09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég get verið fremur fáorður um þessi bráðabirgðalög. Saga þessa máls; er að mörgu leyti hin sama og kjötsölumálsins.

Ég hygg, að ein af fyrstu tilraununum til að koma skipulagi á mjólkursölu hér í Reykjavík hafi verið gerð með lögum nr. 47 frá 1917. Þar er bæjarstj. heimilað að koma skipulagi á mjólkursöluna og ráða búðafjöldanum í bænum. Þessi lög, sem bersýnilega voru sett til þess að draga úr milliliðakostnaðinum í bænum, náðu ekki tilgangi sínum, vegna þess að bæjarstj. Rvíkur reyndist alltaf ófáanleg til að notfæra sér þessi lög. Afleiðingin af því varð sú, að útsölustöðum hefir stöðugt fjölgað. Og þrátt fyrir það, þótt svo sé ákveðið í reglugerð samkv. l. frá 1917, að mjólkurbúðir hér í Rvík skuli ekki vera fleiri en 12, þá eru þær samkv. leyfum frá bæjarstj. Rvíkur orðnar um 80 talsins.

Það er talið af þeim, sem kunnugir eru þessu máli, að af þessari óreiðu á sölunni muni fara í óbeinan kostnað um ½ millj. kr. Þetta er álit forstjóra Mjólkurfél. Rvíkur, sem er málinu manna kunnugastur. En jafnframt þessum erfiðleikum á vegi framleiðendanna hafa komið aðrir nýir. Þótt framleiðslan hafi aukizt, hafa ekki jafnhliða verið opnaðir möguleikar til að selja með sæmilega verði þær vörur, sem unnar eru úr mjólkinni. Erlendur markaður er ekki til fyrir þessar afurðir, og það hefir ekki þótt fært að hækka verðlag á þessum unnu afurðum svo mjög, að það kæmizt til samræmis við neyzlumjólk, sem seld er daglega í bænum.

Þetta er nú m. a. orsökin til þess, að búðum hefir fjölgað svo mjög sem raun er á, — kapphlaupið að koma neyslumjólkinni út, vegna þess að mjólkurafurðir seljast ekki með eins háu verði og mjólkin sjálf.

Þetta mál var tekið upp á þinginu 1933, og voru þá samþ. lög nr. 97. Þau voru með allt öðru sniði en frv., sem fram kom um þetta efni. Er sérstaklega vert að benda á það, og mun ég ef til vill fara frekar út í það undir þessum umr., hvaða leið ætlazt var til að fara með því frv., sem var tilefni þess, að þessi l. voru samþ. En jafnframt var málið tekið upp af fundi kaupfélagsstjóra, sem haldinn var í marzmánuði 1933, og þá bent á þá leið í þessu máli, sem aðallega hefir verið stuðzt við síðan.

Samkv. þáltill. á aukaþinginu 1933 var skipuð nefnd í afurðasölumálið; tók sú nefnd málið til meðferðar og lauk meðferð þess í byrjun sept. s. l. Samkv. því nál. í aðaldráttunum eru þessi l. sett. Höfuðatriði þeirra er það, að samkv. 1. gr. er landinu skipt í verðlagssvæði.

Samkv. 2. gr. frv. á öll sala á mjólk í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem viðurkennd mjólkurbú geta annazt söluna, að vera háð verðjöfnunargjaldi. Með því er tilætlunin sú að standast þann verðmismun, sem er á þeirri, sem seld er til vinnslu, og neyzlumjólk. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir, að kapphlaupið um mjólkurmarkaðinn verði of mikið. — að framboðið verði meira en eftirspurnin og verðlagið þar af leiðandi lækki.

Reyndar má segja, að þessi staðhæfing komi að nokkru leyti í bága við reynsluna á undanförnum árum, vegna þess að verðlag á mjólk til neytenda er svo hátt. En þetta hefir komið fram í því, að búðafjöldi hefir farið fram úr öllu hófi og milliliðakostnaður orðið svo mikill, að frumleiðendur hafa sætt lágu verði, þrátt fyrir hið háa verð til neytenda. Samkv. 3. gr. á að leggja verðjöfnunargjaldið í sérstakan sjóð, sem á að nota til þess að bæta upp verðlag á þeirri mjólk, sem notuð er til vinnslu. Útsöluverð á mjólk á að ákveðast af 5 manna nefnd á hverju verðjöfnunarsvæði, sem skipaðir eru samkv. ákvæðum 4. gr. Það, sem e. t. v. þykir einna mest nýmælið í þessum lögum og kann að verða deilt einna mest um, er það ákvæði í 5. gr., að alla mjólk á að selja gegnum eina sölumiðstöð. Og í öðru lagi, að öll mjólk á að gerilsneyðast nema sú, sem sérstaklega er undanþegin samkv. ákvæðinu um sjúkramjólk og barnamjólk. Að ágreiningur kunni helzt að verða um þetta atriði, marka ég á því, að leiðir þær, sem farnar eru í ýmsum löndum, þar sem svipað skipulag hefir átt sér stað, eru einmitt nokkuð mismunandi í þessu efni. Og í frv. 1933 var einmitt gert ráð fyrir nokkuð annari leið. Eins og hv. þm. hafa veitt athygli, er í þessu frv. ákveðið, að mjólkurframleiðendur í lögsagnarumdæmi Rvíkur eigi að veru undanþegnir verðjöfnunarskatti, ef þeir hafa einn hektara fyrir hverja kú. En hinsvegar er þeim gert að skyldu að selja mjólkina gegnum sölumiðstöð.

Í frv., sem borið var fram 1933 og ekki náði samþ. nema að nokkru leyti, var gert ráð fyrir, að lagt yrði 5% gjald á alla mjólk, sem framleidd er til sölu og neyzlu, en Rvík var ekki sérstaklega undanþegin. En hinsvegar áttu þá framleiðendur í lögsagnarumdæmi Rvíkur að vera undanþegnir því að gerilsneyða mjólkina og selja gegnum sölumiðstöð. Samkv. þeim viðtölum, sem ég hefi átt við mjólkurframleiðendur í lögsagnarumdæmi Rvíkur, virðist mér, að þeir muni heldur kjósa að vera lausir við skattinn og selja gegnum sölumiðstöð; og ég hygg, að framleiðendur utan Rvíkur kjósi heldur þessa leið.

Um þessar tvær leiðir má óneitanlega talsvert deila. Kosturinn við þá aðferð að leyfa mjólkurframleiðendum hér í lögsagnarumdæmi Rvíkur að selja beint, er fyrst og fremst sá, að þeir losna við milliliðakostnað. Þó ber á það að líta, að eftir því, sem þeir sjálfir skýra frá, verður þeim dreifingin alldýr, þó að þeir selji mjólkina beint. Margir þurfa beinlínis að halda menn til að flytja mjólkina. Í öðru lagi kvarta þeir undan því, að kostnaður við að halda framleiðslunni jafnri árið um kring sé mjög tilfinnanlegur. Ennfremur má geta þess, að þarna koma til greina heilbrigðisráðstafanir, sem ekki eru lítils virði, með því að selja mjólkina gerilsneydda. Með einni sölumiðstöð er hægt að fylgjast nákvæmlega með neyzluþörfinni á hverjum tíma, og þá hægt að leyfa þeim framleiðendum í nágrenni bæjarins, sem hafa selt beint og kosta miklu til jöfnunar á framleiðslu sinni, að hafa ójafna framleiðslu og jafna hana með aðfluttri mjólk á hverjum tíma. Með því má koma í veg fyrir, að mikið af mjólk fari í afgang, spillist og skemmist, og að mjólk úr lögsagnarumdæmi Rvíkur og nágrenni verði notuð til vinnslu. En þá mjólk á að nota eingöngu sem neyzlumjólk, en vinna úr þeirri mjólk, sem fjær er, en kosta ekki til flutnings á henni til bæjarins. — Ég minnist á þessi atriði nú, þótt það eigi tæpast við nú við 1. umr. Ég geri það vegna þess, að ég álít, að þau geti valdið nokkrum ágreiningi, en ég tel þau nauðsynleg skipulagningu mjólkursölunnar. En annars ætti frv. að geta komizt til 2. umr. án mjög mikilla umræðna.

Hv. 1. þm. Reykv. minntist á það í gær, að vítavert væri, hve mörg bráðabirgðalög stj. hefði sett síðan hún kom til valda. Þessu var svarað þá þegar að því er kjötsöluna snerti. Í sambandi við aðfinnslur um mjólkursölulögin var þess getið, að sum ákvæði þeirra kæmu ekki til framkvæmda fyrr en um áramót. Ég þyrfti í raun og veru ekki að koma með annað svar en það, að þessi lög um kjötsöluna og mjólkursöluna eru bráðabirgðalög meir að forminu til en nokkur önnur bráðabirgðalög, sem hafa verið sett. Og út af þeim ummælum, að þingmönnum sé misboðið með því að setja þessi bráðabirgðalög, vil ég benda hv. minni hl. á, að einmitt um þessi tvenn lög var samið sérstaklega, þegar þm. komu saman til fundar í sumar. Frá l. var gengið þá í öllum höfuðatriðum, og þess vegna liggur fyrirfram vilji þingmanna fyrir þessum lögum. Það er beinlínis samningsatriði milli þeirra flokka, sem með völdin fara, að setja þessi lög, og eru þau þar með sett samkv. fyrirlagi meiri hl. Alþingis. Og það má hiklaust segja um þessi bráðabirgðalög um mjólkursöluna, að það varð ekki komizt hjá að setja þau. Stj. átti í raun og veru um þrjár leiðir að velja. Fyrsta leiðin var sú, að ganga algerlega framhjá þeim l., sem nú gilda um mjólkursölu, og virða þau að vettugi. Ekki býst ég við, að þingið hefði viljað fallazt á þá leið. Önnur var sú, að framkvæma lögin, sem gilda um mjólkursölu, og setja á stofn fyrirkomulag samkv. þeim þennan stutta tíma, sem mátti búast við, að þau yrðu látin gilda. Því að vitanlega eru þau lög í höfuðatriðum óframkvæmanleg. Af framkvæmd þeirra hefði þegar leitt það, að vaxið hefði upp í nágrenni Rvíkur heil borg af fjósum. Það var farið að bera á því, að bændur, sem höfðu búslóð sína austur í sveitum, keyptu hér lóðir, til þess að geta selt mjólk hér beint úr fjósinu, en ætluðu að flytja heyið að austan. Ýmsir álíta, að þesskonar mjólkursala sé til sérstakrar fyrirmyndar. En ég vil benda á, að þegar rannsökuð var mjólk, sem seld var eða framleidd hér í Rvík, þá reyndist það einmitt þannig, að þessar „mjólkurverksmiðjur“, ef svo má segja, framleiddu langversta mjólk. Þetta er af því, að þegar flytja á að allt fóður í þessi geysistóru fjós, leiðir það til þess, að fóðurbætir er notaður miklu meir en góðu hófi gegnir. Hvað eftir annað s. l. vetur komst fitumagn þessara „mjólkurverksmiðja“ niður í 2,5%, þó að lágmarkið eigi að vera 3,3%.

Það kom því ekki til mála, að áliti ríkisstj., að framkvæma þessi lög, til þess að koma á stað fyrirkomulagi, sem þurfti að rífa niður aftur. Einasta leiðin var sú, sem meiri hl. Alþ. grundvallaði í sumar, að fella þessi lög úr gildi og byrja á þeim lögum, sem meiri hl. var samþykkur.

En hitt atriðið, að einstök ákvæði laganna komi ekki til framkvæmda, — en um það hefir talsvert verið rætt, m. a. af hv. 1. þm. Reykv. í gær og einnig í blöðunum — það stafar af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki hægt að framkvæma svona lög fyrirvaralaust. M. a. má benda á það, að því skipulagi mjólkursölunnar að gerilsneyða alla mjólk, er ómögulegt að koma í framkvæmd á skemmri tíma en þrem til fjórum mánuðum, að áliti þeirra manna, sem við þessi mál fást. Í þessu sambandi má benda á, að framleiðendur mjólkur í nágrenni Rvíkur, eru ekki í neinu mjólkurfélagi, þar sem þeir geti fengið mjólkina gerilsneydda. Það liggur því fyrir, að þeir komi málum sínum þannig fyrir, í félagi við mjólkurbúin, sem fyrir eru, að þeir geti gerilsneytt mjólk sína.

Í öðru lagi er það atriði, að selja mjólkina frá einni sölumiðstöð. Það er sömuleiðis ómögulegt nema með talsverðum undirbúningi. Ef ríkisstj. hefði hinsvegar ekki sett þessi bráðabirgðalög, þá hefðu lögin um meðferð og sölu mjólkur og rjóma ekki komið í gildi fyrr en um áramót, og þar af leiðandi ekki verið hægt að framkvæma þau fyrr en komið var fram undir vor, en að vetrinum er einmitt mest þörf fyrir skipulagningu á mjólkursölu. Með því að setja þessi bráðabirgðalög er þessu máli flýtt sem frekast er unnt, og að mínu áliti er þess fyllilega þörf. Nágrannaþjóðir okkar hafa gripið til þessara ráða fyrir löngu, og m. a. Englendingar, sem manna sízt hafa gripið til þeirra ráða að lögþvinga skipulag á verzlun sína, komu á hjá sér í október 1933 skipulagi, sem ekki er ósvipað því, sem gert er ráð fyrir í þessum lögum.