08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

2. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það eru ummæli hv. 1. landsk., sem reka mig á fætur. Ég get ómögulega verið honum sammála um það, að kosningalagafrv. sé ekki að öllu leyti í samræmi við stjskr. í henni stendur, að heimilt sé flokkum að hafa landslista, en í kosningal. segir svo í 30. gr.:

„Á landslista skulu nöfn frambjóðenda ekki vera fleiri en 38, nema frambjóðendur flokks í kjördæmum séu fleiri samtals.

Í stað þess að raða nöfnum fyrirfram á landslista, má stjórnmálaflokkur, er ber hann fram, ákveða, enda tilkynna landskjörstjórn, að allir frambjóðendur flokksins í kjördæmum skuli vera á landslista og í þeirri röð, er þeir skipast í við kosninguna, eftir atkvæðum þeim, er falla á þá persónulega við kosningar í kjördæmum“.

Hér get ég ekki séð, að skakki neinu frá stjskr., að öðru leyti en því, að í kosningal. eru gerðar sterkari kröfur en í stjskr., og er það eftir beinum heimildum stjskr., þar sem stendur, að a. m. k. annaðhvert sæti 10 efstu manna á landslista skuli skipað frambjóðendum í kjördæmum utan Reykjavíkur.

Ég er sammála hv. 1. landsk. um það, að landskjörstjórn verður að fella úrskurð um þetta, ef raðaðir landslistar koma fram, en ég vil jafnframt benda á það, að það kemur síður undir úrskurð Alþingis, hvort þeir, sem kjörnir eru samkv. þessum úrskurði, eru rétt kjörnir eða ekki. Þetta veit hver landskjörstjórn, og því fer hún varla að ganga á móti því, sem segir í kosningal. landsins. En geri hún það, á hún á hættu að fá sínum úrskurði kollvarpað af Alþingi síðar meir.

Svo eru þessar brtt. Mér finnst a. m. k. sumar þeirra ónauðsynlegar. Ég sé t. d. ekki neina þörf á brtt. við 11. gr. Það á að velja í landskjörstjórn 10 menn í allt, og ætti þá að vera auðvelt að velja nægilega marga af þeim, sem engar líkur eru til, að verði í kjöri. Mætti merkilegt heita, ef Alþingi gæti ekki fundið nægilega marga í landskjörstjórn, sem engar líkur væru til, að yrðu í kjöri. Það er næstum óhugsanlegt. En ef á annað borð á að fara að breyta frv., þá gerir ekki mikið til, þó að þessu sé einnig breytt. En þetta frv. er nú búið að ganga í gegnum 7 umr., og er þá undarlegt, að nú fyrst eigi að fara að breyta þessu ákvæði.

Ég held, að það gerði yfirleitt lítið til, þó að frv. væri samþ. eins og það liggur nú fyrir. Ég tel vel hægt að notast við það eins og það er, þó að kannske megi benda á 1—2 atriði, sem eru ekki í algerðu innbyrðis samræmi. Hitt mun rétt, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði, að við nánari athugun er sennilegt, að fram komi, að sumum ákvæðum þurfi síðar að breyta, en það mun eins geta komið fyrir, þó að þessar brtt. verði samþ.