20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

22. mál, verkamannabústaðir

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Ísf. taldi, að mjólkurbúin austanfjalls væru sérstaklega hentug fyrir sig til samanburðar við það mál, er hér liggur fyrir. Hvernig stendur á því, að ríkisvaldið hefir ekki beitt þau þessum fantatökum? Það er af því, að þingið hefir ekki séð sér fært að ganga á þann sjálfsagða rétt manna að mega starfa í sínum félögum. Hv. þm. taldi óeðlilegt að koma með togara í þessu sambandi. Mjólkurfélögin eru ekkert annað en framleiðslufélög heldur, þótt á öðru sviði sé.

Hv. 9. landsk. var að tala hér um skottlausa refi með ljós í rófunni. Ég hygg nú, að þetta muni vera nokkuð fáséð dýr, og man ég ekki til að hafa séð þau, nema ef vera skyldi þar sem hv. þm. er sjálfur.

Hv. þm. V.-Ísf. taldi frelsið svo ótakmarkað, að hver gæti verið í félaginu, sem vildi, og hver utan við það, sem vildi. Ég veit nú ekki, hvort menn mundu kalla það pólitískt frelsi, ef ekki væri nema einn stjórnmálaflokkur leyfður, enda þótt mönnum væri í sjálfsvald sett, hvort þeir væru í flokknum eða utan hans. Annars er það aðalatriðið, að mönnum er bannað að vera í öðru félagi en þessu, upp á stuðning hins opinbera, og það tel ég órétt.