04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það eru aðeins örfá orð. Ég minnist þess ekki að hafa lagt á móti því, að verksmiðja dr. Pauls væri keypt. Ég bar aðeins fram þá breyt., að heimild stj. til að kaupa síldarverksmiðju væri ekki bundin við hans nafn. Það sýndi sig líka, að heppilegra var að básúna það ekki út, að kaupin væru bundin við þá verksmiðju. Með því að stj. lét sem sér væri drumbs um að kaupa hana, þá fékkst ágætt verð á henni, víst ekki yfir hálfvirði. Það sýndi sig því, að þar var hyggilega farið að. Mér skildist á hv. frsm., að hann endurtæki það, að stj. ætti ekki að leggja þessar 100 þús. kr. í hlutabréfakaup á Seyðisfirði fyrr en séð væri, að verksmiðjan á Norðurlandi færi ekki yfir 1 millj. Það er að vísu rétt, að ekki ætti að þurfa að bíða með ákvörðun um það þangað til byggingin er alveg búin. En hér þarf þó aðgæzlu við. Það má með engu móti fara líkt og þegar síldarbræðslustöðin á Siglufirði var reist. Ég held því fram, að engin áætlun sé enn til um þetta, sem á er byggjandi. Þó það sé talið upplýst, hvað vélarnar kosti í Noregi, þá er alls ekki víst, að þær vélar séu tryggilegar, og enn síður hvað þær koma til með að kosta heimkomnar og niðursettar.