07.11.1933
Efri deild: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

7. mál, tolllög

Ingvar Pálmason:

Út af umr. þeim, sem hér hafa fallið, um staðfestingu á bráðabirgðalögum um breyt. á útflutningsgjaldi af síld og síldarafurðum, vil ég taka það fram, að ég var flm. að frv. þessara laga á síðasta þingi. Á frv. var upphaflega, eins og það var flutt, enginn formgalli, eins og hv. 2. landsk. getur sannfærzt um, ef hann kynnir sér þingskjölin, sem þar að lúta. Sá formgalli, sem varð á frv. að lokum, kom fram við meðferð málsins í þinginu, og hygg ég, að hv. þdm. minnist þess, að frv. hraktist á milli deilda, og í hv. Ed. var það ekki til meðferðar í samskonar n. og verið hafði í þessari deild. Mun það m. a. hafa valdið nokkru um, að frv. brenglaðist svo í afgreiðslu frá þinginu að lokum. Ég skal játa það og viðurkenna, að ég sem form. sjútvn. þessarar þd. athugaði ekki, að hv. Nd. hafði afgr. frv. með þessum formgalla. En þannig stóðu sakir, að þegar frv. var hér aftur til einnar umr., þá var mjög liðið á þingtímann, og hefði það þurft að fara aftur til hv. Nd., ef því var breytt hér. Ég verð því sem form. sjútvn. að taka þá sök á mig, að n. yfirsást í þessu efni og gætti ekki þeirrar skyldu sinnar að athuga þær afleiðingar, sem breyt. hv. Nd. höfðu í för með sér. Ég get því staðfest það, sem hæstv. forsrh. sagði, að þegar búið var að afgr. frv. sem lög til ríkisstj., þá tilkynnti hæstv. ráðh. mér, hver formgalli væri á þeim, og kvaðst ekki sjá annað ráð vænlegra en að gefa það út sem bráðabirgðalög í þeirri mynd, sem það nú er. Og ég álít, að það hafi fullkomlega verið í samræmi við þingviljann í þessu máli. Að vísu var ekki um mikið að ræða að því er þennan formgalla snertir, en hann var fólginn í tilvitnun í önnur lög, sem ekki voru rétt tilgreind.