19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

7. mál, gengisviðauki

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Það eru nú liðin allmörg ár síðan gengisviðauki var fyrst samþ. sem bráðabirgðaráðstöfun, og hefir síðan verið framlengdur á hverju þingi. Fjhn. er sammála um það, að ekki sé síður þörf á framlengingu hans nú en áður, og mælir því með þessu frv. Einn nm., hv. 1. þm. Reykv., hefir þó skrifað undir nál. með þeim fyrirvara, að hann vill halda gengisviðauka á kaffi- og sykurtolli eins og áður og flytur brtt. um það, en í þessu frv. er gengisviðauki af þessum vörum felldur niður. Ég mun ekki ræða brtt. hans, því að hann mun gera grein fyrir henni sjálfur.

En ég vil taka það fram um þetta frv. og önnur svipuð, að mér er farin að leiðast þessi árlega framlenging á tekjustofnum, sem búið er að gera að föstum tekjustofnum í raun og veru, og finnst vera kominn tími til að koma skatta- og tollalöggjöf vorri í fastara horf. Ég hefði því haft tilhneigingu til að koma með brtt. þess efnis, að þessi viðauki héldist um óákveðinn tíma, en hefi þó ekki gert það. En mér þótti rétt að láta þessa skoðun mína í ljós.