13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Pétur Magnússon:

Ég hefði sparað mér að taka til máls við þessa umr., ef hv. frsm. meiri hl. hefði ekki beint orðum sínum alveg sérstaklega til mín. Annars er mér alls ekki ljúft að fara að ræða þetta mál nú, sízt við hv. frsm. meiri hl., sem hefir komið þessum löngu umr. af stað með ræðu, sem ekkert kom málinu við, eftir að hafa soðið saman nál. upp á 7 bls., þar sem hvergi er minnzt á málið sjálft, nema í hálfri síðustu línunni. Allt þetta nefndarálit er ósannindavaðall, sem alls engar upplýsingar gefur um málið. Þetta má auðvitað ekki hafa áhrif á gang málsins sjálfs, en það fer að verða ástæða til að spyrja að því, úr því að til eru þm., sem ekki eru á hærra siðferðisstigi en svo, að þeir nota A-deild Stjtíð. til að birta þar ósannindavaðal og svívirðingar, hvort hjá því verði komizt að setja þingmenn undir eftirlit. (JJ: Er þetta nazismi?). Nei, þetta er enginn nazismi, en forsetar gætu haft eftirlit með því að Alþingi verði ekki óvirt aftur eins og hv. frsm. meiri hl. hefir gert með þessu plaggi sínu.

Hv. frsm. meiri hl. gerði sér mjög tíðrætt um það, að ég og þrír aðrir þm. hefðum í fyrra greitt atkv. gegn einum lið í till. Jóns frá Stóradal um skipun n. til þess að athuga afurðasölu bænda. Þessi liður var svo hljóðandi: „Skal leita um þetta umsagnar Búnaðarfélags Íslands, Sambands íslenzkra samvinnufélaga, Sláturfélags Suðurland, og Mjólkurbandalags Suðurlands“. — Hv. frsm. telur. að ég hafi verið, með því að greiða atkv. gegn þessum lið, að óvirða samvinnufélögin. Það er nú fyrst á það lítandi, að till. hljóðaði ekki aðeins um samvinnufélög. Í öðru lagi get ég ekki talað um samvinnufélögin sem neinn helgidóm, eins og hv. frsm. virðist álíta þau, svo að ekki megi líta til þeirra óþveginn. Mér er það alveg ljóst, að samvinnufélög eru, eins og hver annar félagsskapur, mjög misjöfn. Þau hafa vitanlega ýmsum góðum mönnum á að skipa en það er líka margur „misjafn sauður “ í þeim hópi, sem að þeim stendur. En annars held ég, að ástæða væri til að ætla, að einhverjir bæru kaldari hug til t. d. Búnaðarfélags Íslands og Sláturfélags Suðurlands heldur en ég, og er ekki víst, að hv. frsm. þurfi að leita mjög langt til þess að finna slíka menn. Ég hefi aldrei reynt að troða skóinn af neinu þeirra félaga, sem ráðgert var að spyrja, — en sjálfur getur hv. frsm. spurt sína eigin samvizku, hvað hann hafi í því efni gert.

En þótt nú svo væri, að við, þessir fordæmdu fjórmenningar, hefðum talið einhverja aðra aðila hafa eins mikið vit á þessum málum og þá, sem í till. voru greindir, þá ber ég svo sem engan kinnroða fyrir það. En þegar málið er skoðað niður í kjölinn, kemur það í ljós, að það er síður en svo, að við höfum ekki treyst þessum félögum til að koma með till. um málið. Ástæðan var allt önnur, eins og kom fram í grg. hv. 1. landsk., sem þá var, fyrir þeirri brtt., að fella þennan miðlið niður. Hann lýsti þar yfir því, að hann vildi ekki binda hendur stj. um að leita eingöngu umsagnar þessara aðilja, heldur væri henni frjálst að leita til fleiri. Með þessu var í rauninni gengið út frá því, að umsagna þessara aðilja væri leitað, en einnig fleiri, eins og raunar gert var.

Hv. frsm. var að tala um það, að ég og samþm. minn hefðum í hvorugan fótinn þorað að stíga fyrst eftir að afurðasölulögin komu fram og því farið austur yfir fjall og spurt kjósendur okkar ráða. Ég veit nú ekki, hversu fróður hv. frsm. er um flokksfundi sjálfstæðismanna í Rangárvallasýslu, enda er ekki víst, að honum flökri við, þótt hann fari ekki alveg rétt með. Ég skal hér ekkert fara inn á afstöðu samþm. míns, en ég hafði á þinginu 1933 tekið þá afstöðu til mjólkurmálsins, að ég hefði átt erfitt með að snúa við, því að ég var þá í landbn. og fylgdi meiri hl. í því að samþ. frv. óbreytt, og eins og hv. frsm. meiri hl. veit, strandaði málið þá á mótstöðu utanþings, en ekki innan. Forstöðumenn mjólkurbúanna austan fjalls og vestan óskuðu málinu breytt í það horf, sem það þá var samþ. í. Það er því ekki rétt, að málið hafi strandað á því, að flm. þess hefði ekki getað komið því gegnum þingið, heldur á því, að forsvarsmenn mjólkurfélaganna vildu ekki eiga á hættu, á því stigi málsins, þær deilur, sem kynnu að rísa af því, að frv. yrði samþ. í óbreyttri mynd. Þeir vildu heldur láta málið bíða, en það var ekki nema sjálfsagt að verða við vilja þessara manna eins og málið lá þá fyrir.

Um kjötsölulögin er það að segja, að þótt ég hafi gert nokkrar aths. við þau, sem eru í fullu samræmi við almenna skoðun í mínu kjördæmi, þá veit ég ekki til, að nokkru sinni hafi fallið neitt orð hjá mér um það, að ekki væri réttlátt og enda nauðsynlegt að gera þær tilraunir, sem þar er farið fram á. Þessi ummæli hans eru því vitanlega ekki annað en uppspuni einn.

Í þessu sambandi væri ástæða til að minnast á það, sem hv. frsm. meiri hl. gerði að aðalumræðuefni í sinni ræðu, um afstöðu flokka til þessa máls áður fyrr. Hv. þm. stagaðist á því hvað eftir annað, að það hefði átt að mynda samsteypustjórn milli Framsfl. og Alþfl. til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd, og hann talaði um, að það hefði verið fyrirsjáanlegt, að Sjálfstfl. í heild mundi leggjast á móti slíkri skipulagningu á þessum málum, eins og líka væri komið á daginn nú. Ég veit ekki, hvaðan hv. þm. hefir komið þessi vizka haustið 1933. Mjólkurmálið hafði verið til umr. á þinginu 1933. — Það er auðvitað rétt, að það var ekki neitt flokksmál hjá Sjálfstfl. Það voru skiptar skoðanir um það eins og ýms önnur mál, því að það er yfirleitt ekki regla í Sjálfstfl., að gera mál að flokksmáli. Hver maður fær að njóta sinnar sannfæringar; það hafa aldrei verið gerðar tilraunir til þess að leggja handjárn á þm. Sjálfstfl. En samt sem áður var það svo, að þegar mjólkurlögin voru til umr. á þinginu 1933, þá var aðalflm. þess frv. sá maður, sem nú er form. flokksins og þá var vitanlega einn af áhrifamestu mönnum flokksins. Þetta út af fyrir sig hefði frekar átt að benda til þess, að Sjálfstfl. yrði ekki alveg óskiptur í slíkum till., sem hér eru komnar fram. Við þetta bætist svo það, að mikill meiri hl. flokksmanna, var málinu fylgjandi á þinginu 1933. En hitt er rétt, að þm. Reykv., sem töldu það skyldu sína að gæta hagsmuna sinna kjósenda, voru á móti málinu. Það skal játað.

Þessi klofningur í Sjálfstfl. hefði kannske getað réttlætt að einhverju leyti þessa umhyggju hjá hv. þm. S.-Þ., ef Alþfl., sem hann ætlaði að gera bandalag við, hefði staðið óskiptur með slíkri skipulagningu sem þessari, en ég held, að það hafi ekki verið. Það hefir verið minnzt á, hvað varaform. flokksins. hv. 2. þm. Reykv., sagði um þetta í hv. Nd., en það hefir ekki verið minnzt á, hvað form. flokksins, hv. 4. landsk., sagði um málið hér í hv. Ed. Ég hefi fyrir framan mig það, sem hann sagði, og skal ég lesa úr því kafla — örstuttan, svo ég tefji ekki hv. d. — með leyfi hæstv. forseta:

„Þá tel ég það allhart að gengið, að láta þá menn, sem í kaupstöðum búa og bæjarstj. hefir styrkt — marga hverja — til þess að efla búskap innan bæjarfélagsins, bera skatt til þess að borga bændum í Rangárvallasýslu, Skaftafellssýslu, Árnessýslu, Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu — og kannske lengra að — uppbót á verði á mjólk. Það er náttúrlega rétt, að það er dýrara í nágrenni Reykjavíkur að framleiða mjólk; en hinir, sem fjær búa, þola líka betur að fá lægra verð fyrir mjólkina.

Ekki er hægt að segja, að þeir hafi verið sér lega sanngjarnir í garð Rvíkur, bændur í mjólkurfélögum hér, austan fjalls og annarsstaðar. Ég man eftir, að fyrir nokkrum árum gerði ég samning við framkvæmdarstjóra mjólkurbús í nágrannasýslu um að kaupa mjólk til að selja aftur í Rvík nokkuð undir því verði, sem hér var þá. Þetta var viðurkenndur samningur, þótt ekki væri skrifaður í öllum atriðum. En mjólkurfélögin hér, og sérstaklega mjólkurfélögin fyrir austan, héldu ráðstefnu og kúguðu framkvæmdastjóra þess fyrirtækis til að svíkja þann samning, sem hann hefði gert. Það var náttúrlega engin sérstök velvild til Rvíkur í þessu, að koma í veg fyrir 10% lækkun á mjólk.“

Svo endar hann ræðu sína með því að segja, að hann treysti sér ekki til að greiða atkv. með frv., en muni greiða atkv. með dagskrártill. hv. þm. Hafnf., sem gekk út á það að eyða málinu.

Þetta voru ummæli form. flokksins á aðalþinginu 1933, og ég held, að sannleikurinn sé sá, að Alþfl. hafi eins og venjulega staðið óskiptur í málinu — nefnilega óskiptur á móti því. En hv. þm. S.-Þ. á, þegar kom fram á haustið 1933, að þarna voru bjargvættir skipulagsins, en ekki hinir, sem höfðu beitt sér fyrir málinu og voru yfirleitt með því. Nei, þessi röksemdaleiðsla hv. þm. S.-Þ. er allt of strembin fyrir þessa hv. d., og ég held fyrir pallana líka.

Ég ætla ekki að fara út í það, sem hann beindi til hv. 1. þm. Skagf. — að hann hafi ekki þorað að framkvæma mjólkurlögin fyrir flokksblöðum sínum. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að það hafi verið nokkuð almennur vilji innan Sjálfstfl., að mjólkurlögin væru framkvæmd eins og gengið var frá þeim á vetrarþinginu 1933.

Þessum hv. þm. (JJ) er það tamt að vitna í Morgunblaðið, þegar hann álítur það heppilegt fyrir þann málstað, sem hann heldur fram, en ég held, að nú sé hægt að vitna til Morgunblaðsins með það, að þar hafi oft verið vítt, að mjólkurlögin voru ekki framkvæmd og hæstv. forsrh. hefir fengið hnútukast þaðan fyrir að hafa ekkert aðhafzt í því máli, meðan hann var lögreglustjóri í Rvík.

Þá kem ég, eins og hv. þm. S.-Þ., síðast að því, sem efni málsins skiptir. Það er út af brtt., sem ég og hv. 10. landsk. flytjum. Ég man ekki, hvort hv. þm. gerði síðari brtt. að umtalsefni, en hún er ekki annað en lagfæring á 11. gr. frv. Sú gr. er lítt skiljanleg í frv., en við öfluðum okkur upplýsinga um, hvað hún ætti að merkja, og reyndum svo að skrifa hana þannig um, að hún væri öllum skiljanleg.

Það var fyrri brtt., sem hv. þm. hellti úr skálum reiði sinnar yfir. Honum fannst till. fjarstæða eins og við orðum hana, og lagði sérstaklega út af því, að framleiðslukostnaðinn væri ekki unnt að reikna út. Mér skildist hann halda fram, að það væri af því, að framboð og eftirspurn skapaði verðið, og vitnaði hann þar til kornsölu Rússa. Eða er þetta ekki rétt? Ég tek það svo, fyrst hv. þm. þegir. (JJ: Það er ekki samtal). — Ég segi eins og er, ég hefi lagt þann skilning í þessa brtt., að hún gerði ekki neina efnisbreyt., a. m. k. ekki neina teljandi efnisbreyt. á frv. eins og það nú er. Brtt. er við niðurlag 4. gr. Síðari málsgr. orðist þannig:

„Við ákvörðun á útsöluverði mjólkur og mjólkurafurða skal sérstaklega hafa hliðsjón af kostnaði við framleiðsluna á hverjum tíma og þess gætt, að framleiðendur njóti að fullu þess hagnaðar, er leiða kann af breyttri tilhögun mjólkursölunnar, a. m. k. að svo miklu leyti sem þarf til þess, að mjólkurframleiðslan fái borið sig. Í því skyni skal við ákvörðun útsöluverðsins stuðzt við verðvísitölur, er sýni aðalkostnaðarliði framleiðslunnar ár hvert, eftir nánari ákvæðum, er ráðherra setur í reglugerð.“

Eins og frv. nú er, er gert ráð fyrir, að útsöluverð mjólkur skuli á hverjum tíma reiknað út, eftir því sem við verður komið, eftir vísitölum. Ég skil þetta svo, að mjólkurverðið eigi að ákveðast í samræmi við aðrar verðvísitölur — þ. e. a. s., að verðlag mjólkurinnar svari til þeirra verðmæta, sem þarf að nota til framleiðslu hennar. Hugsunin í þessu skildist mér vera sú, að það ætti að leggja til grundvallar, að framleiðandinn fengi endurgreiddan framleiðslukostnaðinn. Ég skal játa, að þetta orðalag í frv. er nokkuð óskýrt, og skal ég því ekki taka munninn fullan um það, hvort þessi skilningur er réttur, en sé þetta rétt, þá mega allir sjá, að í brtt. okkar hv. 10. landsk. er ekki um neina verulega efnisbreyt. að ræða. Við leggjum áherzlu á það, frekar heldur en gert er í frvgr. eins og hún nú er, að útsöluverð skuli ákveðið með hliðsjón af kostnaði við framleiðsluna á hverjum tíma. Við vildum láta koma fram í lögunum sjálfum, að það, sem vekti fyrir hv. Alþingi með setningu þessarar löggjafar, væri að gera þennan atvinnuveg þannig úr garði, að þeir, sem að honum vinna, hefðu sæmilega lífsframfærslu af honum.

En nú kemur hv. þm. S.-Þ. og segir: „Það er ómögulegt að ákveða framleiðslukostnaðinn.“ Og hann talar um það eins og einhverja fjarstæðu að gera nokkra tilraun til að finna leið til þess. Ég vil nú leyfa mér að benda hv. þm. á það, að fræðimenn hafa gert tilraunir til þess. Ég hefi hér eina fræðilega grein, sem fjallar um þetta efni, nokkuð gamla að vísu, í íslenzku tímariti frá 1915 — „Réttur“ heitir það. Ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lofa hv. þm. S.-Þ. að heyra nokkrar setningar úr þessari grein. Það er þá fyrst á bls. 34:

„Viðfangsefnið er að útskýra verð hlutanna, af hverju verð þeirra stafar og hverjum lögum það er háð. Og útskýringar eru aðallega tvær. Annarsvegar eru auðmenn og þeirra fylgifiskar. Þeir segja, að mannlegur vilji gefi hlutunum verð og hafa myndað hinu alkunnu setningu um framboð og eftirspurn. Hinsvegar eru jafnaðarmenn. Þeir segja, að það sé vinnan, sem skapar verð hlutanna. Og þeir neita því þverlega, að kenningin um framboð og eftirspurn sé frambærileg fullnaðarskýring á verðgildi hluta.“

Svo heldur hann áfram á bls. 39. (Hann er búinn að rekja skýringar auðvaldsins og segir, að því detti ekki í hug að skýra frá því, hvers vegna verð á folaldi hækki um 30 kr. á ári.):

„Aftur á móti skýrir kenning jafnaðarmanna þetta til fullnustu. Verðhækkun hestsins á þessum aldri stendur í nákvæmu samræmi við meðalverð á ársfóðri hesta undir núv. kringumstæðum á Íslandi.“

Þarna virðist þessi fræðimaður vera búinn að fá skýringu á þessu og þykist nú hafa hitt naglann á höfuðið. Svo segir hann ennfremur:

„Þegar framboð og eftirspurn standast á, er jafnvægi á markaðinum. Þá eru hlutirnir seldir við sannvirði, hvorki meira né minna en þeir kosta.“

Hvað er það, sem verið er að gera hér? Er ekki verið að koma jafnvægi á framboð og eftirspurn? Það er einmitt verið að girða fyrir, að mjólkin renni inn á markaðinn í stríðum straumum, meira heldur en neytendurnir geta tekið á móti, sem hlyti að verða til þess, að verðlagið lækkaði. Svo segir þessi fræðimaður í lok greinarinnar:

„Samkv. því, sem hér hefir verið skýrt frá, virðist mjög erfitt fyrir óhlutdræga menn að fallast á verðgildiskenningu auðvaldssinna, þótt hún sé byggð á nokkrum yfirborðssannindum. Hinsvegar virðist skýring jafnaðarmanna um að meðalmannsverkið ráði markaðsverðinu (að viðbættum gárum framboðs og eftirspurnar, þegur þessi öfl vega ekki hvort upp á móti öðru) bregða björtu ljósi bæði yfir sjálft markaðsverðið og mörg önnur atriði auðfræðinnar.“

Þessi fræðimaður virðist hafa fundið það, sem við hv. 10. landsk. ætlumst til, að leitað sé að. En ég skal ekki segja, hvort allir leggja mikið upp úr þessum fræðimanni, en ég hélt, að hv. þm. S.-Þ. mundi taka eitthvert mark á honum, því að hann heitir Jónas Jónsson og er nú þm. S.-Þ.

Annaðhvort er, að þessi hv. þm. hefir skipt um skoðun, og náttúrlega er ekkert við því að segja, eða þá að hann hefir tekið fulldjúpt í árinni nú, þegar hann talaði um, að ómögulegt væri að komast nálægt því rétta í þessum efnum.

Ég skal fúslega viðurkenna erfiðleikana á því að ákveða framleiðslukostnaðinn, en vil hinsvegar ekki taka neitt aftur af því, sem við höfum lagt áherzlu á, hv. 10. landsk. og ég, með brtt. okkar, sem sé það, að málinu verði komið í það horf, að framleiðslan geti borgað sig. Hver viti borinn maður hlýtur að sjá, að þessi atvinnurekstur verður að eiga framtíð fyrir höndum, en það getur hann því aðeins gert, að framleiðslan beri sig.