09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Emil Jónsson:

Það eru aðeins tvö atriði, sem mig langar til að minnast á í sambandi við þetta frv. Ég get lýst yfir því, að ég er yfirleitt samþ. frv. Í aðalatriðum fer það í þá átt, sem við Alþýðufl.menn viljum fara í skattamálum. Í frv er gert ráð fyrir, að skattur á lágtekjum fari lækkandi, en hækki á hátekjum. Þetta er til bóta. Og ennfremur sú hækkun á persónufrádrætti, sem gert er ráð fyrir, þetta er í beinu samræmi við stefnu Alþ.fl., sem heldur því fram, að þurftarlaun manna eigi að vera skattfrjáls. Minni hl. allshn. heldur því fram í nál. sínu, að með frv. þessu sé verið að leika loddaraleik, það sé verið að gera bæjar- og sveitarfélögum ómögulegt að innheimta tekjur sínar og yfirleitt sé verið að neyða þau til að fara inn á braut óbeinna skatta eða tolla. Það hefir verið vísað til Akureyrar og Vestmannaeyja í þessu sambandi. Ég vil taka fram, að í þessu felst engin stefnubreyt. hjá okkur Alþýðufl.mönnum, því að við erum ekki í meiri hl. í þessum bæjarstj. Það eru aðrir, sem þar ráða. Það er því ekki um neitt ósamræmi að ræða hjá okkur, er gefi tilefni til þess að kalla þetta loddaraleik.

Það hefir verið og er okkar stefna, að þurftarlaun eða þurftartekjur bæri að undanþiggja skatti. En hitt, sem fram yfir er, ætti að skattleggja hærra, það er sú eðlilega tekjuöflunarleið, því þá borga þeir, sem geta. Þau tvö atriði, sem mig langar til að minnast á sérstaklega, eru þurftarlaunin, og hvort bæjarfélögunum sé stefnt í voða með því að líkur séu til, að þau nái ekki inn nauðsynlegum tekjum.

Um fyrra atriðið er það að segja, að ég hefði kosið, að persónufrádrátturinn hefði verið hærri en gert er ráð fyrir í frv. þessu, og að honum hefði verið hagað á nokkuð annan hátt. Frv. þetta virðist vera sniðið eftir frv. því, sem núv. hæstv. atvmrh. flutti á þingi 1930 og var árangur af starfi hans í mþm. í skattamálum. Þetta frv. fer svo nærri hvað snertir skattaálagningu á lágar tekjur, að segja má að fylgist að um skattstigann upp að 14. þús. kr. tekjum. En í frv. hæstv. atvmrh. var gert ráð fyrir hærri persónufrádrætti. Í Reykjavík 1200 kr. fyrir einstakling, í öðrum kaupstöðum 1000 kr. og í sveitum 800 kr., en fyrir hjón í Rvík 2200 kr., í öðrum kaupstöðum 1800 kr. og í sveitum 1500 kr. Þetta kann sumum að finnast nokkuð hátt, ég skal ekki um það segja, en ég get ekki fallizt á, að þurftarlaun séu ekki hærri en það, sem gert er ráð fyrir í frv. Mér finnst það ekki sómasamlegt, að frádráttur fyrir einstaklinga sé í Rvík kr. 800 og kr. 600 annarsstaðar á landinu og fyrir hjón í Rvík kr. 1500 og kr. 1200 annarsstaðar, en frádráttur fyrir börn kr. 500 alstaðar jafnt. Mér þykir fyrst og fremst gerður of lítill munur á Rvík annarsvegar og öðrum kaupstöðum og sveitum hinsvegar. Það er ómótmælanlega rétt, að dýrtíðin er mismunandi í landinu, mest í Rvík. minni í öðrum kaupstöðum og minnst í sveitunum. Mér finnst því allt mæla með því, að persónufrádrættinum sé mismunað eftir þessum þremur stigum. Hv. 2. þm. N.-M. hélt því fram, að það væri að vísu dýrara að lifa í Rvík, en þar fengju menn hærri laun fyrir sína vinnu og nytu meiri þæginda, og vildi hann réttlæta með því, að persónufrádrátturinn væri eins um allt land. Ég vil fullyrða, að sömu þægindi séu keypt mismunandi verði, svo að þetta getur ekki staðizt, því að ef dýrara er að lifa í einum stað, en persónufrádrátturinn er hinn sami, þá er greiddur hærri skattur af raunverulega sömu tekjum, þegar dregið er frá sem nauðþurftartekjur sama upphæð án tillits til mismunandi dýrtíðar. Hv. þm. V.-Húnv. vildi rökstyðja þetta sama með því, að menn nytu hér meiri þæginda en fólkið í sveitinni, og að hærri framfærslukostnaður hér lægi í því, að hér hefði fólkið meiri þægindi. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að sömu þægindi eru keypt mismunandi dýru verði hér og annarsstaðar á landinu, svo að frádráttar mismunur er réttlátur. Ég skal t. d. benda á, að húsaleiga er mjög misjöfn, dýrust í Rvík, ódýrari í öðrum kaupstöðum og þorpum og ódýrust í sveit. Ýmsar aðrar nauðsynjar eru með mismunandi verði, t. d. mjólkin, sem hv. þm. minntist á, það er alveg rétt, að sama verð er í Rvík og Hafnarfirði, en ódýrara annarsstaðar á landinu, og þó ódýrast í sveitum. Og þess eru mörg dæmi, að sami hluturinn er seldur mismunandi verði á þessum þremur stöðum. Mér finnst því öll sanngirni mæla með því, að frádráttur, bæði fyrir hjón og einstaklinga, sé mismunandi á þessum þremur stöðum. Hvort hann er hafður eins og gert var ráð fyrir í frv. Haralds Guðmundssonar 1930 eða farinn verður einhver millivegur milli þess og frv. hæstv. fjmrh. geri ég ekki að kappsmáli. Grundvallaratriðið er, að þurftartekjur séu ekki skattaðar, en það, sem er yfir visst lágmark sé skattað þeim mun meira, því það á að taka skattinn hjá þeim, sem geta borgað, en ekki gera mönnum dýrara en þarf að lifa fábrotnu lífi við einföldustu lifnaðarhætti. En það virðist mér vera gert með frv. hæstv. fjmrh. Það er enginn efi á því, að með 800 kr. tekjur mun fullerfitt að draga fram lífið hér í Rvík.

Ég mun ekki koma fram með brtt. nú, en geri það við 3. umr. Ég tel, að þetta mætti færa til betri vegar, án þess að skerða þennan tekjustofn ríkissjóðs til muna.

Hitt atriðið, sem minnzt hefir verið á hér, að gjaldþol bæjanna væri rýrt með frv. þessu og stæði voði af, hefir verið tekið rækilega til meðferðar af hæstv. fjmrh. og hv. þm. V.-Ísf. Það hefir verið sýnt fram á það, að í rauninni skerðir öll tekjuöflun ríkisins gjaldþol bæjarfélaganna eða rýrir þær tekjur, sem þau geta lagt á, og torveldar innheimtu þeirra. Ég álít, að þessi aðferð, álagning tekjuskatts, sé engu óheppilegri né komi harðara niður en t. d. tollaálagningar. Þessi lög hafa þá afleiðingu, að það eru efnaðri mennirnir, sem greiða mest, og það er réttlátt. Það er annað mál, að bæjarfélögunum verður að hjálpa á einhvern hátt. Kemur þá tvennt til greina. Annað er að sjá fyrir nýjum tekjustofnum, eins og ein brtt. fer fram á, sem komin er fram við þetta frv. um að helmingur tekjuskatts renni til bæjanna. Hitt er að létta af bæjar- og sveitarfélögum þeirri gjaldabyrði, sem á þeim hvílir nú að einhverju. leyti.

Við hv. 6. landsk. þm. höfum flutt frv. um framfærslulög, sem, ef að lögum verða, mun létta undir með bæjar- og sveitarfélögum hvað snertir fátækraframfæri og kemur þeim gjaldalið á fastari grundvöll. Mér finnst að mörgu leyti betur farið, að bæjarfélögin fengju að losna við þau útgjöld til nokkurra muna, heldur en ef þeim væru skaffaðir nýir tekjustofnar af þessu tægi. Það má kannske segja, að komi í sama stað niður, hvort tekjurnar eru hækkaðar eða gjöldin lækkuð. En ég hallast heldur að þeirri tilhögun, að bæjunum sé bjargað úr því öngþveiti, sem þeir eru nú í með fátækraframfærið. eins og reyndar einnig mörg sveitarfélög landsins.

Í trausti þess, að bæjarfélögunum verði hjálpað, m. a. með því, að frv. okkar um framfærslu nái fram að ganga, mun ég greiða atkv. móti brtt. þeirri, sem fram er komin um, að nokkur hluti tekjuskattsins renni beint í bæjarsjóði, þó að það sé æskilegt, ef unnt væri að hækka tekjur bæjarfél. En ég sé ekki fært að skerða þessar tekjur ríkissjóðs, nema séð sé, hvort ríkissjóður getur komizt af án þeirra. - Annars er önnur leið, sem ég get bent á, að mætti fara, til leiðbeiningar hv. flm. brtt., og hún er sú, að samþ. í lögum þessum eitthvað svipað ákvæði og var í síðustu gr. frv. þess, er Haraldur Guðmundsson flutti 1930, þar sem heimilað var að leggja á viðbótarskatt allt að 50%, er rynni í bæjarsjóðina. Þó að þetta frv., er hér liggur fyrir, þræði það frv. að miklu leyti, þá er þó sleppt þessari síðustu gr. og tel ég það verr farið.

Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa till. úr frv. frá 1930, sem þá kom til álita, en gæti eins vel átt við nú. Hún hljóðar svo: „Heimilt er sveitar- og bæjarstjórnum, meðan Alþingi hefir ekki sett lög um almannatryggingar eða á annan hátt létt að verulegum mun af héruðum kostnaði við fátækraframfærslu, að hækka skattgjald það, sem um ræðir í 6, gr., um 50% í umdæmum sínum. Skal innheimta viðbótarskatt þennan samtímis skattgjaldinu til ríkissjóðs og af sömu mönnum, og rennur hann allur til hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóðs. Jafnframt rennur þá og til sömu sjóða 1/3 skattgjaldsins samkv. 13. gr. úr hlutaðeigandi héruðum“. Þetta atriði, að hækka skattinn að nokkrum hluta, sem rynni svo til bæjar- og sveitarsjóða, gæti vel komið til álita. Það gæti verið heppilegt að binda hluta af útsvörunum á þennan hátt, og ég gæti fallizt á, að farið væri inn á þessa braut, ef létta þyrfti á framfærslukostnaði bæjar- og sveitarfélaga að einhverju leyti. Tel ég, að þessi leið sé betri en sú, sem farið er fram á í brtt. 308. Ríkissjóður fengi þá það, sem honum ber, en bæjar- og sveitarsjóðir fengju heimild til að taka sinn hlut á þennan hátt. Hitt, að taka af ríkisjóði þann möguleika, sem hann hefir þarna til að jafna sinn status, er ekki fært nema benda á aðrar fjáraflaleiðir í staðinn handa ríkissjóði. E. t. v. mætti segja, að hér væri gengið nokkuð langt, en útsvörin ættu þá að geta orðið nokkru lægri, og mér virðist þetta atriði vel þess vert, að það væri athugað nánar. Það eru sjálfsagt ýms atriði, sem til greina gæti komið að athuga betur, en ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í það nú.