13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Briem) [óyfirl].:

Ég held, að hv. 1. þm. Reykv. hafi tekið fyrstur til máls af þeim hv. þm., sem ég vildi svara, og vildi ég þá aðeins út af kenningu hans um mjólkurframleiðsluna hér í Rvík og því, sem hann talaði um framleiðendur hér, benda honum á, að sú frjálsa samkeppni, sem hann lofar bæði í tíma og ótíma, gæti orðið mjólkurframleiðendum allhættuleg. Því að hvernig færi fyrir mjólkurframleiðendum hér í bænum, ef mjólkurframleiðendur til sveita kepptu þá út af markaðinum með því að bjóða sína vöru með lægra verði heldur en framleiðendur hér, sem hafa haft svo dýra ræktun, geta staðizt við að framleiða hana fyrir? Ef til mjólkurstríðs kæmi, þá gæti svo farið, og er jafnvel ekkert líklegra en að mjólkurframleiðendur hér í bænum biðu lægri hlut í þeirri viðureign. Ég hygg, að sú meðalleið, sem lagt er til að fara í þessu frv., og áður hefir verið lagt til að fara í frv. því, sem flutt var á vetrarþinginu 1933, geti verið til verndar mjólkurframleiðendum hér í Rvík. Til verndar gegn þeirri aðalhættu, sem yfir þeim atvinnurekstri vofir, að ef hér yrði mjólkurstríð og mjólkin kæmist niður fyrir það verð, sem þeim er mögulegt að framleiða hana fyrir, og þá væri þeirra atvinnuvegur af sjálfu sér hruninn í rústir. Mér finnst þess vegna kenna mikils skilningsleysis hjá hv. þm. á tilgangi þessa frv.

Þá kem ég að næsta ræðumanni, sem ég vildi svara lítillega. Það er hæstv. forsrh. Hann talaði yfirleitt rólega, og manni virtist á upphafi ræðu hans, sem honum væri engin skemmtun að því, inn á hvaða brautir málið væri komið með frumhlaupi hv. þm. S.-Þ. í sínu endemisplaggi á þingskjali 361, sem hann kallar nál. Honum er það sjálfsagt ljóst, manninum, sem á að sjá um framkvæmd þessara laga, að það er málinu enginn vinningur, að það sé verið að gera tilraun til þess að kljúfa n., sem vildi standa saman um málið og var viðbúin að skila sameiginlegu nál., né að þar sé með órökstuddum og staðlausum vaðli um óskyld efni reynt að gera okkur minnihlutamönnunum ómögulegt að skrifa undir nál. eins og það var orðað. Þó að við í aðalatriðum værum sammála frv., urðum við að semja annað nál., af því að við gátum ekki sóma okkar vegna skrifuð undir slíkt plagg sem það, er ég áður nefndi. Hæstv. forsrh. fór þó ekki alveg rétt með ýms þau ummæli, sem ég hefi haft. T. d. talaði hann um, að ég hefði hafið andmæli gegn þessu frv. Slíkt er fullkominn misskilningur hjá honum, og er undarlegt, að nokkur maður skuli láta slík orð sér um munn fara eftir að ég hefi mælt með því, að frv. væri samþ., bæði munnlega í ræðu minni og skriflegu í nál. Sú formsbreyt., sem hæstv. forsrh. hefir gert á frv., er að mínu áliti ekki til bóta. Hleypur hæstv. forsrh. þar á bak við mætan mann. Ingimar Jónsson, og segir, að hann og einhver lögfræðingur, sem hann nefndi ekki, hafi yfirfarið frv. og gert á því nokkrar breyt., og vildi telja þar með sannað, að þær breyt. hlytu allar að hafa verið óaðfinnanlegar. Ég hygg, að það sé rangt, að þessir tveir menn hafi staðið einir að þeim breytingum, heldur að þar hafi verið að verki ein nefndin af þeim mörgu, sem hæstv. stj. hefir skipað; það hefir reyndar ekki verið skýrt frá henni opinberlega, og mætti því kalla hana því sama nafni og félag eitt fyrr á öldum, sem nefnt var „hið ósýnilega“, og kalla hana ósýnilegu nefndina. Ég hygg, að sú n. hafi einnig fjallað um málið, og verði þess vegna ekki þeim mæta manni, sem hæstv. forsrh. nefndi, þar um allt kennt.

Hæstv. forsrh. vildi sanna, að frv. það, sem hann lagði fyrir þingið, væri ljóst og skýt í öllum greinum, og sannaði það með því, að ég hefði getað skilið frv. rétt. Ég get ekki þakkað mér, þó að ég eftir langa yfirvegun gæti komizt í réttan skilning á frv., en lagafrv. eiga ekki að vera einskonar „rebus“ eða þannig úr garði gerð, að það þurfi að leggja miklu vinnu í að skilja það, sem meint er í frv.

Þá vék hæstv. forsrh. að framkvæmd laganna nr. 97 frá 1933, og kom það í ljós bæði í þeim ummælum og eins síðar, að í raun og veru hefði hann ekki treyst sér til þess að framkvæma þau lög. Hann hefði sjálfur sagt kónginum, að þau væru „ónothæf“, og hann sagði áðan, að þau hefðu verðið óframkvæmanleg. Enda verður ekki hjá því komizt að segja það, að þessi hæstv. forsrh. hafi meðan hann var lögreglustjóri haft ýmsar undanfærslur með að framkvæma lögin. Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. minnist þess, þegar hann annanhvorn daginn 21. eða 22. des. f. á. kom sjálfur upp í ráðuneyti til þess að reyna að fá mig til þess að samþykkja það, að framkvæmd laganna væri frestað a. m. k. um einn mánuð. Það vildi svo til, að hann kom ekki einn, og býst ég við, að hann mæli ekki á móti því. Það tókst ekki að fá mig til þess að samþ. þetta, og felldi hann því dóm í málinu daginn eftir. Annars fór þetta mál, eftir að dómurinn var fallinn í því, á milli dómsmrh. og lögreglustjóra, og skal ég ekki blanda mér inn í þær deilur, sem fram hafa farið milli fyrrv. dómsmrh. og núv. dómsmrh. um það mál. Mér virðist fyrrv. dómsmrh. standa þar fyllilega fyrir sínu máli.

Þá skal ég koma að þeim ræðumanninum sem hér hefir lengst talað í kvöld. Þarf ég varla að taka það fram, að ræða hans var eins og venjulega, að hann hljóp úr einu í annað, og var illt að fylgja þræðinum. Þar sem hann annars var nokkur. Verð ég því að taka einstök atriði fyrir eins og þau bar að höndum í ræðu hans og svara þeim hverju fyrir sig. Hann var að tala um, að það hefði ekki verið fyrr en nú í þessu frv., að reynt hefði verið að taka nokkurt tillit til neytendanna. En veit hv. þm. ekki einu sinni það, að þegar í frv. því, sem flutt var um þetta efni hér á þingi 1931, var einmitt „gert ráð fyrir því, að fulltrúar frá bæjarstj. ættu sæti sem fulltrúar neytenda í þeirri n., sem átti að ákveða verðlagið á mjólkinni? Fulltrúar framleiðenda áttu náttúrlega að vera í meiri hluta, og það er í samræmi við það, sem almennt gildir, að menn, sem vilja selja sína vöru, eigi ekki að vera í minni hl. um það, hvaða verði þeir vilja setja á vöruna.

Hv. þm. talaði mikið um samvinnuhug sinn í sambandi við þetta mál, að hann hefði lagt sérstaka stund á, að hér gæti verið sem bezt samkomulag, en framkoma hans, þegar hann semur slíkt nál. sem hér liggur fyrir, sýnir bezt, hvað þetta tal hans er á góðum rökum byggt, því að hann hefir gert leik að því að kljúfa n. að óþörfu og reyna að koma af stað ágreiningi, þó að það væri ástæðulaust, þar sem við vorum samþ. málinu og erum það enn.

Hv. þm. langaði mikið til þess, að ég færi að segja frá því, hvað hefði verið rætt á fyrsta fundi stj. haustið 1933. Mig langar ekkert til þess að fyrra bragði að fara að segja frá skipun lögregluþjóna eða að fara að rifja upp það, að þá voru af ýmsum dregnar fram myndir og ályktanir um, að einhver ógnaröld myndi koma upp hér á landi, svo að menn mættu búast við að vera skotnir inn um gluggana, ef sósíalistar yrðu ekki fengnir til þess að mynda stj. með framsóknarmönnum.

Eftir að bréf kom frá Alþýðuflokksmönnum um einskonar tilboð um samvinnu, þá hóf þáv. form. Framsfl. kröfu um það, að áður en kæmi til greina að ræða þetta tilboð sósíalista, þá yrðu að koma upplýsingar um, hvað sósíalistar vildu gera fyrir landbúnaðinn móti þeim kröfum, sem þeir vildu gera til stjórnarmyndunarinnar.

Þá talaði hv. þm. mjög um þáltill. Ed., sem þáv. hv. 3. landsk. bar fram, og var með ýmsar útúrsnúninga um málið, sem ég ekki ætla að fara að rekja hér, þar sem nú er áliðið orðið að kvöldi.

Ræða þm. S.-Þ. var slík þvæla, að ef ætti að fara að svara einhverju af henni, þá færi manni líkt og þeim, er héldi á garnflækju, sem klippt hefði verið af þannig, að endarnir stæðu alstaðar út úr, svo að maður veit ekki, hvern endann maður á helzt að taka í.

Hv. þm. var að reyna að halda því fram, að það hefði ekki verið meiningin hjá flm. þáltill. í fyrra, að niðurstöður stj., eftir að hún hefði ráðfært sig við aðilja, skyldu verða lagðar fram í frumvarpsformi, og byggði hv. þm. þetta á því, að frv. væri ekki nefnt í þáltill. En þegar stj. hefir lokið rannsóknum og undirbúið eitthvert mál, þá er það venjulegt, að hún skili áliti um það í frumvarpsformi. Og ég man ekki betur en að ég tæki það fram í umr. um þáltill., að ef ég ætti um þessi mál að fjalla í stj., þá mundi ég reyna að skila árangri af rannsóknum samkv. þeirri till. í frumvarpsformi.

Hvað þessi hv. þm. talar um Jón Þorláksson, það kemur mér ekki við, því að sá maður er einn af þeim, sem harðast deildi á mig á meðan ég var í ráðherrastóli, og ætla ég því ekki að taka málstað hans. Viðvíkjandi þeirri till., sem þáv. 1. landsk. bar þá fram um að fella niður miðpartinn úr till., þar svo nafngreindar eru þær stofnanir, sem stj. skyldi hafa til ráðuneytis, þá fullyrði ég, að hv. þáv. 3. landsk. (Jón Jónsson), flm. þáltill., greiddi atkv. á móti þeirri brtt.

Hv. þm. var að tala um, að flm. áminnstrar þáltill. hafi ætlazt til þess, að þáv. stj. færi í eitthvert geitarhús til þess að fá nauðsynlegar upplýsingar um málið áður en hún legði till. um það fyrir Alþ. var það að fara í geitarhús að fara í þessu skyni til Sambands ísl. samvinnufélaga, Búnaðarfélags Íslands, Sláturfélags Suðurlands. Kaupfélags Borgfirðinga og Alþýðusambands Íslands? Þetta var nú meiningin með þáltill., að gert yrði, og þessa leið fór ég.

Hv. þm. er enn að reyna að telja mönnum trú um, að 7. febr. sé í almanakinu á eftir 20. marz. við 1. umr. þessa máls var hann að halda því fram, að ég hefði ekkert gert í þessu máli fyrr en eftir kaupfélagsstjórafundinn, sem haldinn var 20. marz síðastl. En þó strax við 1. umr. skýrði ég honum frá því, að hann gæti gengið upp í stjórnarráð og lesið bréf, sem ég skrifaði 7. febr., þar sem það stendur skýrt, að þessir aðilar eru beðnir að gera sínar till. um málið.

Það er sagt í þjóðsögu um selshausinn á Fróðá að hann hafi alltaf komið upp aftur, hvernig sem hann var barinn niður. Á sinn hátt er það eins með hv. þm. S.-Þ., að það er sama, hvernig rök eru færð á móti því, sem hann heldur fram hans firrur reka alltaf upp höfuðið aftur. Við slíka menn vil ég ekki eiga lengi orðastað.

Ég skal nú gera grein fyrir því, hvers vegna ég skrifaði þessum aðilum ekki fyrr en 7. febr. til þess að biðja þá að leggja til menn að sínum hluta í viðkomandi n. Það var af því, að áður þurfti ég að útvega frá þremur þjóðlöndum upplýsingar um, hvernig hagað væri þar skipulagi á þessum málum, svo að þær upplýsingar gætu orðið til leiðbeiningar fyrir þá n., sem átti að skipuleggja afurðasölumálin. Og áður þurfti ég líka að reyna að fá áætlanir frá bæjarstjórnum um það, hve mikið þurfi af kjöti að kaupa í hverjum kaupstað landsins. Slík skýrslusöfnun tekur langan tíma, og ég sá, að þær skýrslur mundu ekki geta verið komnar til stj. fyrr en í febrúar í fyrsta lagi. Enda voru þær ekki allar komnar þegar ég skipaði n., Ennfremur þarf allmikinn tíma til að vinna úr slíkum skýrslum. Auk þess þurftu þeir fulltrúar, sem í n. eru, að fara til útlanda vegna starfa fyrir þau fyrirtæki, sem þeir stóðu í og störfuðu fyrir. Ýmsir fulltrúar í n. þurftu að vera á fundum vegna þess, að þeir voru í framboði til alþingiskosninga, og það tafði nokkuð afgreiðslu málsins, eða það, að n. gæti skilað áliti. En ég hafði tekið fram við form. n., að ég óskaði þess, að hann hraðaði undirbúningi sérstaks frv. um málið, svo að hægt yrði í tæka tíð að gefa út bráðabirgðalög um afurðasöluna, eða fyrir sláturtíð, til þess að þessi l. gætu komið til framkvæmda þegar á þeim þyrfti að halda. Ég vitna hér til þess, að ég sagði það við 3 menn, þá Vilhjálm Þór á Akureyri, Helga Bergs og Þorstein Jónsson kaupfélagsstjóra á Reyðarfirði, að ef ég hefði aðstöðu til, þá myndi ég gefa út bráðabirgðalög í tæka tíð fyrir sláturtíð. En það er alveg sama, hvernig þetta er sannað fyrir hv. þm. S.-Þ. Selshausinn kemur alltaf upp aftur, hvernig sem barið er á hann. Og nú vill þessi hv. þm. enn á ný halda því fram, að 7. febr. komi á eftir 20. marz á sama ári.

Hv. þm. kom eitt sinn í ræðu sinni að málinu sjálfu, það var þegar hann talaði um till. okkar minnihlutamanna. En hann komst svo að orði, að með þeim væri sparkað í neytendur. Hann komst svo að orði af því, að við töluðum um vísitölur, en um vísitölur er og talað í stjfrv. sjálfu. Þetta hlýtur þá að vera af því, að við ætlumst til þess, að framleiðendur fái það verð fyrir afurðir sínar, sem þeir þurfa að fá til þess að geta lifað af framleiðslu sinni.

Hv. 2. þm. Rang. svaraði þeirri fyrirspurn, sem hv. þm. S.-Þ. bar fram síðast, með því að lesa upp góða kafla úr grein, sem hv þm. S.-Þ. hafði sjálfur skrifað.

Annars er það öllum vitanlegt, að í þeim löndum, þar sem afurðaskýrslur eru miklu fullkomnari en hjá okkur, þar eru einmitt til útreikningar yfir það, hvað sé „rentabilitet“ landbúnaðarins á hverjum tíma. Ég held, að þessi hv. þm., sem annars er ekki vanur að kynna sér tölur, hljóti að hafa séð þær tölur, sem eru „rentabilitet“ landbúnaðarins í Danmörku. Það getur verið, að ekki sé hægt fyrir okkur að ná eins fullkomnum skýrslum um þetta eins og Danir gera. En það er enginn vandi að verða þess áskynja. hve mikil verður að vera framleiðsla bænda til þess að þeir geti komizt vel af. Það má með því að lesa framtalsskýrslur. Auk þess veit hver bóndi, hvort hann hefir hagnazt eða tapað á ári hverju af þeim atvinnuvegi, sem hann hefir stundað. Það munu vera fljótreiknaðir þeir liðir, sem bændastétt Íslands hefir eytt í óþarfa í flestum árum. Íslenzkir bændur gera yfir höfuð ekki aðrar kröfur til lífsins en að hafa sitt einfalda og óbrotna framfæri, og það er ekki erfitt að komast eftir því, hvort þeirra framleiðsla frá ári til árs getur fullnægt þeirra einföldu pörtum.

Ég hygg nú, að hv. þm. S.-Þ. hafi orðið þess áskynja, að jafnvel hans eigin flokksmönnum, bændum hér á Suðurlandi, hafi ekki fundizt sanngjörn sú mjólkurverðlækkun, sem hér hefir verið framkvæmd í bænum. Það er satt, að hún munar neytendur í Rvík ekki mjög miklu. Ég hygg, að þeir standi flestir jafnréttir eftir sem áður. En þess ber að gæta, að neytendur eru margfalt fleiri en framleiðendur. Þessi lækkun á mjólkurverðinu kemur að tiltölulega litlu gagni fyrir hvern einstakan neytanda, en af því að framleiðendur eru miklu færri, þá munar þá, hvern fyrir sig, miklu meira um verðbreyt., jafnvel þó ekki sé að ræða um nema fáa aura pr. lítra.

Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á því að hv. þm. S.-Þ. rataðist þó rétt á munn, er hann játaði það í niðurlagi sinnar löngu ræðu, að málið yrði þó leyst með því að fara leiðir, sem ég hafði lagt inn á. (JJ: Nei, nei, nei). Jú, það sagði hann. Þessi hv. þm. hefir stofnað til óþarfrar deilu um þetta mál, því að hann gerði tilraun til að kljúfa n., þó að honum stæði til boða, að nál. yrði sameiginlegt. Hv. þm. byrjaði sitt mál með því að hefja óþarfa deilu um málið og lauk ræðu sinni með því að skopast að okkur þm. fyrir það, að við höfum verið að leggja því liðsyrði, að framleiðendur gætu fengið það verð fyrir afurðir sínar, sem þeir þurfa til þess að geta lifað af framleiðslunni.