09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Sigfús Jónsson):

Það skal ekki verða langt mál, sem ég segi.

Hv. frsm. minni hl. sagði í byrjun ræðu sinnar, að ég hefði aðhyllzt þá stefnu að eyða. Ég veit ekki, hvernig hann getur fengið það úr orðum mínum, því að ég tók það greinilega fram, að ég vildi fremur öllu lækka útgjöldin, ef unnt væri. Hann sagði, að sjálfstæðismenn væru einmitt á þeirri skoðun, að það ætti að gera. En ég hef ekki orðið var við neitt frá sjálfstæðismönnum í þá átt, að þeir komi með till. til lækkunar. En meðan það er ekki sýnt, að þeir vilji gera tilraun til þess, getur maður ekki tekið þetta sem alvöru. Aftur á móti hafa þeir viljað skerða mikið tekjur ríkissjóðs, t. d. með frv. um Skuldaskilasjóð, án þess að þeir jafnframt bendi á nokkra leið til öflunar tekna í staðinn. Má vel vera, að þeir hafi það á reiðum höndum, en það er ekki komið fram enn.

Svo er það, að ég býst við, að þeir hljóti að viðurkenna þá nauðsyn, að afla ríkissjóði þeirra tekna, sem þarf til þess að geta staðið straum af sínum útgjöldum, ef ekki tekst að færa útgjöldin nægilega mikið niður.

Þá talaði hv. þm. um það, að þyrfti að afla bæjar- og sveitarfélögum tekjustofna. Ég skal viðurkenna, að það er mikilsvert mál, sem þarf að taka til bráðrar úrlausnar. En ég leit svo á, að þegar við hefðum þetta frv. til meðferðar, þá væri það ekki okkar hlutverk að sjá bæjar- og sveitarfélögum fyrir tekjum í sambandi við það, heldur að sjá ríkissjóði fyrir tekjum. Þess vegna álít ég ekki skylt að ganga inn á þá leið hér, þó að ég telji það mjög merkilegi og nauðsynlegt mál, en þetta tel ég enga úrlausn á því máli, heldur hvert á móti.

Um þessa útreikninga okkar, hve mikil þessi hækkun sé, skal ég ekki deila. Þeir miða við l. frá 1921, en við við ástandið eins og það er nú, og það tel ég réttara, því að það er enginn vafi, þar sem búið er að samþ. þetta þing eftir þing, þá hefði það haldið áfram alveg eins og orðið hefir með verðtollinn, því að þótt þessir skattaukar hafi ekki verið samþ. nema til eins árs, þá verður að gera það áfram um óákveðinn tíma. Þess vegna er réttara að breyta l. heldur en að á hverju þingi verði að samþ. skattaukalög.

Þá var það um þessar ívilnanir. Hv. þm. segir, að þær nái jafnt til smærri sem stærri hlutafélaga. Ég held, að þær nái meira til stærri félaga, því að þegar um töp er að ræða, þá eru þau stærri heldur en hjá smærri félögum. Annars fann hv. þm. þessu frv. flest til foráttu nema um töpin. Hann viðurkenndi, að sú brtt. væri til bóta, svo að í rauninni viðurkenndi hann það, sem hann var búinn að telja lítilsvirði áður.

Svo er eitt enn, sem hann sagði, að með þessu tekju- og eignarskattsfrv. væri lömuð löngun manna til fjársöfnunar. Þetta verður rétt, þegar svo langt er gengið, að ríkissjóður tekur kannske allt eða mest, sem menn fá. En meðan ekki er gengið lengra en að miða við það, sem er í ýmsum öðrum löndum, eins og gert er með þessu frv., þá þarf það ekki að lama áhuga manna til fjársöfnunar. Ég lít svo á, að fjársöfnun sé í sjálfu sér góð, en hún getur orðið óþarflega mikil, ef menn safna fé og safna, en vilja ekkert láta af hendi rakna til þeirra, sem þurfa fjárins með, því að að lokum fer svo, að ekki getur sá, sem safnar fé, notið þess, nema meðan hann er ofan moldar, og þá er ekki vitað, hvort féð fer í betri stað heldur en ef það færi til almenningsþarfa.

Annars tel ég enga ástæðu til að þjarka um þetta mál, en viðvíkjandi þessum brtt. frá minni hl. fjhn. skal ég taka það fram, að ég get ekki fallizt á hana. Eins og ég sagði, þá viðurkenni ég þörfina til að afla bæjar- og sveitarfélögum tekjustofna, en álít, að það geti ekki orðið í sambandi við þetta mál. Því legg ég til, að þessi brtt. verði felld.