15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Emil Jónsson:

Ég ætla að segja nokkur orð út af ummælum, sem komið hafa fram um brtt. þær, sem ég ber fram eða flyt ásamt öðrum.

Hv. þm. Snæf. ber fram brtt. við mína brtt., þess efnis, að persónufrádráttur sé gerður jafn í öllum kaupstöðum og kauptúnum landsins utan Rvíkur, sem hafa yfir 300 íbúa. En þetta væri ekki réttlátt. Það, sem réttlætir, að kaupstöðunum sé mismunað í þessu tilliti, er það, að misdýrt er að lifa í þeim. Hlýtur þetta þá alstaðar að miðast við fólksfjölda þann, sem á þessum stöðum er saman kominn, því að fólksfjöldi skapar öðru fremur dýrtíð. Ég tók með kauptún með yfir 1000 íbúa, til þess að gera þeim ekki órétt, því að það eru til kauptún með yfir 1000 íbúa, eins og til eru kaupstaðir með allt niður í 900 íbúa.

Hv. 2. þm. N.-M. heldur því fram í alvöru, að ekki eigi að gera mun á persónufrádrætti á ýmsum stöðum landsins. Hann bendir á, að samkv. útreikningi Hagstofunnar hafi vísitalan fyrir 3 manna fjölskyldu 1921 verið 446 miðað við 1914, það hafi því verið 41/2 sinnum dýrara að lifa 1921 en 1914. Aftur sé vísitalan nú 234. Þetta vill hann nú nota sem rök fyrir því, að persónufrádrátturinn eigi ekki að hækka, að framfærslukostnaður sé nú minni en 1921. Það er rétt, að nú er ódýrara að lifa en 1921, en staðhæfingin er röng að því leyti, að persónufrádráttur var of lágt reiknaður 1921. Með persónufrádrætti er átt við það, að leggja skuli skatt á þær tekjur, sem eru umfram það, sem maður þarf til að fleyta sér og sínum. Þessi grundvallarhugsun hefir alltaf verið höfð til hliðsjónar. þegar jafna skyldi niður tekju- og eignarskatti. En röksemd hv. þm. stenzt ekki, því að með þeim frádrætti, sem nú er gert ráð fyrir, er ekki enn komið að því marki, sem táknar það, hverja upphæð þarf til að geta framfleytt lífinu nokkurn veginn sómasamlega. Og hv. þm. veit, að það er misjafnt, hvað maður þarf sér til lífsviðurværis í sveitum og kaupstöðum hér á landi. Hv. þm. segir, að taka verði tillit til þess, að lífsþægindi eru meiri í Rvík en úti um land, og er það rétt, að lífsþægindi eru hér meiri, en það er ekki þetta, sem til greina kemur, heldur verð nauðsynjanna. T. d. er húsaleiga ein oft meira en l00% dýrari í Rvík en í sumum kauptúnum og sveitum, miðað við samskonar húsakynni.

Hv. þm. Snæf. sagði, að ekki væri auðvelt að setja glögg mörk í þessum efnum. Það er rétt, en einhversstaðar verður þó að setja mörkin. Ég gæti gengið inn á það, að fella niður kauptúnin úr till. minni, ef það gæti orðið til samkomulags.

Þá minntist hæstv. fjmrh. á, að hann gæti fallizt á að taka til greina till. um, að stéttarfélögin yrðu tekin með, enda er það sanngirnismál. En ekki get ég viðurkennt staðhæfingu hans, að óþarft væri að hafa frádráttinn hærri en 2%. Mér er kunnugt, að í sumum stéttarfélögum í Rvík eru félagsgjöld allt að 100 kr. (Rödd: Það eru pólitísk félög). Nei, það er t. d. félag járniðnaðarmanna, sem allra flokka menn eru í. Þetta tillag greiða þeir aðallega til sinna tryggingasjóða. Þurfa þeir að hafa 5 þús. kr. laun til þess að fá þennan eina frádrátt frían, miðað við 2%. Þá eru ótalin tillög til sjúkrasjóða og annara styrktarsjóða, sem þeir kunna að greiða. Og samskonar tillög til stéttarfélaga erlendis eru frádráttarhæf, hversu há sem eru, og þó eru slík tillög hærri í þeim löndum, sem hafa fullkomnari fagsambönd heldur en hér á sér stað. En ef við eigum að setja hámark, sem aðrar þjóðir gera ekki, sé ég ekki, að það megi vera lægra en 4%.

Þá vil ég minnast á brtt. á þskj. 426 og ummæli hv. þm. G.-K. Hann hvað hana gerólíka till. fjhn. Ekki veit ég í hverju sá mismunur liggur. Báðar gera ráð fyrir, að nokkur hluti af sama tekjustofni renni til bæjar- og sveitarfél., og það jafnhár hluti. Þar gerir önnur till. ráð fyrir 50% viðauka, en hin, að þessi hluti sé tekin samkv. frv. eins og það var. Mig minnir, að ég tæki fram við 2. umr., að ég gæti ekki fylgt þeirri brtt., af því að ekki er séð fyrir, hvernig ríkissj. ætti að fá tilsvarandi tekjur á annan hátt, en ekki af því, að ég væri á móti þessu í sjálfu sér. Mér virðist enginn eðlismunur annar en sá, að við gerum ráð fyrir, að þetta sé viðbót við þann tekjuskatt, sem var.

Þá sagði hv. þm., að verið væri að hlífa hátekjunum. Ekki fellst ég á það. Hér er bent á þá braut að taka nokkuð af útsvörum, gjöld, sem bæjarfél. þurfa að fá í Rvík og annarsstaðar, á þennan vissa, lögákveðna hátt. Þar með er líka útilokað, að bæirnir geti tekið þennan hluta tekna sinna sem t. d. rekstrarútsvar en aðeins af tekjum og eignum. Það er alkunnugt, að lögð eru á í Hafnarfirði og eins í Rvík, að ég ætla, útsvör á þær stofnanir, sem ekki hafa gefið tilefni til þess með tekjum og eignum einum, heldur rekstrarútsvör, eins og það er almennt kallað. Þetta er fellt niður að þessum hluta með þessu móti, og ætla ég það vera í samræmi við það, sem hv. þm. G.-K. hefir um þau mál sagt.

Frv. núv. hæstv. atvmrh. 1930 var árangur af starfi milliþn. og ætti því að vera betur hugsað en frv. einstakra þm., sem hafa takmarkaðan tíma. En hv. þm. kvað það ekki sambærilegt við það frv., sem hér liggur fyrir, vegna þess að skattstiginn væri ekki eins. Ég held aftur á móti fram, að þeir séu líkir. Hefi ég athugað þetta betur síðan þessi ummæli féllu, með þeirri niðurstöðu, að allt upp í 12 þús. kr. tekjur munar á skattinum eftir frumvörpunum frá 10 til 20 kr. eftir því, hvar í stiganum er, 20 kr. á 12 þús. kr. Á hærri en 12 þús. kr. tekjum er mismunurinn meiri, en sannast að segja bar ég ekki eins mikla umhyggju fyrir að reikna út hærri tekjurnar. En mismunurinn er til lækkunar, en ekki hækkunar á lægri tekjunum. Persónufrádrátturinn var að vísu nokkru hærri samkv., frv. 1930. Það gerir nokkurn mun, en ekki verulegan. Þess vegna er útkoman sú, að frumvörpin eru vel sambærileg um skattstigann, a. m. k. allt upp í 12 þús. kr.

Ég ætla, að það væri hv. 3. þm. Reykv., sem sagði, að Alþýðufl. væri horfinn frá þeirri götu, sem hann þóttist vera á, að taka beina skatta, og lagður inn á leið hinna óbeinu skatta. Þetta er ekki rétt, og er þetta frv. fram komið til þess að undirstrika þá stefnu, sem Alþýðufl. hefir. Enda býst ég við, að flestir í Alþýðufl. séu þeirrar skoðunar, að hinir ýmsu kaupstaðir hafi ekki lagt út á heppilega leið með álagningu vörugjalds á nauðsynjavörur.

Að lokum vil ég vænta þess, að þeir þm., sem telja það ekki réttmætt að hafa persónufrádráttinn mismunandi á ýmsum stöðum á landinu, hugsi sig vel um, áður en þeir greiða atkv. móti því. Hér er áreiðanlega um réttmætt atriði að ræða, og það er ekki af neinni tilhneigingu til að lækka skattstigann, eins og virtist skína í hjá hv. þm. G.-K., heldur þvert á móti aðeins til að færa frádráttinn í réttlátara horf.