08.10.1934
Neðri deild: 4. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég vil ekki lengja umr. um frv. á þessu stigi málsins, en út af því, sem hæstv. fjmrh. var að andmæla hv. þm. G.-K., er hélt því fram, að með svo gífurlegri hækkun tekju- og eignarskattsins væri gengið á hlut sveitar- og bæjarfélaga, þá vil ég benda á, að mér virðist staðhæfing hæstv. ráðh. koma undarlega fyrir sjónir, og í bága við hans störf sem skattstjóra í Rvík og form. niðurjöfnunarn. Því að í starfi sínu þar hefir hann viðurkennt svo áþreifanlega sem verða má, að þessi skattstofn sveitar- og bæjarfélaga væri orðinn svo píndur, að varla væri gerlegt að leggja meira þar á en niðurjöfnunarn. gerði. Hefir skattstjórinn fyrrv. látið það berast frá sér, að bæjarstj. Rvíkur gerði orðið það miklar kröfur um skattaálögur, að þeim væri naumast unnt að sinna. Þetta hefir verið allmjög básúnað út um land, jafnvel í útvarpinu, og því kemur undarlega fyrir sjónir, að þessi fyrrv. form. niðurjöfnunarn. skuli nú telja skaðlausar enn meiri álögur. Þetta kynni nú auðvitað að hafa verið póltískt gaspur til að vinna fylgi annarsstaðar á landinu, en framkvæmdir niðurjöfnunarn. sýna og sanna, að álögurnar eru orðnar fullerfiðar, þótt ekki sé á bætt. Á síðustu árum hefir m. a. s. orðið að taka til nýrra skattstofna, eins og t. d. að leggja á viðskiptaveltu manna. Nægilegs fjár virðist n. ekki hafa treyst sér að afla með útsvörum á tekjur. Eignarútsvör hafa verið á lögð. Ef þetta er ekki sönnun fyrir því, að skattstofnarnir eru þegar nýttir til fulls, þá veit ég ekki, hverjar sannanir hæstv. fjmrh. tekur gildar. Ég vil beina því til allra þeirra hv. þm., sem eru fulltrúar sveitakjördæma, að sveitarfélögin hafa árum saman klifað á því, að meiri skattstofna þyrfti til að risa undir útgjöldunum, að hér er af stj. hálfu þrengt enn meira að málefnum sveitanna í því að afla nauðsynlegs fjár. Þetta er þeim mun afhugaverðara sem bæjar- og sveitarfél. þurfa margfalt meira fé nú en á venjulegum tímum, vegna örðugleika atvinnuveganna og þeirrar hjálpar, sem sveitarfél. verða að veita almenningi. Ég er sannfærður um, að ef slík hækkun verður lögleidd sem hér er farið fram á á tekju- og eignarskatti, þá standa fullkomin vandræði fyrir dyrum hjá bæjar- og sveitarfélögum, og ég skora á hv. þm. að verða á verði um, að hér sé ekki of nærri gengið.