18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég vil benda á það, að í 2. lið brtt. á þskj. 63 er prentvilla. Þar stendur „á eftir 2. gr.“ o. s. frv., en á að vera: á eftir 1. gr. o. s. frv. Brtt. ber þetta og með sér. Ég geri það ekki að neinu kappsmáli, þótt þrengt sé svið þeirra manna, sem álits skal leitað hjá. En óneitanlega snertir þó framkvæmd þessa verks fleiri en þá, sem gerðu út á síld síðastl. sumar. Er því eðlilegt, að a. m. k. þeir, sem gert hafa út á undanförnum árum, fengju einnig að segja álit sitt. Eins er um þá menn, er fengizt hafa við reknetaveiðar síðastl. sumar, því vel má vera, að þeir vilji breyta til og taki að stunda herpinótaveiðar og leggi í bræðslu. Þetta getur því snert þá líka. Ég sé enga hættu í því fólgna, þótt þetta sé ekki takmarkað svo mjög. Ég óska því, að till. mín sé borin undir atkv., enda þótt ég leggi ekki neitt sérlegt kapp á það, að hún verði samþ.