15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er auðheyrt á hinni löngu ræðu hv. þm. G.-K., að hann leggur mikið upp úr því, hvernig þessi deila endar. Er það ljóst af öllu, að hv. þm. er ekki ánægður með þann hlut, er hann ber frá viðskiptunum.

Hv. þm. heldur því fram, að ég hafi, með því að taka ekki tillit til 40% viðaukans við samningu fjárl. fyrir 1935, viðurkennt, að það væri ekki núv. ástand að leggja á tekjuskatt með 40% viðauka. Kringum þetta var svo vafið milli af útúrsnúningum, sem erfitt var fyrir hlustendur að átta sig á.

Það er, eins og kunnugt er, ekkert nýmæli, sem hér um ræðir, að ekki sé í fjárl. reiknað með tekjustofni, sem þó er öruggt, að samþ. verði. Ég hefi aldrei haldið því fram, að þetta hafi verið gildandi l., þegar fjárl.frv. var samið, en hitt hefi ég sagt, að flokkur hv. þm. var búinn að ganga svo frá málinu, að öruggt átti að mega telja, að það yrði l.

Í fjárl.frv. er aldrei reiknað með tekjuöflunarfrv., sem lögð eru fram jafnhliða, enda þótt þeim sé tryggður framgangur. Ég reiknaði heldur ekki með tekju- og eignarskattsfrv., þótt öruggt væri, að það gengi fram. Þetta veit hv. þm., að er föst venja. Í þessu eru engin úrslit fólgin á deilu okkar.

Hv. þm. segir, að Sjálfstfl. hafi ekki ætlað að framlengja 40% viðaukann fyrir 1934, enda þótt yfirlýst sé af fyrrv. fjmrh., að gert hefði verið ráð fyrir því sem vísu, að hann yrði framlengdur fyrir það ár. Hv. þm. veit, að flokkur hans beitir sér ekki á móti þessu máli nú, af því að hann skoðar sig ábyrgan fyrir því, að þetta tillag verði innheimt. Þetta vita allir. Að Magnús Jónsson, hv. 1. þm. Reykv., var ekki með málinu, þarf engan að undra. Það er bara algengt fyrirbæri innan Sjálfstfl., að einn maður fær að taka sig út úr, ef óhætt er að öðru leyti, til að lofa honum að taka sig út í augum kjósenda. Þessi afstaða kom sér vel fyrir Magnús Jónsson, enda reið ekki þá á atkv. hans. Yfirlýsingar flokks, sem þannig hagar starfi sínu, og einstakra manna innan hans, eru að engu hafandi.

Það, sem ég hefi sagt, er því rétt. Núv. ástand var það, að innheimta skattinn með 40% álagningu, enda þótt það væri ekki formlega samþ. þá, því að vitað var, að það myndi verða samþ. Hv. þm. vill láta líta svo út sem deila okkar hafi staðið um þetta atriði, en svo er ekki. Hún stóð um það, hvort hækkaður væri skattur á lágtekjumönnum eða ekki. Hann hélt því fram, að skatturinn væri hækkaður á lágum tekjum, og notaði til þess hin og þessi brögð, vildi m. a. ekki viðurkenna núv. ástand í þessum efnum. En nú er lækkaður rostinn í hv. þm. Hann er hættur að halda því fram, að með frv. sé hækkaður skattur á lágtekjumönnum og hlutfallslega meira en á hátekjumönnum. Hann hefir sem sé fengið skömm í hattinn hjá flokksmönnum sínum, hátekjumönnunum, fyrir að vera að tala um, að skatturinn væri ekki hækkaður nægilega á þeim. Síðan hefir hann ekki ymprað á þessu atriði. Annars sá ég ekki, að hann greiddi því atkv., að skattur yrði hækkaður á hátekjumönnnm, enda þótt hann talaði um það af mikilli vandlætingu við fyrri umr., hvílíkt ranglæti frv. gerði lágtekjumönnum.

Hv. þm. hefir fengið snuprur hjá kjósendum sínum, hátekjumönnunum í Sjálfstfl., og verð ég að segja það honum til hróss, að hann hefir haft vit á að fara þar eftir.