23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (889)

51. mál, strandferðir

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. V.-Húnv. þótti ég mæla hart og ómaklega í garð frv. Þessi hv. hm. er kunnur að því að mæla mjúklega í garð andstæðinga, og því von til, að honum bregði nú við!! En ég vil leggja fyrir hann nokkrar spurningar, fyrst hann er svo sannfærður um, að siglingarnar við Noreg séu þannig vaxnar, að við höfum þeirra engin not eins og þær eru nú. Hvaða skip eigum við Íslendingar nú, sem við getum tekið út úr öðrum ferðum og játið, okkur að skaðlausu, hefja siglingar til Noregs? Ég veit ekki til, að þessi skip séu handbær nú, og ég veit ekki betur en að Eimskipafél. sé búið að raða niður sínum ferðum fyrir næsta ár, og þar er ekki meira skipakosti á að skipa en þörf er á. Það annast siglingar til Danmerkur, Stóra-Bretlands, Þýzkalands og Belgíu, og ég veit ekki betur en að svarið hjá Eimskipafélagsstjórninni, þegar um ráð er rætt að sigla á fleiri hafnir, sé að þá skorti skip. Við vitum, að við höfum ekki skipakost til þess að taka upp reglulegar ferðir til Noregs. Það eru hálfsmánaðar ferðir til Suðurlandsins, Vestmannaeyja og Rvíkur, sem bergenska félagið heldur uppi, og mánaðarferðir til Austur- og Norðurlandsins. Við þyrftum að bæta úr þessu, ef okkur ætti að vera, eins og hv. þm. sagði, skaðlaust að vera án norsku skipanna. Til þessa þyrfti góð flutninga- og farþegaskip. Ég skal ekki deila um hagnaðinn af verzluninni við Noreg. ég lít svo á, að það séu gagnkvæmir hagsmunir í ýmsum greinum, eins og í viðskiptum við önnur lönd. Og þótt svo vildi til, að hægt væri, eins og einu sinni áður, að senda Súðina til Noregs með kjöt, þá fullnægir það ekki allri flutningaþörfinni. En hv. þm. mundi nú ekki eftir öðru en kjötinu.

Þá minntist hv. þm. á bifreiðaskattinn og að hann væri lagður á til þess að bæta vegina. En hér skýtur skökku við, hví að eins og nú horfir málum með það samgönguleysi, sem nú er, þá er hér um að ræða að skattleggja samgöngurnar og um leið að torvelda þær. En bifreiðaskatturinn hnígur engan veginn að því að torvelda samgöngur á landi, hvorki í bráð né lengd, heldur bæta þær. Hv. þm. sá enga hættu fyrir Eimskipafél. í þessu frv. Hann hefir þá lokað eyrum sínum fyrir yfirlýsingu hv. flm., er hann sagði, að „að svo stöddu“ yrði ekki gengið á rétt félagsins. Sú yfirlýsing felur í sér óbeina yfirlýsingu um það, eins og ég tók fram áðan, að það standi þó til með tímanum að bægja Eimskipafél. frá þeim flutningum, sem það nú hefir. Ég hefi ekki neina ástæðu til að taka neitt aftur af því, sem ég hefi sagt um þetta mál, og hafi ég verið harðorður að dómi hv. flm., pa er sú harka réttmæt gagnvart þeim selshausi einokunarinnar, sem hér bólar á enn af nýju.