17.11.1934
Efri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 1. þm. Skagf. var að tala um, að ég hefði sagt, að það væri ekki mikið að leysa úr þessum vandræðum, það þyrfti aðeins að fá peninga og veita þá til framkvæmda, loka kaupgetu manna inni o. s. frv. Ég vona, að hv. þm. hafi heyrt það, sem ég sagði, ef hann er þá ekki orðinn heyrnardaufur líka. En ég sagði, að það væri ómögulegt um það að segja, hvenær stj. yrði búin að auka atvinnureksturinn svo sem þarf. Það fer m. a. eftir því, hve miklu fé ríkissjóður hefir yfir að ráða. Ég sagði því, að þessari heimskulegu spurningu væri ekki hægt að svara. Að efniskaup fylgi verklegum framkvæmdum, er auðvitað að sumu leyti rétt. En ég vil þó benda á, að mestum hluta þeirra framkvæmda, sem fyrirhugaðar eru, fylgja lítil efniskaup, og stj. vill einmitt ýta undir þær framkvæmdir, þar sem eingöngu eða að mestu leyti er um verkalaun að ræða. Ég ætla, að okkur sé öllum kunnugt, að hús eru byggð hér úr erlendu efni, en ég vil segja hv. 1. þm. Skagf. það, að við erum enn ekki svo langt leiddir, að við höfum orðið að stöðva byggingar hér. Og ég vil benda honum á, að enn er flutt inn svo mikið af óþörfum varningi, að syndlaust væri að flytja nokkuð af því fé yfir á efniskaup þjóðarinnar. Við verðum þó fyrst og fremst að hafa þak yfir höfuðið.