20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

22. mál, verkamannabústaðir

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Mér skildist hv. sessunautur minn viðurkenna, að eins og sakir stæðu nú væru það um 4-5 millj. kr., sem byggja mætti verkamannabústaði fyrir, ef allir möguleikar væru notaðir. Að því athuguðu er eftirtektarvert, að hann viðurkennir einnig, að af því fé, sem sjóðurinn fær til umráða frá ríki og bæjarfélagi, greiði hann afborganir, sem nema 2-3% umfram það, sem lántakendurnir sjálfir greiða. Þetta finnst mér gott ástand fyrir sjóðinn og benda til þess, að með réttu fyrirkomulagi megi auka mikið þá fúlgu, sem hægt er að byggja fyrir. Því vitanlega er þarflaust af sjóðstj. að taka framlög ríkis og bæja til þess að greiða með þeim afborganir; það fé kemur aftur á sínum tíma, og að sjálfsögðu getur sjóðstj. séð fyrir því á annan hátt heldur en að skerða framlög ríkis og bæja, sem eingöngu eiga að ganga til þess að greiða vaxtamismun. (EmJ: Hvernig?). Með lántöku að sjálfsögðu. Því þó sjóðurinn fái ekki lán til 40 ára, þá er ekki þar með sagt, að hvergi megi fá lánsfé til að greiða það, sem greiða þarf í afborganir umfram greiðslur lántakandanna sjálfra, vegna þess að þeirra lánstími er lengri. Það fé kemur aftur frá lántakendum, og er því öruggt að lána það, svo framarlega sem fyrirtækið er öruggt. Því vil ég segja, að hér er um miklu stærra mál að ræða heldur en hv. dm. hafa gert sér ljóst. Hér getur verið um að ræða byggingarstarfsemi fyrir 4-8 millj. kr., miðað við þau framlög, sem sjóðnum eru ætluð samkv. þessum lögum.

Hitt, að ekki sé fært að heimila fleiri félögum í Rvík lán úr sjóðnum vegna þess, að þá virðist þurfa að byggja strax yfir þá 350 menn, sem nú eru í Byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna, er ekki mikil ástæða, því ég fæ ekki séð, að það sé bráðnauðsynlegt að byggja yfir alla félagsmennina strax, fremur en það hefir þótt nauðsynlegt að byggja yfir alla strax á fyrsta ári, sem eru í byggingarfélagi hv. 2. þm. Reykv.

Það er rétt, að með núv. framlagi ríkis og bæja verður ekki byggt yfir ótakmarkaðan fjölda verkamanna. En ef hægt er að byggja yfir 500-600 fjölskyldur, þá finnst mér sanngjarnt, að þeir, sem þegar hafa farið fram á að njóta þeirrar aðstoðar, sem l. gera ráð fyrir, gangi fyrir þeim, sem ekki hafa enn gefið sig fram. Ég get ekki annað sagt en mér finnst mjög óviðeigandi og ofbeldiskennt, ef það á með einni atkvgr. hér í d. að gera að engu tilraun þeirra manna, sem stofnað hafa með sér félagsskap til þess að njóta þeirra hlunninda, sem l. eiga að veita, og svipta þá þar með þeim rétti, sem þeir hafa öðlazt með því að stofna félagið meðan l. voru í fullu gildi.