06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

7. mál, tolllög

Jóhann Jósefsson:

Þessar upplýsingar, sem hv. 2. þm. N.-M. gaf nú, hefði verið auðvelt fyrir hann að gefa í fyrstu ræðu sinni. Ég saknaði einmitt upplýsinga um afstöðu n. til erindis þess, sem fram hafði komið frá Félagi ísl. iðnrekenda í mótmælaskyni við þetta frv. Nú hafa komið upplýsingar frá hv. frsm. um, að náðst hafi samkomulag við þetta félag eða þessa framleiðendur um meðferð málsins, eða svo að kalla samkomulag. Nú er eftir að athuga við 3. umr. um málið, hvað mikið felst í þessari fullyrðingu og hvort þetta „svo að kalla“ er ekki talsvert þýðingarmeira fyrir framleiðendur þessara vörutegunda hér á landi en ráða má af orðalagi hv. frsm. Þó er ég ekki að rengja það, að hv. þm. fari hér með rétt mál, svo langt sem það nær. Annars virðist samkomulagið aðallega hafa grundvallazt á því, að eitthvað hefir verið hækkaður tollur á innfluttu súkkulaði. Sá tollur var nú satt að segja nokkuð hár fyrir, og varla ástæða til að ná samkomulagi um að auka hann. Það er á hinn bóginn vitað, að einmitt framleiðsla á þessari vörutegund hefir gefizt tiltölulega mjög vel hér og náð talsverðri útbreiðslu. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en vil aðeins þakka hv. frsm., að hann gaf nú þessa skýringu, sem hann hefði þó átt að gefa strax í fyrstu.