20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

22. mál, verkamannabústaðir

1004Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Ísf. taldi það aðalatriði í þessu máli, að sem flestir yrðu aðnjótandi þeirra hlunninda, sem lögin gefa. Nú er það alveg víst, að því atriði yrði bezt fullnægt með því, að félögin væru fleiri en eitt. Það er nú svo, að samkv. mannlegu eðli vilja menn greina sig sundur í félög og flokka, og helzt ekki lúta öðrum nauðugir. Það er því oft þannig ástatt, að þó maður vilji ekki ganga í ákveðið félag, vegna þess að honum líka ekki forystumenn þess eða einhverjir starfshættir, þá getur sá maður verið fús að ganga í annað hliðstætt félag undir annara stjórn. Hv. þm. ættu því að vera fylgjandi því, að félögin verði a. m. k. tvö, svo að sem flestir geti orðið aðnjótandi þeirra hlunninda, sem lögin gefa. Það hefir verið gert mikið veður út af því, að ekki mætti hleypa pólitík í þennan félagsskap. Ég veit nú ekki betur en að í báðum félögunum séu menn af öllum eða ýmsum flokkum. Annars get ég ekki séð, að það væri neinn skaði skeður, þó menn greindust sundur í svona félagsskap eftir pólitískum skoðunum. Það, sem skiptir mönnum í flokka, eru mismunandi óskir, og þau félög, sem hér hafa starfað, fullnægja einmitt mismunandi óskum. Annað hefir eingöngu haft sambyggð hús, en hitt sérstæð, og er þarna komin nægileg ástæða fyrir fjölda manna að vilja ákveðið ganga í annað félagið, en ekki hitt. Hv. 2. þm. Reykv. lýsti því mjög hátíðlega yfir, að hann væri reiðubúinn að taka til athugunar byggingu sérstæðra húsa. Þetta tekur hv. þm. V.-Ísf. alveg trúanlegt, fyrst 2. þm. Reykv. segir það. En ég er nú eldri en hv. þm. V.-Ísf., enda vantreysti ég alveg sérstaklega orðum hv. 2. þm. Reykv. Ég þykist sjá mjög eðlilegar ástæður fyrir því, að hv. 2. þm. Reykv. vill heldur beita sér fyrir sambyggingum en sérstæðum húsum. Það er svo misjafnt eðli manna í þessum efnum. Sumir vilja hlynna að einstaklingseðlinu, en aðrir að múgeðlinu. Þeir, sem vilja hlynna að einstaklingseðlinu, vilja hafa sérstæð hús. En hinir, sem hlynna vilja að múgeðlinu, vilja fremur hafa sambyggingar. Þeir vilja blanda fólkinu saman, svo hægra sé að þurrka út einstaklingseinkennin. Ég er svo tortrygginn að halda, að hv. 2. þm. Reykv. hafi þetta bak við eyrað, þegar hann vill heldur hlynna að sambyggingunum. Ég vona, að hv. þm. V.-Ísf. sannfærist um af þeim rökum, sem ég hefi nú fært fram í þessu máli, að það er alveg bersýnilegt, að fleiri verða aðnjótandi laganna, ef félögin eru tvö. Ef það er aðalatriðið fyrir hv. þm. V.-Ísf., að félögin verði ekki pólitísk, hefir honum orðið á stór skyssa, því í staðinn fyrir pólitísk félög koma samkv. brtt. hans aðeins pólitískar deildir, með allt niður í 50 menn í hverri. Munurinn er því aðeins sá, að í staðinn fyrir 2 pólitísk félög kæmi eitt félag í mörgum pólitískum deildum. Ég býst því við, að allir geti orðið mér sammála um það, að það sé mörgum sinnum verra að fá þannig flokkadrátt inn í félag en að hafa þau fleiri. Allt hnígur þetta að því, að í raun og veru er hv. þm. V.-Ísf. að róa að því öllum árum að spilla því máli, sem hann segist vera að vinna fyrir, - eða trúir hv. þm. því, að það ríki friður og eindrægni í þeim félagsskap, sem hv. 2. m. Reykv. stendur fyrir? Það er vitanlegt, að nú þegar er persónulegur eltingaleikur og ýmiskonar rígur innan Byggingarfélags verkamanna, - og hvað halda menn þá að mundi verða, ef ýmsir flokkar færu að þyrpast inn í það? Ef menn vilja virkilega stuðla að friði, þá er áreiðanlega heppilegast, að félögin fái bæði að starfa við sömu aðstöðu.

Eins og hv. þm. G.-K. hefir tekið hér áður fram, hefir ekkert verið dregið fram, sem sýnir, að verra sé að hafa félögin tvö. Öll rök hafa gengið út á að telja mönnum trú um, að ekki sé ástæða til að hafa nema eitt félag. Helzt hefir verið bent á, að félagið mundi fá betri verzlunarsambönd, ef það væri eitt og þá þeim mun stærra. En það hafa þar á móti verið færð rök að því, að þó fél. séu tvö, eru þau hvert um sig nægilega stórt til þess að geta notið beztu kjara. - Þeir hafa byggt 50-60 íbúðir fyrir nokkrum árum og fengið beztu kjör, sem hægt var að fá. Eins gæti annað félag fengið beztu kjör til að byggja viðlíka margar íbúðir eða fleiri. Það er því bersýnileg vitleysa, sem hv. meirihlutamenn halda fram, enda hafa þeir gefizt upp við að berja þessi rök fram.

Hv. þm. V.-Ísf. finnur svo upp þessa mótbáru, að félögin eigi ekki að vera pólitísk. Hann hlýtur þó að vita, að ekki getur hann útilokað pólitík úr mannlegum félagsskap. En það er miklu meiri hætta á vandræðum og ógagni, sem stafa kunna af pólitískum flokkadráttum, ef félagið er eitt, heldur en ef þau eru tvö. Þessi röksemd er líka helber vitleysa. Allt hnígur að því eina, að hið sjálfsagðasta og eðlilegasta er, að félögin séu fleiri en eitt. „Hvað mörg?“ segir hv. þm. V.-Ísf. Hér er ekki farið fram á annað en að þau séu tvö, en ekki eitt. Það er ekkert að óttast, að þeim fjölgi upp í 3 eða 6.

Ég treysti því, að hv. þdm. séu nú ekki svo blindaðir af pólitískum flokkadráttum, sem þeir eru nú unnvörpum að fordæma í sambandi við þessi málefni. Ég treysti því, að þeir séu ekki svo blindaðir af þessum ósóma, að þeir geti ekki séð það, sem rétt er, og fylgt því fram.