09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Það hafa nú verið fluttar hér svo langar og margar ræður um þetta mál, að mér virðist ekki miklu á bætandi, enda efa ég, að það séu margir af þeim, sem á hlýða, sem fylgjast sæmilega með aðalefni þeirra umræðna, sem hér hafa farið fram.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. taldi, að ég hefði farið rangt með, þegar ég bar honum það á brýn, að hann hefði talað hér um, að tvær stefnur lægju fyrir, sú, að leggja aðaláherzluna á að spara, og þar með að létta sköttum af þjóðinni, og hin leiðin væri, að leggja höfuðáherzluna á að láta ekki þá, sem njóta góðs af fyrirmælum fjárl., fara varhluta af þeim fríðindum, sem þeim þar eru ætluð. Ég hygg, að ég hafi farið rétt með, og ekki á nokkurn hátt rangfært orð og ummæli hans, gert honum getsakir eða verið með illkvittni í hans garð, og ekki heldur lagt annað í hans orð en þau gáfu tilefni til.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að hann hefði ekki orðið þess var af sjálfstæðismönnum í fjhn. að þeir hefðu borið fram neinar till. um lækkun á útgjöldum ríkisins. Þess er ekki heldur að vænta. Við, sem erum í fjhn., eigum að taka ákvarðanir um þær hækkanir eða lækkanir á sköttum, sem fyrir n. koma, og við verðum að una því leiðinlega hlutskipti, að það er okkar aðalverkefni að segja já eða nei við nýjum tollum eða sköttum á þjóðina. Og við sjálfstæðismenn í fjhn. höfum sýnt nokkra og eðlilega tregðu við að samþ. nýjar álögur á þjóðina, af því að við teljum, að nú sé úr hófi gengið í þeim efnum, og af tvennu illu sé rétt að freista þess að gera niðurskurð á útgjöldunum. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri hlutverk Alþ. að afla ríkissjóði tekna. Þetta er rétt. Hann sagði samtímis, að það væri ekki hlutverk okkar hér á Alþ. að afla bæjarsjóðum tekna. Þetta er ef til vill rétt líka. En það er a. m. k. okkar hlutverk hér á Alþ., að reyna að haga tekjuöflun til ríkissjóðs á þann veg, að við ekki þar með brjótum niður þá möguleika, sem bæjar- og sveitarfélög ættu að hafa til þess að afla bæjar- og sveitarsjóðum tekna. En ég fel, að með slíkri beitingu beinna skatta sem hér er farið fram á, sé þetta gert.

Til andmæla orðum, sem ég lét falla í sambandi við breyt. á fyrirmælum l., um skattstiga hlutafélaga, sagði frsm. meiri hl., að hann teldi það enga goðgá, þó að smærri hlutafélög nytu fríðinda af fyrirmælum þessa frv., til jafns við þau stærri. Það tel ég ekki heldur, en það er ekki það, sem um er að ræða, heldur hitt, að rökrétt hugsun hefir verið brotin með því að láta smærri hlutafélög hafa hlutfallslega betri aðstöðu gegn ríkissjóði sem skattþegna heldur en hin stærri. Það er þetta, sem deilan stendur um. Að öðru leyti tel ég mig svo ekki hafa sérstakt tilefni til þess að andmæla því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, umfram það, sem ég gerði í minni fyrstu ræðu hér í dag.

Hæstv. fjmrh. fann hjá sér ástæðu til þess að reyna að hnekkja ummælum mínum, sem fram komu í sambandi við þær tvær höfuðstefnur í fjármálum, sem hér er talað um, þá stefnu, að knýja fram sparnað annarsvegar, og hins vegar að hlífa ekki gjaldþegninum, en hlífa þeim, sem njóta hlunninda samkv. útgjaldaliðum fjárl. Í því sambandi sagði fjmrh., að Sjálfstfl. hefði engan veginn séð sér fært að leggja fyrir þingið aðgengilegra fjárlfrv. heldur en hann hefði gert, og einkum af því, að Sjálfstfl. hefði flutt hér frv., sem næmi kr. 900000 tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, ef að l. yrði. Það er að vísu rétt, að ef þær till. ná fram að ganga, sem Sjálfstfl. hefir flutt hér til viðreisnar sjávarútveginum, þá varðar það allverulegri tekjurýrnun fyrir ríkissjóð. En með því er ekki sagt, að Sjálfstfl. hefði ekki, ef hann hefði átt að bera ábyrgð á fjárl., séð sér fært að leggja fram aðgengilegra fjárlfrv. en hæstv. fjmrh. hefir gert. Það er af því, að Sjálfstfl. er sér meðvitandi þeirrar ábyrgðar, sem á hverjum tíma hvílir á stjórnarflokkum, um að hika ekki við að taka á sig eðlilegar óvinsældir af ráðstöfunum, sem gera verður og sá flokkur á að taka á sig, sem á hverjum tíma fer með völdin í landinu. Ég gæti vel bent á ýmsar sparnaðartill. viðvíkjandi fjárl., sem sjálfstæðismenn væru reiðubúnir að taka á sig óvinsældir af, ef þeir bæru ábyrgðina á fjárl. og gætu ráðið. En það er ekki hlutverk þess flokks, sem er í andstöðu við stj. og engu ræður á Alþ., að bera slíkar till. fram, sem eingöngu mundu skapa honum óvinsældir, en svo væri aftur á móti engin von um, að skynsamlegar niðurfærslutill. næðu fram að ganga. Þessi skylda hyllir á hverjum tíma á valdhöfunum og hvílir þess vegna nú á fjmrh., sem í fjármálum á að vera í fararbroddi fyrir þeim þingmeirihluta, sem stendur að baki ríkisstjórninni að þessu sinni.

Hæstv. fjmrh. sagði, að hér væri um tvær leiðir að ræða, sem sé, hvort ætti að leggja tolla á nauðsynjar almennings, eða hinsvegar að halda áfram á þeirri braut, sem haldið hefir verið inn á, eða m. ö. o. óeðlilega misbeitingu beinna skatta. Þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh. Það, sem um er að ræða, er hvort heldur beri að leggja skyldurnar af tollaálagningu og innheimtu á ríkissjóð, sem stendur bezt að vígi, eða á bæjarsjóði og sveitarsjóði. Um það ber raun vitni, að sú beiting beinna skatta, sem þegar fer fram samkv. l., er svo gífurleg og afleiðingarík, að sveitarfélögin neyðast inn á þá braut að beita tollum. Ef nú á að tvöfalda tekju- og eignarskattinn, þá leiðir af því, að sveitarfélög neyðast til þess að ganga lengra inn á þá braut, að beita tollum, eins og þegar hefir verið gert að undanförnu. Spurningin er frá mínu sjónarmiði eingöngu um það, hvor aðilinn sé bærari um að beita tollum, ríkisvaldið eða bæjar- og sveitarfélög. Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að það er eðlilegra, að ríkissjóður taki á sig þessa skyldu og þá annmarka, sem henni fylgja, vegna þess, að hann stendur betur að vígi í þeim efnum heldur en sveitar- og bæjarsjóðir. Og það hlægir mig að heyra hæstv. fjmrh. segja, að sveitar- og bæjarfélög standi ekki verr að vígi um að innheimta útsvör, þó að beinir skattar séu nú tvöfaldaðir. Hann, sem sjálfur hefir verið formaður í niðurjöfnunarn. Rvíkur, þar sem hann telur, að aðstaðan til þess að innheimta útsvör sé betri en annarsstaðar og samt sem áður hefir fyrstur manna lagt inn á þá braut, að leggja svokallað umsetningargjald til grundvallar fyrir útsvarsálagningu skattborgaranna, en umsetningargjaldið er ekkert annað en útflutningstollar og innflutningsgjöld af framleiðslu og neyzluvörum almennings.

Ég skal fúslega játa það, að sú brtt., sem ég og hv. 1. þm. Reykv. flytjum um það, að bæjar- og sveitarfélög fái helminginn af þessu gjaldi, hún er samningsgrundvöllur, sem við erum reiðubúnir til þess að ræða um, og ef samningar nást á þessum grundvelli, þá mun ekki standa á okkur að gera sanngjarna lækkun á hluta bæjar- og sveitarsjóða af þeim tekjum, sem aflað er með þessum stofni. En frá hinu víkjum við ekki, að við álítum alveg óverjandi að ganga svo frá þessari löggjöf, að bæjar- og sveitarsjóðum séu engar tekjur ætlaðar af þessum gjaldstofni. Og mér þykir það hljóma undarlega, þegar hæstv. ráðh. segir, að það komi ekki til mála á meðan ekki séu tilskildar ríkissjóði til handa meiri tekjur af þessum gjaldstofni en geri sé með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að ætla bæjar- og sveitarsjóðum tekjur af honum. Og þó er það upplýst, að hér er krafið ríkissjóði til handa allt að 120% meira en nágrannaþjóðir vorar gera, sem þó hafa við miklu betri efni að búa en ísl. ríkið og ísl. skattborgarar.

Allur útreikningur hæstv. fjmrh. er skakkur og allar tölur hans rangar, alveg af sömu ástæðu og hjá hv. frsm. meiri hl., en ástæðan er auðvitað sú, að þeir miða samanburðinn við bráðabirgðaákvæði, sem gerð hafa verið gegn yfirlýstum vilja meiri hl. Alþ. Það er vitanlegt, að menn gengu nauðugir að þeirri álagningu og eingöngu um stundarsakir.

Ég skal viðurkenna, að sumt af því, sem hæstv. fjmrh. sagði í sambandi við 6. brtt. n. við 11. gr. frv., á við rök að styðjast. Það er vitanlega misrétti, sem skapast þar. Ræðu hans hefir verið vel svarað hvað þetta snertir, af öðrum hv. þm., þ. á m. hv. þm. V.-Ísf., og ég vil því aðeins bæta því við hér, að ef það vakir fyrir hæstv. fjmrh. að ráða bót á þessu misrétti, þá er frá mínu sjónarmiði til ein þráðbein leið til þess, og hún er sú, að láta þessa reikninga vera algerlega aðskilda frá varasjóðum, og án áhrifa af því, hvort varasjóður er til eða ekki, og heimila skattþegninum að færa á sérstakan reikning á hverjum tíma þá upphæð, sem hér um ræðir, það tap, sem hann kann að hafa haft, og þar komi til frádráttar, án tillits til varasjóðs og gróða, sem hann síðar kann að hafa. Ef þessi leið er farin, þá er þessi agnúi, sem hann réttilega benti á í sinni ræðu, algerlega afnuminn.

Hitt er rangt hjá hæstv. ráðh., að á Íslandi sé það viðunanlegt hvað þá heldur ákjósanlegt, að tekjuskattur byggist á því, að menn skili tekjuskatti til ríkissjóðs árlega og eingöngu út frá því, hvernig sú ársafkoma hefir verið. Það hefir verið sýnt fram á það hér á Alþ., að það er nauðsynlegt, ef ísl. skattalöggjöf á að vera sambærileg við skattalöggjöf annara ríkja, að færa megi til milli ára, vegna þess að atvinnuárferði hér er óvenjulega misjafnt og með öðrum hætti en gerist í nágrannalöndunum.

Hv. 1. landsk. fann til þess, að hann þyrfti að gera einhverja afsökun fyrir hönd Alþýðufl. í þessu máli. Mér fannst honum fara það illa úr hendi. Ræða hans bar vott um það, að honum er það ljóst sem skattborgara í Rvík og meðlimi í bæjarráði og bæjarstj. Rvíkur, að hér er of langt gengið á rétt bæjarins af hendi ríkissjóðs og með því skertir tekjuöflunarmöguleikar þessa bæjar og annara bæjar- og sveitarfélaga. Ræða hans var frá mínu sjónarmiði gleðilegur vottur þess, að honum er þetta ljóst, og ég á enga aðra ósk fram að bera hans vegna en að hann taki afleiðingunum af þeirri skoðun, sem lá til grundvallar fyrir ræðu hans.

Að öðru leyti sé ég svo ekki ástæðu til þess að gera aths. við einstakar firrur, sem ég tel, að fram hafi komið í ræðum andstæðinga minna í sambandi við þetta mál. Ég lagði mína skoðun fram, skýrt og greinilega, í frumræðu minni, og hefi gert aths. við veigamestu missagnir andstæðinga minna, en hitt væri svo ótæmandi verkefni ef maður ætti að leiðrétta til þrautar einstök atriði, sem fram hafa komið. Þetta mál er að mörgu leyti flókið, og það er tæplega hægt að búast við því, að hv. þdm. skapi sér afstöðu til málsins með því einu að hlusta á umr., ef þeir ekki hafa lagt þá vinnu fram við athugun málsins í einrúmi, sem nauðsynleg er til þess að öðlast á því fullan skilning. Og þeim mun síður er ástæða til þess að flytja hér langar hrókaræður um málið, þar sem margir hv. þdm. hafa verið og eru fjarverandi. Ég ætla því að láta þessar aths. nægja og treysta því að menn reyni, eftir því sem þeir hafa tíma til, að grandskoða þetta mál í einrúmi, með þeirri athugun, sem menn hafa betri aðstöðu til þess að gefa því, við lestur og samanburð á frv. og gildandi l., annarsstaðar en hér.

Fram kom brtt. á þskj. 386. Afbrigði leyfð og samþ. með 18 shlj. atkv.