15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Héðinn Valdimarsson:

Ég hefi borið fram 3 brtt. á þskj. 404. Sú fyrsta er við 10. gr. b. Við 2. umr. var samþ. sú breyt., að tap á atvinnurekstri félaga eða einstaklinga, sem nemur meiru en varasjóði, mætti flytja milli ára og draga frá skattskyldum tekjum, þar til það væri að fullu greitt. En ég vil breyta þessu. Eftir þessari brtt. er gengið út frá því, að varasjóður gangi til taps unz hann er eyddur.

Ég hefi heyrt ýmsa hv. þm. segja, að til þessa sé ætlazt með stofnun varasjóðs og ekki annars. Þetta er ekki rétt. Það er um mörg önnur verkefni að ræða fyrir varasjóði félaga, t. d., að safna því rekstrarfjár með því að lagt sé í varasjóð. Það er heppilegt frá þjóðarinnar sjónarmiði, að félög leggi í varasjóði, til þess að tryggja atvinnureksturinn ár frá ári.

Á þann hátt, sem þessu er nú fyrir komið í frv., er stefnt að því, að hluthafarnir láti úthluta sem mestum arði handa sér til þess að forðast að greiða hálfan skatt af töpunum, sem þeir mundu gera með því að leggja í varasjóð. Þessu vil ég breyta með brtt. á þskj. 404, á þann hátt, að það megi jafna töpunum milli ára, en ekki sé gengið út frá ótakmörkuðu árabili, eins og gert er ráð fyrir í frv., því að það getur valdið ruglingi. Það er réttlátara að haga þessu þannig, að það megi aðeins flytja um 2 áramót, þannig að við 3. árið sé kominn jöfnuður á. En hinsvegar hefi ég ekki sett ákvæði um það, að varasjóðurinn gangi fyrst til þess að mæta töpunum, heldur sé töpunum jafnað milli ára án tillits til varasjóðsins. Ég vil líka setja það skilyrði, að á þessu tímabili sé ekki úthlutað arði til hluthafanna.

Ég vil geta þess í sambandi við þetta mál, að mér þætti rétt að breyta löggjöfinni um hlutafél. frá því, sem nú er, enda þótt frv. um það geti ekki komið fram á þessu þingi, í þá átt, að skylda félögin til þess að takmarka úthlutun arðs, en leggja sem mest í varasjóð. Hlutafélög eiga ekki að vera bundin við líf einstakra manna og eru í mörgum tilfellum betra atvinnuform en rekstur einstaklinga. En löggjöfin þarf að búa svo um þau, að sem mest trygging verði fyrir því, að atvinnureksturinn geti gengið sem jafnast.

Hin brtt. er við 19. gr., við d-lið. Það er aðeins nánari skilgreining á því, hvernig meta skuli verzlunarvörur. Eftir gildandi ákvæði frv. eru þær metnar eftir því, hvað þær kosta komnar í hús eða á sölustað, en það er ekkert getið um, á hvaða tíma. Ég vil bæta því við, að miðað skuli við verðið í árslok. Hjá fyrirtækjum, sem ekki gera upp við áramót, skal miðað við þann tíma, sem þau gera upp á. Skattstofan gerir þetta venjulega, en ég tel rétt, að þetta komi fram í 1., því að meiningin með l. er ekki önnur en að ákveða sem nánast, hvað sé hreinar eignir og tekjur, og taka svo skattinn af því, en ekki öðru, hvorki meira né minna. Brtt. við e-lið er einnig nánari skilgreining á mati verðbréfa. - Undanfarin ár hefir skattstofan í Rvík fylgt svipuðu fyrirkomulagi, a. m. k. að því er snertir hlutabréf, en hefir nokkuð brugðið frá því á þessu ári. Samkv. frv. er fyrst og fremst ætlazt til þess, að hlutabréf séu talin til eigna með gangverði, ef það hefir verið skráð opinberlega.

Mér finnst óþarfi að taka sérstakleka fram um skráninguna, þar sem hún á sér hvergi stað opinberlega.

Á síðastl. ári hafa hlutabréf verið metin af skattstofunni samkv. efnahagsreikningi félagsins, eins og hann var samþ. á síðasta aðalfundi þess. Þetta er rangt, sökum þess að efnahagsreikningur félagsins sýnir sjaldnast, hvers virði eignir félagsins eru. Þar er margs annars að gæta, t. d. hve arðberandi eignirnar eru, framtíðarhorfur o. fl. En söluverðið á bréfunum er rétta matið á þeim, ef sala fer fram milli óskildra manna gegn staðgreiðslu. Þess vegna hefi ég selt í brtt. mína, að þau skuli metin eftir söluverði, er seld eru minnst 2% af hlutafénu á árinu. Einhver takmörk verður að setja fyrir því, hvað mikil sala geti ákveðið verðið í byrjun. En ef engin sala er fyrir hendi, þá verður að áætla söluverðið, og taka tillit til síðustu hlutabréfasölu, arðsúthlutunar og efnahagsreiknings fél. - Ekkert eitt af þessu getur ákveðið verðið í byrjun, en allt til samans getur gert það. Það hefir verið gert af skattstofunni áður.

Þá vil ég geta þess, að ég hefi komið með brtt. um veðdeildarbréf þess opinbera, sem samkv. frv. eru metin eftir nafnverði. Flest verðbréf ganga kaupum og sölum mann frá manni, svo það er auðvelt fyrir skattstofuna að fá að vita um verð þeirra og setja það á þau. Ég tel réttara, að á þann hátt séu metnar verðbréfaeignir, heldur en á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.