14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Bernharð Stefánsson:

Hv. þm. G.-K. sagði, að grunur um hreppapólitík hlyti að falla á okkur hv. þm. A.-Húnv. í þessu máli. Ég get ekki gert að þessum grun hv. þm. G.-K. og mun ekki skipta mér af því, að öðru leyti en því, að ég mótmæli því hvað mig snertir. (ÓTh: Er það ekki alveg víst um hv. þm. A.-Húnv.!). Ég hefi ekki haldið Siglufirði neitt eindregið fram. Ég hefi reyndar gert aths. við ummæli hv. þm. G.-K. og fleiri gegn því að reisa stöðina þar, vegna þess, að þau eru á engum rökum byggð, en ég hefi alls ekki látið í ljós, að ég geti ekki fallizt á neinn annan stað. Það, sem ég hélt fast fram, var það, að Alþingi ætti sjálft að ákveða staðinn, eða a. m. k. gera ráðstafanir um, hvernig hann yrði ákveðinn, en ekki fela stj. það. Það hefir þegar verið upplýst í umr., að það kostar mikið meira fé að framkvæma þetta verk annarsstaðar en á Siglufirði. (PO: Það er alls ekkert upplýst í þá átt). Jú, það er fullupplýst. Þess vegna er rétt, að Alþingi ákveði sjálft þennan stað, enda hefðu sjálfstæðismenn einhverntíma kallað það, að þingið afsalaði sér fjárveitingavaldinu í hendur stj., með því að afgr. mál með þeim hætti, sem hér er farið fram á. En Alþingi á náttúrlega að taka ákvörðun um þær till., sem því berast um það, hvar skuli reisa þetta fyrirtæki. Það eitt er farið fram á af mér. Þó að ég hafi bent á, að það, sem hv. þdm. hafa sagt um hættu þá, sem stafi af verkföllum á Siglufirði, séu ekki þung rök, þá get ég vel trúað því, að síðar komi fram gildari rök fyrir þeirra málstað. Það er alveg óþarfi að stagast á því, að verkföll séu tíðari á Siglufirði, meðan óreynt er um, hvernig verður annarsstaðar, þegar þar skapast sama aðstaða til þeirra hluta og er nú á Siglufirði. Ég get t. d. nefnt Skagaströnd. Þar eru nú aðeins örfáir verkamenn og því sem næst óskipulagðir í þessu tilliti. En mér finnst það mjög trúlegt, að of þar kæmi upp síldarbræðslustöð og verkamenn streymdu að annarsstaðar frá og mynduðu með sér verklýðsfélög, þá komi annað hljóð í strokkinn. Og þegar verkfall gat orðið í Krossanesi, þá sé ég enga ástæðu til þess að halda, að slíkt geti ekki komið fyrir við Húnaflóa. Annars geta verkföll orðið víðar en á Siglufirði. Ég veit ekki betur en að þau hafi orðið bæði á Blönduósi og Hvammstanga, og eru þar þó engar síldarbræðslustöðvar. Ef slík stöð væri reist við Húnaflóa, hvort heldur væri á Skagaströnd eða hjá fjörðunum í Strandasýslu, myndi það ekki fyrirbyggja það, að verkföll gætu orðið. Þangað myndi fólk streyma í atvinnuleit og hin sömu skilyrði til verkfalla myndast og nú eru fyrir hendi á Siglufirði.