07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jakob Möller:

Það er aðeins örstutt aths., sem ég þarf að gera út af ummælum hv. 1. þm. Eyf. Hann sakaði okkur sjálfstæðismenn um það, að við vildum ekki láta alla kosninguna fara eftir hlutfallskosningareglum. En hv. þm. gætir þess bara ekki, að það eru þá ekki bara sjálfstæðismenn einir, sem ekki vilja þetta, því að stjskr. bannar þetta með því að fyrirskipa meirihlutakosningu í kjördæmum. Ef það er nú hinsvegar meining hv. þm., að samkv. till. hv. þm. N.-Ísf. fari öll kosningin fram eftir reglum hlutfallskosninga, þá virðist enn rétt að beina athygli hæstv. forseta að því, hvort sú till. muni þá ekki síður samrýmanleg stjskr. en till. okkar sjálfstæðismanna. Annars er það um okkar till. að segja, að samkv. henni fer kosningin þannig fram, að að nokkru leyti er fylgt fram fullu jafnrétti milli flokka, með því að áskilja hverjum kjördæmiskosnum þingmanni jafnt atkvæðamagn, en að nokkru leyti er farið eftir venjulegum reglum hlutfallskosninga, eins og berum orðum er tekið fram, að gert skuli, í stjskr.

Reiðilestur hv. þm. N.-M. út af því, að sýnt sé, að í þessu máli eigi að meta flokkshagsmunina meira en þjóðarhagsmuni, skil ég svo, að flokkar þeir, sem eru í meiri hl. í þessari deild, muni ætlast þetta fyrir, enda er talið, að samvinna sé ráðin milli þeirra upp úr næstu kosningum. En ég hefi ekkert á móti því, þótt hv. þdm. sýni það með atkv. sínu að þeir meti flokkshagsmuni meira en annað. Hitt væri óviðkunnanlegra, ef hæstv. forseti sýndi það í úrskurði sínum, og dettur mér ekki í hug að gera honum þær getsakir.