07.12.1933
Neðri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

2. mál, kosningar til Alþingis

Vilmundur Jónsson:

Ég vona, að hæstv. forseti gefi mér sama rétt og hv. frsm. n., sem síðast talaði, ekki sízt þar sem ég bæði er form. n. og tala auk þess fyrir hönd hins frsm., sem er forfallaður frá að taka þátt í umr. vegna veikinda. Þarf ég, vegna þess, sem fram hefir komið síðan ég tók áður til máls, að gera nokkrar aths. á víð og dreif.

Ég vil fyrst geta þess út af till. hv. 1. þm. Eyf. um að fella niður af kjörseðlinum nöfn stjórnmálaflokkanna í sambandi við frambjóðendurna, að ég get ekki fallizt á þessa till., jafnvel þótt ég viðurkenni, að það sé ósanngjarnt í garð flokks, að einstakur frambjóðandi, sem býður sig fram jafnvel í trássi við flokkinn, geti flaggað með nafni hans við kosningarnar. Ástæðan til þess, að ég get ekki fallizt á þessa till., er sú, að þetta er nauðsynleg og sjálfsögð leiðbeining fyrir kjósendurna sem gefa flokknum atkv. sitt um leið og þeir kjósa frambjóðandann, hvað svo sem líður heimild hans til þess að kenna sig við flokkinn.

Hv. 2. þm. N.-M. sagðist ekki geta greitt till. minni atkv., enda þótt hann tæki hana fram yfir till. þeirra sjálfstæðismanna, og kvaðst hann betur fella sig við gr. orðrétta eins og hún væri í frv. Hygg ég, að þetta sé af misskilningi sprottið því að það, sem hv. þm. setur fyrir sig, er það, að ekki séu settar skorður við úthlutun uppbótarsætanna niður fyrir hlutfallstöluna, en það er einmitt þetta, sem ég vil koma í veg fyrir, svo að það, sem hv. þm. óskar eftir, felst þannig í brtt. minni, en hinsvegar ekki í frv. eins og það er.

Röksemdir hv. 1. þm. Reykv. á móti hv. 1. þm. Eyf. voru honum líkar, og kemur það sér vel, að hér eru ekki tómir skynskiptingar í d., því að það má hæglega láta blekkjast af framsetningu hans. — Hann segir, að hlutfallskosningar séu bannaðar í stjskr., og er það að vísu rétt, að stjskr. gerir ekki ráð fyrir þeim, en hinsvegar verður ekki, án þess að hafa hliðsjón af reglum hlutfallskosninga, fengin sú niðurstaða, að flokkarnir fái þingsæti í sem réttustu hlutfalli við atkvæðamagn sitt, og þetta er ekki bannað, heldur er þess beinlínis krafizt í stjskr.

Þá hefir verið talað hér nokkuð um „vafasæti“ í sambandi við uppbótarþingsæti, sem ég kannast ekki við og koma ekki til greina eftir „minni aðferð“. Hitt má til sanns vegar færa, að kalla öll uppbótarsætin vafasæti, ef þeim á að úthluta eftir „Möllers aðferðinni“, því að þá geta hendingar ráðið svo miklu um, hvert þau lenda. Sýndi ég það með óyggjandi dæmum í gær, hversu fráleit sú aðferð er, þar sem jafnvel fyrir getur komið samkv. henni, að flokkar, sem hafa jöfn atkv., en annar flokkurinn helmingi færri þm., að þeir fái báðir jafnmörg uppbótarþingsæti! Er þetta stærðfræðileg staðreynd, sem ekki þýðir að mótmæla, eins og ég sýndi fram á í gær. Hv. 1. þm. Reykv. segir, að fyrir þetta sé girt með brtt. á þskj. 342, sem þeir báru fram síðar skriflega, og er það satt, að hún bætir dálítið úr þessu, en hvergi nærri til fullnustu. Í þessari viðbótartill. er gert ráð fyrir, að hin lægsta meðalatkv.tala þingflokks geti ekki orðið hlutfallstala kosningar, ef hún nemur ekki 1% af öllum greiddum, gildum atkv. í kosningunni. Við síðustu kosningar voru greidd rúmlega 35 þús. atkv., og getur hlutfallstalan samkv. þessari vatill. orðið 350–360. Er þetta lág hlutfallstala, svo lág, að útreikningar geta nálgast þau fjarstæðu dæmi, sem mönnum þótti ég nefna hér í gær. Þetta er e. t. v. miðað við einhverjar sérstakar þarfir Sjálfstfl., og mér hefir dottið í hug, að höfð muni í huga kosningin í Vestur-Skaftafellssýslu síðastl. sumar. Þar er núv. þm. sýslunnar kosinn með 387 atkv. Hefði hann að nafninu til talið sig í öðrum flokki, þá hefði hann getað hjálpað sjálfstæðisflokknum um lága hlutfallstölu. Hv. þm. hefði ekki þurft annað en telja sig þjóðernissinna, eins og hann í raun og veru mun vera, ef marka má skrif hans síðastl. vor.

Hv. þm. Snæf. hefir sagt, að miðað við síðustu kosningar hefði litlu munað, hvor aðferðin hefði verið viðhöfð við útreikning uppbótarþingsætanna, mín eða þeirra sjálfstæðismannanna. Það má vera, að munurinn hefði ekki orðið mikill, en hitt er þó víst, að með því að nota „mína aðferð“ hefði mátt komast nær því samræmi milli flokkanna, sem hin nýja stjskr. krefst. Með því að nota hana hefði stærsti þingflokkurinn fengið 24 þingsæti, næststærsti, sem í þessu tilfelli var Framsfl., 15, en sá minnsti 10. En með því að nota „Möllers aðferð“ hefði útkoman orðið sú, að stærsti þingflokkurinn hefði hlotið 25 þingsæti, sá næsti 15, en sá minnsti 9, sem er rangt. Það hefir verið sannprófað með „reikningsreglu hinna minnstu kvaðrata“, er ég hefi áður lýst fyrir hv. þdm. Munurinn er vitanlega ekki mikill, en hann nægir þó til þess að sýna ranglætið, sem fylgir reglu sjálfstæðismanna. (TT: Ég met kjósendatöluna meira en kvaðrötin). Það er ekki rétt hjá hv. þm., að Sjálfstfl. hafi haft meiri atkvæðatölu við kosningarnar síðastl. sumar en Framsfl. og Alþfl. til samans, nema þá því aðeins, að hann telji Sjálfstfl. atkv. kommúnista. (TT: Hv. þm. N.-Ísf. var sjálfur kosinn með atkv. kommúnista). Nei, það er ekki rétt. Í mínu kjördæmi eru aðeins 3 kommúnistar, en sjálfstæðismenn lánuðu kommúnistanum, sem bauð sig fram á móti mér, meðmælendur. En auðvitað leyfðu þeir ekki hinum lánuðu meðmælendum að kjósa hann. Því fór sem fór fyrir vesalings kommúnistanum. Sjálfstæðismenn brugðust honum, eins og þeir eru vanir að bregðast öðrum.

Annars getur vitanlega farið svo, að flokkur, sem hefir meiri hl. kjósenda að baki sér, verði í minni hl. á þingi. Það getur og komið fyrir, að flokkur, sem hefir meiri hl. á þingi, geti ekki komið fram málum sínum þar sökum deildaskipunar þingsins. Og að þetta getur átt sér stað, er af þeirri ástæðu, að kjördæmaskipunin er ranglát, og það verður ekki leiðrétt, nema með nýrri breyt. á stjskr. Er mér ljúft að taka það fram hér, að það mun ekki standa á mínum flokki að koma þeirri breyt. á. Það nær ekki neinni átt að ætla sér að leysa þann hnút með því að reikna skakkt út uppbótarþingsæti og brjóta til þess stjskr. Gæti stærsti flokkur þingsins með jafnmiklum rétti gripið til þess að gefa fleiri eða færri þm. sínum tvöfaldan atkv.rétt í þinginu, eða annars ámóta.

Ég vil svo að endingu minna hæstv. forseta á kröfu mína frá í gær, um að vísa brtt. sjálfstæðismanna frá með forsetaúrskurði, þar sem hún brýtur í bága við stjskr. Um það, að brtt. þessi bryti í bága við hina nýju stjskr. var ég að vísu sannfærður í gær, en er þó ennþá sannfærðari um það nú, eftir að hafa athugað málið á ný frá öllum hliðum og með sérstakri gaumgæfni. Hefi ég áður margsýnt fram á, að ég hefi hér á réttu máli að standa, en mun nú til viðbótar vitna til síðustu kosninga og verð ég þá ekki vændur um, að ég taki fjarstæðukennd dæmi. Miðað við síðustu kosningar verða meðalatkv.tölur flokkanna, að lokinni úthlutun uppbótarsæta, sem hér segir. Eftir „minni aðferð“:

713,8 — 568,7 — 668,5, en eftir „Möllers aðferð“:

685,3 — 568,7 — 762,7.

Munurinn á hinni hæstu og lægstu tölu, samkv. „Möllers aðferð“ er svo miklu meiri heldur en eftir „minni aðferð“, að það dylst engum, sem á annað borð vill athuga þetta mál öðruvísi en frá ofstækisfullu flokkslegu sjónarmiði. Það er því bersýnilegt, að svo framarlega sem hæstv. forseti skilur ákvæði hinnar nýju stjskr. þannig, að þingflokkarnir eigi að hafa sem jafnastar meðalatkvæðatölur á hvern þingmann, þá getur hann ekki annað en vísað till. þessari frá, þar sem því verður ekki móti mælt, að slíkur jöfnuður næst æfinlega langtum betur með „minni aðferð“ heldur en „Möllers aðferð“, auk þess sem hin síðarnefnda getur í einstökum tilfellum leitt til hinna fjarstæðustu öfga. Með „Möllers aðferð“ næst slíkur jöfnuður ekki, nema því aðeins, að uppbótarþingsætin séu ótakmörkuð.

Ég skal játa, að það er ekki óhugsandi, að ennþá megi finna einhverja aðferð, sem hægt sé að ná meiri jöfnuði með en þessari aðferð, sem ég hefi bent á, en á hana hefir ekki verið bent enn, og hefir forseti því ekki annað að miða við og gera upp á milli en þær tvær till., sem fyrir liggja. Með því að samþ. till. mína verður komizt næst ákvæðum stjskr. Það má vera, að hæstv. forseti treysti svo vitsmunum hv. þdm., að þeir samþ. ekki brtt. sjálfstæðismanna, þó að hún verði borin upp. En ég vil benda hæstv. forseta á, að verði það traust sér til skammar og till. samþ., þá hvílir þung ábyrgð á honum, og er því öruggast fyrir hann að úrskurða till. frá áður en gengið verður til atkv.