02.11.1933
Sameinað þing: 1. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. meiri hl. 2. kjördeildar (Bergur Jónsson):

2. kjördeild hefir haft til meðferðar kjörbréf þrettán þm. og leggur til, að tólf þeirra verði tekin gild. Það eru kjörbréf þm. Borgf. (PO), þm. V.-Húnv. (HJ), 1. þm. S.-M. (EystJ), 1. þm. Eyf. (BSt), 2. þm. Árn. (EE), 1. þm. Skagf. (MG), þm. G.-K. (ÓTh), þm. N.-Þ. (BKr), 2. þm. N.-M. (HStef), 1. þm. Reykv. (Jak-M), þm. A.-Sk. (ÞorlJ) og þm. V.-Sk. (G-Sv). Kjördeildin hefir ekki fundið neitt athugavert við kjörbréf þessara þm. og leggur til, að kosning þeirra verði tekin gild.

Hinsvegar hefir komið fram kæra út af kosningu eins þess þm., sem heyrir undir þessa kjördeild að rannsaka, en það er kosning Bjarna Snæbjörnssonar í Hafnarfirði. Meiri hl. kjördeildarinnar leggur til, að frestað verði að taka hana gilda, en málinu sé vísað til kjörbréfanefndar til nánari athugunar.

Kæran, sem fram hefir komið í þessu máli, er frá fulltrúaráði Alþýðuflokksins í Hafnarfirði. Var þar aðallega kært yfir tveimur atriðum. Annað er það, að upplýst hefir verið, að bæjarfógetinn í Hafnarfirði hefir neitað að aðstoða einn kjósanda við skriflega kosningu utan kjörstaðar. Þessi kjósandi var, að því er upplýst hefir verið, fylgjandi Alþýðuflokknum. Síðar er það upplýst, að aðstoð hefir verið veitt sex kjósendum, sem fylgt hafa Sjálfstæðisflokknum.

Hitt atriðið er það, að vottar hafi ekki verið hafðir við kosninguna heima hjá bæjarfógeta, og virðast bæði þessi atriði vera brot á 1. um atkvæðagreiðslu utan kjörstaðar. Meiri hl. kjördeildarinnar álítur því réttast á þessu stigi málsins, að kjörbréfanefnd rannsaki þessi atriði, áður en deildin leggur úrskurð sinn á, hvort kosningin verði tekin gild eða ekki.

Í þessu máli er það tvennt, sem krafizt hefir verið: Annaðhvort að öll skriflegu atkvæðin verði gerð ógild og frambjóðandi Alþfl. verði þingmaður, — en sú krafa byggist á því, að á kjörstaðnum fékk Kjartan Ólafsson frambjóðandi Alþýðufl. fleiri atkvæði en Bjarni Snæbjörnsson —, eða þá að öðrum kosti, að kosningin sé ógild.

Meiri hl. leggur engan úrskurð á það, hvort taka skuli kosninguna gilda eða ekki, en þar sem hér er að ræða um atriði, sem aldrei hefir verið kært yfir áður, þá virðist rétt, að kjörbréfanefnd athugi málið, áður en úrskurður er lagður á það.