04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Frsm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hæstv. dómsmrh. minntist á. Hann sagði, að engin áætlun lægi fyrir um þessa verksmiðju, sem hér er farið fram á, að reist sé. Það má vera, að ekki sé til nein fullkomin áætlun um hana, en samt sem áður hygg ég, að það hafi legið áætlun fyrir sjútvn. Nd., þar sem gert var ráð fyrir, að vélar og hús mundu kosta 227 þús. kr. Þetta er töluvert til að byggja á. En það var gert ráð fyrir því þá í Nd., að þessa verksmiðju ætti að reisa á Siglufirði, og þá var því haldið fram, að vel væri hægt að reisa hana fyrir 500 þús. kr., og þar sem ýmislegt gæti verið sameiginlegt báðum verksmiðjunum, svo sem bryggjur, rannsóknarstofa o. m. fl.

En svo þegar hin till. kom, um að binda heimildina ekki við Siglufjörð, var stungið upp á að hækka lánsheimildina upp í 1 millj., en það er náttúrlega mjög óvíst, hvort það muni nægja. En ég álít, að ef það sýnir sig, að verksmiðjan kosti 900 þús. kr., þá kæmi náttúrlega ekki til mála að fara að kaupa hlutabréf í Seyðisfjarðarverksmiðju. Ég er heldur ekki viss um, að þó verksmiðja verði reist aftur, sem afkasti jafnmiklu og sú, sem ríkið á á Siglufirði, þá muni kostnaðurinn verða svo gífurlegur eins og þar var, vegna þess, að menn mundu vara sig á ýmsu, sem þeir þá lærðu á þeirri reynslu um framkvæmd verksins og kostnaðinn.

Ég hygg því, að það séu nokkrar líkur til þess, að verksmiðjan fari ekki fram út þessari lánsheimild, og þess vegna muni það ekki hafa nein aukin útgjöld í för með sér, þó þessi brtt. n. verði samþ.