15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

35. mál, Kreppulánasjóður

Jón Pálmason:

Hæstv. forsrh. sagði í fyrri ræðu sinni, að við hv. 2. þm. Reykv. hefðum farið með firrur einar, og mundum hugsa meira um að fá að tala á Alþ. en að fara með rétt mál. Þótt það sé sjálfur hæstv. forsrh., sem segir þetta, þá verð ég að nefna þessi ummæli hreinustu ósvífni. Og ekki sízt þar sem ég fór einmitt með rétt mál. Hér er um að ræða, að stj. hefir algerlega að óþörfu gripið til þess að gefa út bráðabirgðal. Og þó að það sé rétt, að l. þessi miði að umbótum á þeim lánakjörum, sem þau fjalla um, þá er ekki þar með sagt, að nokkur nauðsyn hafi verið á að koma þeim á hálfum öðrum mánuði áður en þing kom saman, ekki sízt þar sem Kreppulánasjóður mun mjög fá lán hafa afgreitt á þessu tímabili. Nú eins og áður kom greinilega í ljós sá hugsunarháttur hæstv. forsrh., að hann einn vissi allt, við hinir ekkert. Ef honum er mótmælt, fer hann strax að tala um heimsku og firrur og þar fram eftir götunum. Það eru rökin.