13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Briem):

Af því að frsm. meiri hl. var ekki viðstaddur nema á hlaupum, þegar frv. var lesið sameiginlega í n., og af því að það kemur í ljós í nál. meiri hl., að hann hefir ekki kynnt sér frv. síðan, þá þykir mér hlýða að víkja að efni sjálfs frv. meira en venja er til við umr. þessa. — Þetta frv. er, eins og öllum er vitanlegt, borið fram í þeim tilgangi, að draga úr sölu- og dreifingarkostnaði mjólkur, sérstaklega hér í Rvík, og bæta með því markaðinn fyrir þessa vöru. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. tók fram, er mjög ólík aðstaða þeirra, sem selja mjólk hingað til Rvíkur. Það verður því hér að fara sömu leið og með sláturfjárafurðirnar, að þeir, sem bezta aðstöðu hafa, vinni nokkuð til þess, að útilokuð verði óheilbrigð samkeppni um þennan markað frá þeim aðilum, sem hafa aðra aðstöðu en þeir, sem búa næst markaðinum. Þeir verða því að leggja á sig nokkur gjöld, sem verður varið til þess að jafna aðstöðuna og til bættra hollustuhátta.

Þetta mál er ekki nýtt. Það kom fram á síðasta fjárlagaþingi frv., sem fól í sér rækilega lausn málsins, en afdrif þess í þessari hv. d. eru kunn. Lögin urðu ófullkomin og ónothæf, svo ég noti orð hæstv. forsrh. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, eru allmiklar breyt. frá því, sem var í frv. á síðasta fjárlagaþingi, 1933. Er komið nokkuð inn á það í nál. minni hl., og sé ég ekki ástæðu til að fara langt út í það mál. Í frv. 1933 var ætlazt til, að komið yrði skipulagi á söluna með samþykktum innan hvers sölusvæðis, en í þessu frv. er ætlazt til, að skipulaginu verði komið á með beinu lagaboði. Þá eru í þessu frv. önnur ákvæði um það, hvernig verðjöfnunarsvæði verði sett. Ennfremur er í þessu frv. gert ráð fyrir almennum ívilnunum fyrir mjólkurframleiðendur í kaupstöðum frá verðjöfnunargjaldi, sem ekki var í frv. frá 1933. Nokkrar fleiri breyt. eru enn í þessu frv., sem taldar eru í nál. minni hl., og ég sé ekki ástæðu til að minnast á sérstaklega. Þetta frv. er aðallega undirbúið af n., sem skipuð var á síðastl. vetri af þáv. atvmrh., eftir þál. frá hv. Ed. En núv. landbrh. hefir þó nokkuð látið breyta frv., sérstaklega að því er snertir form þess og ákvæði um verðlagningu mjólkurinnar. Ég verð að segja það, að ég tel ekki, að allar þær breyt. séu til bóta. Mér virðist, að teknikin sé að sumu leyti skýrari og ljósari í frv. afurðasölunefndarinnar en í þessu frv. Aftur telur minni hl. þetta frv. töluverð, fyllra en það frv., sem lá fyrir síðasta aðalþingi, og breytingarnar yfirleitt til bóta. Og minni hl. er algerlega sammála meiri hl. um það, að frv. í þessa átt sé mjólkurframleiðendum til hagsbóta, ef rétt er að farið og framkvæmd laganna skynsamlega hagað, enda er fullkomin þörf á því nú, þar sem þessi framleiðsla er svo langt frá því að bera sig. Minni hl. leggur því ríka áherzlu á, að framleiðendur njóti alls þess hagnaðar, sem næst með lækkun á sölu- og dreifingarkostnaði mjólkurinnar, a. m. k. þangað til framleiðslan er farin að bera sig. Miðar önnur brtt. minni hl. í þessa átt. Það er augljóst, að aðstaða þeirra aðilja, sem selja mjólk, hingað til Rvíkur, er svo misjöfn, að ekki verður hjá því komizt, að hagsmunir þeirra rekist á. Verður að vænta þess, að þeir, sem hafa framkvæmd laganna með höndum, gæti þess, að hagsmunir þeirra, sem fjær búa, verði ekki fyrir borð bornir, og að ekki verði alið á sundrungu í sambandi við þetta mál, heldur sýnd sanngirni á allar hliðar. Og vil ég vænta þess að svo stöddu, að svo verði.

Skal ég þá víkja að nokkrum einstökum atriðum frv. Ég skal benda á það strax, að mér virðast ekki ákvæði ýmsra gr. frv. vera eins ljós eins og æskilegt hefði verið. T. d. er 1. gr. ekki svo ljós, að ekki geti orkað tvímælis um skilning hennar. Ég skal því taka það fram, að í 2. málsgr. 1. gr., þar sem ræðir um, að sú aðstaða skuli marka verðjöfnunarsvæði, að hægt sé þar að selja daglega óskemmda og góða mjólk frá þeim mjólkurbúum, sem til þess eru viðurkennd, skil ég orðið „markar“ þannig, að það þýði sama og „einkennir“, en ekki „afmarkar“.

Samkv. þessari grein er ætlazt til, að mjólkursölunefndin gæti þess vandlega, þegar verðjöfunarsvæði eru ákveðin, að þau mjólkurbú, sem notið hafa markaðar í viðkomandi kaupstað eða kauptúni, haldi þeirri aðstöðu áfram. Verður að vænta þess, að þessa verði mjög vendilega gætt í framkvæmdinni, því það getur verið lífsspursmál viðkomandi sveitum, að slíkur réttur sé ekki af þeim tekinn.

Í 2. gr. frv., sem ræðir um verðjöfnunargjaldið. er sú breyt. frá frv. 1933, að samkv. henni er leyfilegt að hækka verðjöfnunargjaldið upp úr 5%, sem var hámarkið í frv. 1933. Jafnframt eru þeir undanþegnir verðjöfnunargjaldi, sem framleiða mjólk af ræktuðu landi innan viðkomandi kaupstaðar eða kauptúns, og er þar um að ræða allmikla ívilnun til kaupstaðanna.

Ákvæði 3. gr., sem er um verðjöfnunarsjóð, eru ekki að öllu leyti svo ljós sem æskilegt hefði verið. Má t. d. benda á málsgr. eins og þessa: „Verðjöfnunargjaldið skal greitt eftir á í byrjun, hvers mánaðar, og má innheimta það með lögtaki hjá seljendum mjólkurinnar“. Það kemur hér ekki ljóst fram, hvort hér er átt við þá, sem eru seljendur mjólkurinnar frá fyrstu hendi, eða þá, sem annast útsölu hennar. En það verður að líta svo á, að átt sé við hina síðartöldu, því að annars yrði framkvæmd þessara ákvæða næsta örðug.

Í þessari gr. er nokkur breyt. frá till. afurðasölunefndar. Hún hafði lagt til, að mjólkursölunefnd skyldi ákveða verðuppbæturnar í hverju einstöku tilfelli, en hér er lagt til, að stjórnir mjólkurbúana, hafi það verk með höndum.

Í 1. gr., þar sem ræðir um verðlagsnefnd og ákvarðanir um útsöluverð mjólkurafurða, er orðalagið heldur ekki eins ljóst og æskilegt hefði verið. Þar stendur í 2. málsgr.: „Útsöluverð skal á hverjum tíma reiknað út, eftir því sem við verður komið, eftir vísitölum. Nánari ákvæði um þetta skulu sett með reglugerð. Þetta er allt of óljóst. Það er ekki einu sinni tiltekið, hverskonar vísitölum skuli farið eftir, og það er töluverð vöntun í frumvarpi eins og þessu. Minni hl. hefir því flutt brtt., sem kveður nánar á um þetta og gerir gr. ljósari. Jafnframt miðar sú brtt. að því að tryggja það, að framleiðendur mjólkurinnar njóti þess hagnaðar, sem verða kann á þessari skipulagningu mjólkursölunnar, a. m. k. þar til framleiðslan er komin á það stig, að hún getur borið sig.

Í 5. gr. ræðir um, hverjir skuli annast mjólkursöluna. Þar eru þörf ákvæði um mjólkurmiðstöð, og er öllum öðrum bannað að selja mjólk í þeim kaupstöðum, sem slík sölumiðstöð er í. Þar eru og sérstök ákvæði um barnamjólk, og verður að telja þá breyt. frá frv. 1933 til bóta, þar sem hér er beinlínis tekið fram, hverjir eigi að setja reglur um meðhöndlun barnamjólkur og hvers þurfi að gæta til þess að mjólk geti talizt barnamjólk. Er eðlilegt, að ákvörðunarrétturinn í þeim efnum sé hjá yfirstjórn heilbrigðismálanna, eins og hér er ráð fyrir gert.

Í 6. gr. frv., þar sem ræðir um mjólkursölunefnd, sakna ég þess fyrir mitt leyti, að einu af mjólkurbúunum, Mjólkurbúi Borgfirðinga, er ekki ætlað að hafa þar neinn fulltrúa. Tel ég það ekki fulla sanngirni og áskil mér rétt til þess að koma með brtt. við það atriði fyrir 3. umr.

Ein af þeim greinum frv., sem verður að telja sérstaklega óljóst orðaða, er 11. gr. við hana flytur minni hl. brtt., sem á að gera þá hugsun ljósari, sem bak við gr. liggur.

Aðrar gr. frv. tel ég ekki ástæðu til að fara sérstaklega orðum um, en vil áður en ég lýk máli mínu víkja lítilsháttar að því plaggi, sem prentað er á þskj. 361 og nefnt er nál. Þar er ekki um nál. að ræða í venjulegum skilningi, heldur er þar ýmiskonar raus og rangfærslur um gang málsins og forsögu þess, hnútur til einstakra manna fyrir afskipti þeirra af þessu máli og ýmsum öðrum óskyldum málum og fleira, sem varla tekur að víkja mörgum orðum að. Þó eru nokkur atriði, sem ég kemst ekki hjá að minnast lítillega á. Vil ég í því sambandi fyrst láta í ljós þakklæti mitt fyrir þau ummæli, sem höfð eru um mig persónulega, þar sem sagt er, að ég hafi eftir kosningarnar 1933 hugsað til að segja af mér ráðherrastöðunni, en framsóknarmenn hafi litið öðruvísi á málið. Slík ummæli get ég ekki annað en þakkað. Það er rétt, að eftir að úrslit kosninganna 1933 voru kunn, taldi ég í sjálfu sér bezt við eigandi, að sú stj., sem þá sat, segði af sér störfum og byði a. m. k. öðrum að reyna stjórnarmyndun. En flokkurinn, sem þá stóð að mér í stj., og hinir ráðherrarnir litu svo á, að ekki væri ástæða til þess eins og þá stóðu sakir.

Hinsvegar segir í þessu plaggi að vissir menn, sem þar eru tilteknir, hafi sérstaklega hafizt handa um að koma á stað umr. um skipulagningu afurðasölunnar á fundum miðstjórnar Framsfl. Ég vil nú benda á, að áður en þau samtöl hafa farið fram, sem ég að vísu varð aldrei var við, og mætti ég oft á þessum fundum, þar sem einkum var rætt um blaðaútgáfu flokksins, þá höfðu ýmsir aðrir, þar á meðal bóndi vestan úr Dölum og einn af þáverandi þm. Framsfl., sérstaklega skrifað um málið í blað núv. Bændafl., Framsókn. Að þetta mál hafi sérstaklega verið tilefni þess, að farið var að tala um stjórnarmyndun í byrjun haustþings 1933 vil ég sem kunnugur maður bera brigður á. Af hlífð við fyrrv. flokksbróður skal ég ekki koma inn á það mál, sem í upphafi var aðallega rætt um í sambandi við myndun nýrrar stjórnar. En það var ekki fyrr en á síðara stigi málsins, eftir að Alþfl. hafði sent sitt fyrsta bréf, að farið var að ræða sérstaklega um skipulagningu afurðasölunnar.

Þá er sagt hér, að þáltill. Jóns í Stóradal, sem allar opinberar framkvæmdir til undirbúnings þessu máli byggðust á, hafi ekki verið borin fram fyrr en síðustu dagana í nóvember. Till. þessi var ekki samþ. að vísu fyrr en síðustu dagana í nóvember, en hún var borin fram löngu fyrr. Um þáltill. er komizt svo að orði, að samkv. henni hafi aðeins átt að gefa þinginu upplýsingar um þetta mál, en ekki leggja fram neinar ákveðnar till. Þetta er algerður misskilningur. Um leið og till. var borin fram var ætlazt til þess af flm. hennar og mér a. m. k., að árangurinn yrði lagður fyrir þingið í frv.formi. Man ég ekki betur en ég tæki það fram í umr. Svo er sagt í þessu nál., sem ég vil kalla nál. innan gæsalappa, að það hafi ekki verið fyrr en eftir kaupfélagsstjórafundinn síðast í marz, sem ég hafi farið að undirbúa málið. Ég hefi nú hér fyrir framan mig afrit af bréfum skrifuðum 7 febrúar 1934 með tilmælum til Sláturfélags Suðurlands, Alþýðusambands Íslands, Sambands ísl. samvinnufélaga, Mjólkurbandalags Suðurlands og Kaupfélags Borgfirðinga um að tilnefna menn af sinni hálfu til að taka sæti í n. ásamt stjórnskipuðum formanni, til þess að undirbúa og gera till. um málið. Svo er hér sagt í prentuðu plaggi, að ég hafi ekki hafizt handa í þessu efni fyrr en komið var fram á vor. Og hefi ég ekki heyrt það fyrr, að vorið byrjaði hér á landi í febrúarbyrjun. Hitt er satt, að það stóð nokkuð lengi á svörum við þessum bréfum. Kaupfélag Borgfirðinga svaraði fyrst og tilnefndi mann af sinni hálfu með bréfi dags. 20. marz, og er það bókfært sem innkomið í stjórnarráðinu 24. marz. Sláturfélag Suðurlands svaraði með bréfi 7. marz, innkomnu 24. marz, Alþýðusambandið með bréfi 13. febr., innkomnu 13. febr., en S. Í. S. svaraði ekki fyrr en 28. marz, með bréfi innkomnu 3. apríl, sem kom því ekki fyrir mín augu fyrr en 4. apríl. N., sem ég skipaði samkv. þessum tilnefningum, var skipuð 7. apríl. Drátturinn frá 4. apríl til 7. apríl stafaði af því, að vegna fjarveru forstjórans hafði Mjólkurfélagið ekki tilnefnt neinn af sinni hálfu, og var það er ekki gert fyrr en eftir að n. var skipuð að öðru leyti. Það var því ekki hægt að skipa n. fyrr en gert var.

Þá er í þessu fyrrnefnda plaggi minnzt á framkvæmd mjólkurlaganna frá 1933, sem núv. hæstv. forsrh. sagði konungi í innstillingu sinni fyrir bráðabirgðalögunum, að væru „ónothæf“, og er mér kennt um, að þau voru ekki framkvæmd. Ég skal aðeins til skýringar því máli minna á, að það er svo um framkvæmd þessara laga eins og allra annara laga, að hún heyrir undir lögreglustjórana á hverjum stað. Hinn 23. okt. 1933 skrifaði lögreglustjóri Rvíkur ráðuneytinu og spyrst fyrir um, hvað skuli gera út af kæru Mjólkurfélags Rvíkur út af broti gegn l. nr. 97 1933, um heilbrigðisráðstafanir í sambandi við sölu mjólkur. Ráðuneytið svaraði strax um hæl, að honum bæri að sjálfsögu að rannsaka málið og koma fram ábyrgð á hendur umráðamönnum viðkomandi mjólkurbúða, ef þeir reyndust brotlegir við lögin. Þannig eru öll bréf, sem farið hafa milli lögreglustjóra og ráðuneytisins um þetta efni, að það er lagt fyrir lögreglustjóra að sjá um, að þessum lögum sé framfylgt. Framkvæmd almennra laga heyrir ekki undir atvmrh., heldur dómsmrn., þegar kæra hefir komið fram, og ég get aðeins getið þess, að síðasta bréfið, sem mér er kunnugt um að dómsmrh. hafi skrifað lögreglustjóra um þetta mál, endar þannig: „Verður lögreglan auðvitað að sjá um, að þessum lögum sé fylgt eins og öðrum“. (JónasJ: Hvenær er það dagsett ?). Þetta síðasta bréf er dagsett 21. júlí, en áður hafði dómsmálaráðuneytið skrifað lögreglustjóranum mörg bréf hins sama efnis. Annars á fyrrv. dómsmrh. sæti hér í d., svo ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta.

Það er fjarri mínum huga að taka slíkt plagg sem þetta svonefnda nál. hátíðlega. Höfundur þess verður að sætta sig við það, að menn taki hann ekki yfirleitt eins hátíðlega nú orðið eins og menn hafa gert stundum áður. Er það orðin að ýmsu leyti breytt aðstaða, og ég hygg, að jafnvel innan hans eigin flokks séu menn líkrar skoðunar um það. Ég skal því ekki tefja tíma þingsins með því að tala langt mál um þetta, en vil endurtaka það, sem stendur í nál. okkar, að minni hl. lætur ekki slíkan málflutning og missagnir hafa áhrif á afstöðu sína. Leggjum við til, að frv. verði samþ., en flytjum nokkrar brtt. við frv., sem prentaðar eru með nál., og er í nál. gerð nægileg grein fyrir þeim.