20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

22. mál, verkamannabústaðir

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég skal aðeins lítillega víkja að því, sem hv. 8. landsk. sagði nú síðast. Það er fjarri því, að ég þakki mér að hafa komið honum á þing, og tel ég ekki, að honum beri nein skylda til að sýna mér almenna kurteisi þess vegna.

En það ætti þessi hv. þm. að geta skilið, að mér geti runnið í skap, þegar ég er í ræðu hans talinn sérstakt einkenni þeirra manna, sem ekki eru aðeins handjárnaðir, heldur hafa svo liðuga sannfæringu að geta allt af dinglað til og frá eftir annarlegum kröfum og tilhneigingum, því að sá var tónninn hjá hv. þm. áðan, þótt hann væri annar nú.

Út af áhyggjum hv. þm., að ég fylgi þessu máli móti betri vitund, þá skal ég fullvissa hann um það, að mín sannfæring er örugg í þessu máli. Yfirleitt ætti þessi hv. þm. að reyna að færa rök fyrir sínu máli, en vera ekki að væna menn um, að þeir segi annað en þeir meina, því að það er erfitt að færa rök fyrir slíkum hlutum. Að mín sannfæring er örugg í þessu máli, byggist á því, að ég met einskis rök þeirra manna, sem ekki vilja vera í því félagi, sem hv. 2. þm. Reykv. er formaður fyrir. Og þetta mundu sjálfstæðismenn skilja, ef um væri að ræða og sannað væri, að hér þyrfti að vera eitt fisksölusamlag, og nauðsyn þjóðarinnar krefðist þess, að allir útflytjendur ynnu saman. Ef svo þannig vildi til, að hv. þm. G.-K. væri formaður í slíku félagi, kjörinn af útgerðarmönnum sjálfum, þá mundi ég á sama hátt segja við jafnaðarmenn, er ekki vildu vera í því félagi, sem Ólafur Thors er fyrir, að ég tæki ekkert tillit til slíkra röksemda. Því að þótt þessir tveir menn séu hvor um sig foringjar í sínum flokki, þá er hægt að treysta þeim til að vera formenn í félagi, sem starfar ópólitískt, hvort sem það er byggingarfélag eða fisksölusamlag. Þessi rök eru skýr.

Ég er margbúinn að sýna fram á, að enginn réttur er tekinn af neinum til þeirra byggingarsjóða, sem hér er um að ræða, heldur þvert á móti hafa allir rétt til þess að njóta þessara hlunninda. Það hafa allir rétt til að halda sínum skoðunum og allir rétt til sömu lánanna og sömu lóðanna eins og ella mundi vera, því að skipun þessara mála hefir engin áhrif á það, hvað lánsmöguleikarnir og lóðamöguleikarnir eru stórir. Þessi rök eru svo skýr og klár, að ég veit, að innan skamms verður þögnuð sú ákæra, að hér hafi verið um nokkra misbeitingu valdsins að ræða, heldur verið viðurkennt, að reynzt hafi vel og heppilegt sé í framkvæmdinni að hafa hér eitt félag. Nú er ekki annað sjáanlegt en að allir fallist á, að í kaupstöðum utan Rvíkur verði að vera eitt félag. Ég vil því biðja menn að athuga, að ef þessi rök eru rétt um pólitíska kúgun, þá vilja menn samt ofurselja flokksbræður sína í öðrum kaupstöðum sömu kúguninni, vegna þess að þar verður að vera eitt félag. Menn verða að gá að því, að flytja ekki fram þau rök, sem alveg eyðileggja það, sem þeir eru búnir að viðurkenna, að í kaupstöðum utan Rvíkur verði að vera eitt félag, vegna þess hvað þeir eru litlir. (GÞ: Það hefir enginn sjálfstæðismaður viðurkennt). Menn tala um, að ég segi kannske ekki það, sem ég meina, en ég vil þó leyfa mér að segja, að þetta muni vera viðurkennt í huga einhvers slíks þm., þó þeir ekki segi það.

Ég mun svo ekki, jafnvel þótt tilefni gefist til, leita til hæstv. forseta um að taka aftur til máls að þessu sinni. Það munu öll rök fram komin önnur en þau, að menn þurfa kannske að sletta einhverju hver í annan, svo sem eins og að menn svíki sannfæringu sína og fleira álíka sæmilegt.