15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

35. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Mál þetta var rætt talsvert við 1. umr., og ég sé ekki ástæðu til að bæta miklu við það, sem þá kom fram í málinu. Eins og kunnugt er, eru aðalatriðin í lögum þessum breyt. á greiðslum til Kreppulánasjóðs, frá því, sem upphaflega var ákveðið, sem sé þannig, að úr því að vera jafnar afborganir allan lánstímann, breytist það í jafnar ársgreiðslur. Þetta hefir það í för með sér, að afborganir lána verða minni framan af greiðslutímanum og meiri þegar á líður, en afleiðingin af því er aftur sú, að ekki er hægt að greiða bréfin eins ört og ætlazt var til í l. Kemur greiðslan þá vitanlega að langmestu leyti á seinni hluta lánstímabilsins. N. er öll sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt, og lítur þannig á, f. h. lántakenda, að breytt hafi verið til bóta, þannig að lánskjörin séu hagkvæmari en ella hefði orðið. Hinsvegar hafa þrír nm. skrifað undir nál. með fyrirvara, og munu þeir lýsa honum sjálfir, en ég hygg, að sá fyrirvari sé aðallega fólginn í því, að þeir hafi ekki talið nauðsyn á að setja um þetta bráðabirgðal. Um það þýðir ekki að deila úr því, sem komið er, og þar sem líka allir eru sammála um, að þessi lög skuli samþ., þá er það aðalatriðið. Á það ber að líta, að mikil þörf, ef ekki fullkomin nauðsyn, var fyrir hendi, til þess að þetta yrði gert eins fljótt og auðið var. Fjöldi manna var þá þegar búinn að ná samningum um skuldaskil við Kreppulánasjóð og beið eftir að geta tekið lánið, og þar sem kröfur komu fram um þetta og það lá í loftinu, að breyt. yrði gerð, þá virðist mér, að það hafi verið alveg rétt að breyta þessu sem fyrst. Það gat valdið mjög miklum óþægindum fyrir menn, að þurfa að bíða með lántöku þangað til seinni hluta vetrar, þegar þetta var orðið að lögum fyrir afskipti Alþ. Fyrir mitt leyti álít ég vel farið, að þessi bráðabirgðal. voru sett, og n. leggur öll til, að þessi l. verði samþ., eins og þau nú liggja fyrir.