misskilningi.

Hv. þm. V.-Sk. lýsti yfir því, að eiginlega væri þessi löggjöf kák að því leyti, að leggja eigi fé til bjargar ómögulegum mönnum, en ekki áherzla á það lögð í l. að bjarga þeim, sem sýnt væri, að væru þess verðir að fá hjálp. Þetta er á misskilningi byggt hjá hv. þm. Það er alls ekki meiningin að lána fé til þess úr Kreppulánasjóði að greiða skuldir, sem alveg eru tapaðar, skuldir, sem enginn eigin dómur stendur á bak við. Það er ekki heldur ætlunin að fara með þessari ráðstöfun að halda í þá menn við búrekstur, sem hafa sýnt vitavert hirðuleysi og trassaskap. Í frv. eru ýmis ákvæði, sem benda fullkomlega á þetta. Þungamiðja þessara l. er sú, að hjálpa þeim, sem vinningur er að fyrir þjóðfélagið, að hjálpað sé, og koma í veg fyrir, að þeir flosni upp frá jörðum sínum og verði af þeim sökum að flytja úr sveitinni á mölina, þar sem víðast hvar er nú fullsetið aður, með þeim atvinnutækjum, sem þar eru nú. Mér kemur sérstaklega undarlega fyrir sjónir, að hv. þm. V.-Sk. skuli svo mjög misskilja þessi ákvæði laganna, og því undarlegra finnst mér það, að hann skuli leggja til að fella niður ákvæði 5. gr., sem einmitt eru til þess selt og miða að því að fyrirbyggja, að það geti komið fyrir í framkvæmd laganna, sem gagnrýni hans beinist að.

Með upplýsingum héraðsnefnda um þau atriði, er hér að lúta, á að vera hægt að leggja grundvöll að skynsamlegri og heppilegri notkun lánsfjárins að þessu leyti.

Hv. þm. Str. tók það að ég ætla nægilega skýrt fram áðan, að það er að sjálfsögðu tilgangur sjóðstjórnarinnar, og er það algerlega í samræmi við löggjöfina, að reyna eins og hægt er og forsvaranlegt að hjálpa bændum, með því að koma fram lækkun á skuldunum, fá kröfuhafana til þess að gefa eftir og ganga eins langt og hægt er í þeim efnum. Nei, það er áreiðanlegt hvað viðvíkur þessari ráðstöfun, að þá verða þær skuldir, sem nú eru algerlega tapaðar, ekki greiddar með lánum úr Kreppulánasjóði. Framkvæmd laganna um Kreppulánasjóð á að vera í því fólgin, að það af skuldum bænda, sem er raunverulega tapað, verði afskrifað, en að þeir eigi þess kost að öðru leyti að komast að sem hagkvæmustum samningum um þann hluta skuldanna, sem líkur eru til, að þeir geti staðið straum af samfara heilbrigðum búrekstri, og forða þeim frá því, að að þeim verði gengið, sem hlyti að hafa orðið í fjöldamörgum tilfellum, ef engar slíkar ráðstafanir sem þessar hefðu verið gerðar. Þetta var óhjákvæmilegt eins og málið horfði við á síðasta þingi, enda er það líka skilyrðislaust tekið fram í lögunum, að löggjöfin byggist upp á lánastarfsemisgrundvelli, á þann hátt, þótt það megi að ýmsu leyti telja það galla, að sá maður, sem ekkert veð hefir að setja, kemst ekki undir ákvæði þessara jaga. Það getur verið í ýmsum tilfellum mjög þess vert fyrir þjóðfélagið að gera ráðstafanir til þess að bjarga mönnum, sem þannig er ástatt fyrir. En þar sem sjóðurinn byggist á lánastarfsemi, en ekki styrkveitingum, þá er ekki hægt að samræma það þessari löggjöf. Ég vildi taka þetta fram, til þess að sýna fram á þann misskilning, sem mér virtist koma fram hjá hv. þm. V.-Sk. um starfsemi þessa sjóðs.

Ég þarf ekki að fara langt út í þær breyt., sem hér liggja fyrir. Hv. þm. Str. benti svo rækilega á, að það væri nauðsynlegur og óhjákvæmilegur liður til þess að þetta gæti orðið til þeirrar hjálpar fyrir bændurna, sem nú er ætlazt til, að auglýsa eftir kröfum á hendur heim, m. a. af því, að tryggt sé, þegar viðkomandi maður hefir verið gerður upp, að ekki komi fram, hvorki beinar skuldir, sem hann sjálfur hefir stofnað til, né ábyrgðir, sem hann hefir gengið í fyrir aðra, sem geti hnekkt og gert að engu það viðreisnarstarfa hans hag, sem felst í þessum ráðstöfunum, því að ef ekki er um slíkar auglýsingar að ræða, þá er vitanlegt, að það er engan veginn fyrir það girt, þrátt fyrir framtal, að það geti komið fram kröfur á manninn, sem geri þetta starf að engu, auk þess sem það er ranglátt, að þeir menn, sem ekki hafa borið fram kröfur sínar fyrr, gætu fengið skuldir sínar að fullu greiddar, þegar aðrir hefðu orðið að slá svo og svo mikið af sínum kröfum. Þetta tryggir auglýsingaaðferðin, og verður hún á þann hátt óaðskiljanleg við þann grundvöll, sem þessi hjálparstarfsemi byggist á, og hér eru sjálfir bændurnir að verki. Það er rétt, að það getur verið sárt að láta auglýsa sig á þennan hátt, og bændastéttin er engu síður en aðrar stéttir viðkvæm fyrir virðingu sinni, og þá með tilliti til þess, að í þeim einum tilfellum hér á landi hefir verið auglýst, þegar þú hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta. Ég hefi ekki orðið var við mikla óánægju út af þessu; menn sætta sig við það, en hinsvegar er ég viss um, að ef á að fara að aðgreina þannig í Lögbirtingablaðinu, hverjir eigi fyrir skuldum og hverjir séu gjaldþrota, þá fer málið að verða viðkvæmt, en eins og nú er, eru nöfn allra þeirra manna, sem óska eftir láni úr þessari sérstöku lánsstofnun, auglýst, en með þessu á að gera þann greinarmun, sem ég veit, að veldur miklum sársauka. Ég held þess vegna, að frá sjónarmiði bændanna sé það ekkert umbótaatriði að gera þennan greinarmun, og þeir, sem kunna að vera eitthvað betur staddir en aðrir, eru ekkert viðkvæmir fyrir því, þó að nöfn þeirra séu birt á prenti við hliðina á þeim, sem kunna að vera eitthvað verr staddir.

Hv. flm. þessa frv. gera ráð fyrir því, að það megi leggja tvennt til grundvallar fyrir mati á eignum bændanna, skattaframtalið eða mat héraðsnefndanna. Það er rétt, að sjóðstjórninni og héraðsnefndum er heimilt að meta upp á ný eignir bænda, og þ. á m. fasteignir. En ég er viss um, að ef héraðsnefndir tækju það upp í sinn verkahring að meta upp fasteignir bændanna, þykist tala þeirra manna, sem ekki ættu fyrir skuldum, og þar af leiðandi þyrfti að auglýsa, að miklum mun fyrir þær sakir, og yrði það því ekki til þess að smeygja bændum undan því að verða auglýstir.

En það virðist vera miklu eðlilegra, þegar einhver bóndi er „gerður upp“, að það sé metið, hve fær hann er um að standa undir skuldum sínum, af stjórn Kreppulánasjóðs annarsvegar og kröfuhöfum hinsvegar, og mætast svo þessir tveir aðilar á þeirri leið um að meta eignir bóndans, og fer það eftir því, hversu sammála þeir verða, hvernig gengur að fá samninga fyrir bóndann. Ef svo meiri hl. þeirra, sem kröfur hafa á bóndann, vill ekki ganga að þeim samningum, sem stjórn Kreppulánasjóðs telur rétta, þá stranda samningarnir og bóndinn sæti eftir undir þeim kringumstæðum, sem allir bændur þessa lands sætu í, ef ekkert hefði verið gert í þessu efni. Þá virðist ekkert annað liggja fyrir en að bú þess manns verði tekið til gjaldþrotameðferðar og selt, eða þá að öðrum kosti komið á nauðasamningum. Ég held þess vegna, að sú stefna sé heppilegri, að láta þessa aðila báða meta hag og afkomumöguleika viðkomandi manns og byggja sitt samkomulag á því, heldur en að láta héraðsnefndirnar meta fasteignirnar hverja á sínum stað og leggja það svo til grundvallar, sem kröfuhafar þurfa ekki að taka tillit til, frekar en þeim sjálfum sýnist.

Hv. þm. V.-Sk. talaði um „kúgun“ í sambandi við þessa löggjöf og að menn vildu ekki láta „kaffæra“ sig, og hafði önnur slík orð, sem ég veit, að eru alls ekki töluð út frá hugsun bændanna, því að þeir skilja það, að með þessum lögum er verið að leysa þá undan kúgun og forða þeim frá kaffæringu úrræðaleysis, efnaleysis og vesaldóms, sem leiddi til, ef ætti að gera upp bú þeirra á venjulegan hátt og selja afurðir þeirra og eignir á þeim verðleysistímum, sem nú hafa gengið yfir þetta land. Ég vil því mótmæla harðlega, að orð hv. þm. V.-Sk. séu töluð út frá hug og hjarta bændanna, og að verið sé að fremja neitt með þessari löggjöf, sem slík orð gætu hljóðað upp á.

Þá er einn liður þessa frv. sá, að fela stj. Búnaðarbankans stjórn Kreppulánasjóðs. Ég bar fram, bæði í n., sem við stóðum að, hv. þm. Str. og ég, till. í þessa átt, og einnig í þinginu, en um þetta atriði náðist ekki samkomulag. Hinsvegar varð fullt samkomulag um það, að aðalbankastjóri Búnaðarbankans ætti sæti í stjórn sjóðsins, og auk þess tveir menn, sem atvmrh. skipaði eftir till. landbn., og þar með leystist þetta mál með góðu samkomulagi, eins og yfirleitt allt, sem snerti afgreiðslu þessara laga á síðasta þingi. Nú eru þeir, sem skipa stjórn sjóðsins, fyrst og fremst búnir að undirbúa starfsemi sjóðsins, og sé ég því alls ekki, að um það sé að ræða að breyta til. Þó ég viðurkenni, að af því geti leitt, eins og ég ætlaðist til samkv. mínum till., að það yrði nokkuð kostnaðarminna, en hinsvegar er ég þess fullviss, að að fara að breyta þessu gæti orðið til þess að koma glundroða á þessa starfsemi, og ég vil ekki eiga neinn þátt í því, sem getur orðið til þess að draga úr gildi þessarar löggjafar, og af þeim sökum er ég á móti því, að þessar breyt., sem nú liggja fyrir, verði að lögum.

Það er talið nokkuð hastarlegt að greiða atkv. á móti því, að mál fari til nefndar, og ég mun ekki fyrir mitt leyti sporna á móti því, að þetta mál fari til landbn., af því að ég veit, að hún hefir svo góðan skilning á þýðingu og gagnsemi þessarar löggjafar, og það er vitanlega alveg sama, hvar málinu er skapaður aldurtili, en ekkert erindi á það þangað.