15.11.1933
Efri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

3. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Fyrir till. n. er gerð grein í nál. á þskj. nr. 27, svo að við það þyrfti ekki neinu verulegu að bæta. En til frekari skýringar vil ég taka það fram, að breyt. þær, sem n. gerir á frv., aðrar en þær, sem hæstv. ráðh. benti á við 1. umr., eru þessar:

Í fyrsta lagi vill n. orða 2. gr. frv. rúmar en í frv. er gert. Þar vill n. ekki endilega einskorða ákvæði 1. við það, að Ed.-þm. deyi, heldur hafa ákvæðið svo: „Nú losnar sæti Ed.-þm.“ o. s. frv. í Ed. geta átt sæti menn, sem einnig eru varamenn til fyrir, svo sem þm. Reykv. og uppbótarþm., og mundu þá varamennirnir koma beint í stað hinna, sem falla frá eða víkja úr sæti. Þetta á því við aðeins um kjördæmakosinn þm., sem kjósa þarf í staðinn fyrir af því, að þm. fellur frá eða hættir þingsetu.

Önnur breyt., sem n. hefir gert, er við 16. gr. þingskapanna, og er hún 4. brtt. n. Hún er í því fólgin að færa til samræmis núgildandi þingsköp við það, sem verið hefir. Þessari vinnunefnd er gefið afarmikið vald í þingsköpunum. Hún á að ráða öllum vinnubrögðum nefnda í deildinni, skipa fyrir um fundatíma nefndanna og sjá um, að þeir rekist ekki á, og ennfremur í hvaða röð hver n. tekur mál fyrir. Nú er það vitanlegt, að vinnunefnd hefir aldrei gert neitt af þessu, nema það eina, að ákveða tímatöflu og fundastaði í byrjun þings, a. m. k. ekki mér vitanlega. Það hefir aldrei komið fyrir, svo ég viti, að hún hafi nokkuð ráðið vinnubrögðum n. né heldur tekið til, í hvaða röð n. skyldi vinna að málum. Þetta er því fært til samræmis við framkvæmd vinnunefndar á þessum þingskapaákvæðum. Vitanlega á forseti að hafa hönd í bagga með um starfsemi nefndanna, og ef honum sýnist n. slá slöku við störf, ber honum að áminna þær. Og ef þm. finnst ekki ganga nógu vel störf í nefndum, geta þeir kvartað í þd. og komið kvörtun sinni þannig á framfæri. Enda væri það of mikið vald, sem þessari n. væri falið, ef hún gæti ráðið því, hvernig n. höguðu störfum sínum í málum.

Í öðru lagi hefir n. tekið til greina aths. þær, sem hæstv. forsrh. gerði við framsögu málsins. Það eru tilvitnanir í 1. og 4. gr. Þar er vitnað í stjskr. 1933 á báðum stöðum. En forsrh. gerði ráð fyrir, að hún yrði ekki staðfest fyrr en á árinu 1934. Ég sé ekki ástæðu til að draga það svo lengi, því að stjskr. verður sennilega samþ. innan 10 daga. En af því að það er ekki alveg víst, að stjskr. verði staðfest á þessu ári, vill n. fella niður þessar tilvitnanir.

Um það, að landsreikningurinn skuli koma fyrir í Sþ. til samþykktar, er það að segja, að n. treysti sér ekki til að skýra stjskr. svo, að það mætti vera. Það, sem hæstv. ráðh. vildi bera fram þessu til stuðnings, var það, að LR. heyrði undir sama flokk laga sem fjárl. og fjáraukal. í stjskr. er það skýrt tekið fram, að aðeins fjárl. og fjáraukal. skuli koma einungis fyrir sameinað þing. Mér finnst þetta því ekki heimilt eftir nýju stjskr., enda á þetta ekki að skipta neinu máli. LR. er ekki sama eðlis og fjárl. og fjáraukal. Ástæðan fyrir því, að það er komið inn í stjskr., að fjárl. og fjáraukal. skuli lögð fyrir Sþ., er, að því er sagt var í vor, að með því móti væri meiri hl. þingsins fyrir öllum þeim útgjaldaliðum, sem þar stæðu. En þessa þyrfti ekki við með núgildandi fyrirkomulagi, þegar þau ganga á milli deilda. — LR. er að því leyti annars eðlis en fjárl. og fjáraukal., að með honum er safnað í eina heild niðurstöðutölum fjárhagsútkomu fjárlagaársins, sem hann á að gilda fyrir.

Þriðja atriðið er ósamræmi milli 143. gr. kosningalaganna og þingskapa þessara. Í þingsköpum hefir sú regla gilt, að kærur út af kosningu þm. skuli vera komnar til Alþ. innan 4 vikna frá fyrstu þingsetningu eftir kosningu. En í kosningal. hefir staðið, að slíkar kærur skuli senda dómsmrn., sem síðan hefir átt að athuga þær og senda tvö samrit, annað frambjóðanda þeim eða umboðsmönnum lista þess, sem kæran varðar, en hitt samritið Alþingi þegar í þingbyrjun, og er með því auðvitað átt við, að kæran sé komin til Alþ. þegar fyrsta dag þingsins og liggi fyrir þegar gengið er til atkv. um gildi kosninga. Nú hefir það verið tekið upp í nýju kosningalögin, að slíkar kærur skuli vera komnar til Alþ. þegar í þingbyrjun, og því vitanlega liggja fyrir, þegar gengið er til atkv. um gildi kosninga, og n. hefir fallizt á að gera breyt. í samræmi við þetta. Þó getur svo farið við uppkosningu og aukakosningu, að þm. komi síðar til þings en í þingbyrjun, og því er brtt. n. orðuð þannig: „... að hún sé komin til Alþingis í byrjun þings næst á eftir kosningu, eða áður en kosning þm. er tekin gild á Alþingi“. Að öðru leyti gilda ákvæði 5. gr. þingskapanna, m. a. um það, að Alþ. geti úrskurðað kosningu þm. ógilda, þótt ekki sé kært, eða frestað að taka kosningu gilda. — Þessi síðasttalda brtt. verður ný grein, og breytist greinatala frv. í samræmi við það.

Að lokum vil ég segja frá því, sem er í nál. tekið fram, að n. ræddi um víðtækari breyt. á þingsköpunum heldur en farið er fram á í brtt., en vildi hinsvegar ekki, af ástæðum, sem þar eru greindar, fara út í það nú, vegna þess að ætla má, að tími sé naumur til þess nú á þessu þingi, því að fáir lagabálkar eru jafnumfangsmiklir og umþráttaðir sem þingsköp Alþingis. En í nál. bendir n. á þá leið, að þingflokkarnir skipi sinn manninn hver og feli þeim með aðstoð skrifstofustjóra Alþingis að koma í eina heild öllum lagaákvæðum um þingsköp Alþingis og undirbúa málið fyrir næsta Alþ. Álít ég þetta hentugt til að undirbúa það, að gerðar verði breyt. á þingsköpunum, sem að mínu viti ber nauðsyn til að gera, því að um það hefir verið mikið deilt, hvernig beri að skilja ýms ákvæði þeirra. — Þá þurfa þær reglur sjálfsagt umbóta við, sem gilt hafa um útvarp frá Alþingi.

N. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem brtt. á þskj. 27 fjalla um.