21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég get orðið stuttorður um þessar till. — Það er þá fyrst og fremst till. frá hv. 1. þm. Reykv., sem eru á þskj. 492. Ég sé satt að segja ekki ástæðu til að mæla með þessari till., að hún verði samþ. Þar er farið fram á að undanþiggja sjúkrahús, elliheimili og barnahæli. Það er engin ástæða til að samþ. þetta, því að í 5. gr. er svo fyrir mælt, að ákvæði um mjólk handa börnum og sjúklingum skuli setja í sérstakri reglugerð. Það er því líklegt, að um þetta verði höfð svipuð aðferð og hefir verið erlendis, þar sem svipuð ákvæði hafa verið sett, að þau bú, sem framleiða barnamjólk, eru sett undir sérstakt eftirlit og sérstakar reglur um þau sett. Fólkið, sem starfar í þessum fjósum, þar sem framleidd er barnamjólk, er undir sérstöku eftirliti, sérstakt eftirlit haft um allan þrifnað, eftirlit haft með kúnum, sem eiga að framleiða þessa mjólk, og þær aldar á sérstöku fóðri, og ennfremur þess gætt, að þær séu ekki látnar verða mjög gamlar. Ég sé því enga ástæðu til að samþ. þessa brtt. eins og hún liggur fyrir. Þetta mundi sennilega vera gert þannig, eins og ég hygg, að sé gert t. d. í Englandi, að þau kúabú, sem eru þannig undir sérstöku heilbrigðiseftirliti, fá skírteini til að fá að selja þessa mjólk, eftir að þau hafa fullnægt öllum þeim kvöðum, sem fullnægja þarf.

Um heimildina fyrir brauðgerðarhús að mega nota ógerilsneydda mjólk, vil ég segja það, að það er ekki rétt, sem haldið hefir verið fram, að þessi mjólk hækki verulega í verði við gerilsneyðingu. Það má ekki láta þau bakarí, sem þurfa á þessari iðnaðarmjólk að halda, taka við henni, nema hún sé fyrst hreinsuð, og eftir áreiðanlegum upplýsingum, sem ég hefi fengið, er kostnaðarmunur við að gerilsneyða mjólk eða hreinsa nærri því enginn, og er þá engin ástæða til að taka upp þetta ákvæði um iðnaðarmjólk. Ég álít því, að þessi brtt. á þskj. 492 sé alls ekki til bóta, heldur þvert á móti.

Þá eru frá sama hv. þm. brtt. á þskj. 445 við 3. lið 5. gr. Í a-liðnum segir, að mjólk, sem framleidd er innan lögsagnarumdæmisins skuli að öðru jöfnu ganga fyrir og seld milliliðalaust, eftir því sem fært er vegna hollustuhátta. Það leiðir af sjálfu sér, að sú mjólk, sem er framleidd næst kaupstað, verður látin ganga fyrir, og er þetta einmitt eitt aðalatriðið í þessu skipulagi, að sú mjólk, sem framleidd er næst sölustað, gangi fyrir þeirri, sem verður að flytja langt að með miklu meiri kostnaði, og nota þá mjólk, sem kemur úr fjarlægari sveitum, til vinnslu. En það er óþarfi að samþ. þetta, því að þetta er eitt undirstöðuatriði skipulagsins, að þetta fyrirkomulag verði haft. Svo fylgir hér líka sá böggull skammrifi, að jafnframt þessu á að selja þessa mjólk milliliðalaust. Þar gætir þess sama misskilnings, sem áður hefir komið fram í sambandi við slíkar till., og hefir verið rökstuddur með því, að það eigi að vera til hagsbóta fyrir þá, sem búa í nágrenni Rvíkur, að þeir fái að selja milliliðalaust. Þetta þýðir það í framkvæmdinni að ef þeir, sem framleiða mjólk í nágrenni Rvíkur, fá að selja milliliðalaust fyrir utan sölumiðstöð, þá hafa þeir enga tryggingu fyrir að koma henni allri út. Tryggingin getur ekki legið í neinu öðru en því, að þeir selji í gegnum sölumiðstöðina og að sú mjólk, sem er framleidd næst kaupstöðunum, gangi fyrir. Á þetta benti ég við 2. umr. málsins. Það ber nú mikið á því, að þeir, sem nú standa utan við sölusamtökin, geta ekki selt og verða því að láta mikið af mjólkinni fyrir lægra verð. Ég átti nú fyrir stuttu tal um þetta við einn hyggnasta mjólkurframleiðandann hér í nágrenni Rvíkur. Hann sagði mér og leyfði mér að hafa það eftir sér, að hann hefði að undanförnu selt mikið af sinni mjólk beint, á 40—42 aura, en nú hefði hann sagt öllum þessum mönnum upp og seldi mjólkina nú á 30 aura á 3—4 staði. Hann sagði, að þetta borgaði sig betur. Hér var um svo hygginn framleiðanda að ræða, að hann veit vel, hvað hann er að segja. Dreifingarkostnaður og innheimta og tap á innheimtu er svo mikið, að það borgar sig að selja á vissa staði fyrir vissa greiðslu, þó að verðið sé ekki hærra en 30 aurar.

Þessi svokallaða milliliðalausa verzlun er því til tjóns af tveimur ástæðum, í fyrsta lagi af því, að þeir, sem framleiða í nágrenni Rvíkur, hafa enga tryggingu fyrir, að þeirra mjólk gangi út, nema þeir selji gegnum sölumiðstöð, og í öðru lagi af því, að innheimta og dreifing er svo dýr, að þeim er betra að selja mjólkina fyrir 30 aura. Þetta væri í raun og veru sama fyrirkomulag eins og t. d., ef mönnum, sem framleiddu kjöt í nágrenni Rvíkur, væri heimilt að selja milliliðalaust og borga verðjöfnunargjald, en svo væri þeim, sem væru fyrir utan verðjöfnunarsvæðið, heimilt að hafa sölusamtök og selja kjöt inn í bæinn. Af þessari samkeppni leiddi vitanlega það sama eins og ef mjólk væri ekki seld í gegnum eina sölumiðstöð, enda hefir orðið að taka þetta fyrirkomulag upp alstaðar þar, sem þetta skipulag hefir verið haft. Má þar nefna England og Svíþjóð, og ég hygg Noreg, þar sem svona fyrirkomulag er haft.

Um b-liðinn er það að segja, að ég er honum algerlega mótfallinn. Þetta er gert vegna þess, að þar, sem mjólkurbú eru rekin í beinu sambandi við stór fyrirtæki, sé ekki hægt að þvinga mjólkurframleiðendur, sem þurfa samkv. mjólkurlögunum að fá mjólk sína hreinsaða, til að ganga inn í félagsskap, sem ef til vill hefir áhættusama starfsemi með höndum auk mjólkurbúsins. Þetta er því sanngirni í garð þeirra, sem fyrir utan búin standa.

Ég er einnig mótfallinn c-lið brtt. Það kemur ekki til mála að tiltaka einhverja ákveðna upphæð, sem megi falla á mjólkina sem kostnaður. Það verður að fara eftir því, sem reynist sannvirði. Ennfremur er þetta skaðlegt vegna þess, að ef þetta væri ákveðið, þá væru þeir, sem í sölusamtökunum eru, ekki nærri því eins áhugasamir að láta reksturinn ganga vel og vera ódýran eins og þeir, sem búa í nágrenni Rvíkur, geta spillt skipulaginu með því að standa á móti því, eyðilagt skipulagið þannig að nokkru leyti bæði fyrir sjálfum sér og öðrum og gert það dýrara.

Þá er brtt. frá meiri hl. landbn. Það hefir verið minnzt á það undir þessum umr. og fundið að því, að fram skuli hafa komið brtt. 553, 2. við 2. gr., þar sem talað er um, að kýrnyt skuli miðast við 3000 lítra. Þetta sýnir vel, hvað menn eru ósamdóma, þegar verið er að ræða um hagsmunamál Reykvíkinga. Þessi brtt. hefir sætt andmælum frá hv. 4. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. En brtt. er fram borin fyrir tilmæli Guðmundar Ásbjörnssonar bæjarfulltrúa, vegna þess að meðal ársnyt kúa í nágrenni Rvíkur er 3300 lítrar, og það er þess vegna, að hann hefir óskað eftir þessari breyt., því að það þýðir ekkert að reikna ársnyt allt aðra en menn vita, að hún er. En fyrst svona eindregið er lagzt á móti brtt., hefi ég ekkert á móti því að draga hana til baka, — en svona er hún fram komin.

Þá ber meiri hl. n. fram þá till., að sekta skuli þá menn, sem vísvitandi flytja ógerilsneydda mjólk inn á sölusvæðið. Ég legg enga sérstaka áherzlu á þessa brtt., en þetta getur aldrei komið mjög hart niður. Við, sem höfum fengið svona mál til meðferðar, vitum, að það er erfitt að sanna það á bílstjóra, að hann flytji vísvitandi ógerilsneydda mjólk. Ákvæðið mundi því í framkvæmdinni ekki vera sérstaklega þýðingarmikið. Þetta er ekkert höfuðatriði, en ég get fallizt á, að þessi till. verði borin upp sér í lagi, eins og hv. 4. landsk. fór fram á.

Þá minntist hv. 4. landsk. á það, að rétt væri að setja hámark á það, hve verðjöfnunargjald mætti vera hátt. Það er 5% í 2. gr. frv. og gert ráð fyrir, að megi hækka það, ef sérstaklega stendur á og samþykki landbúnaðarráðh. kemur til. Það má athuga þetta í Nd., þegar þar að kemur, og ég get fallizt á, að ef til vill væri rétt að setja eitthvert hámark, því að ekki er ósennilegt, að þeir, sem gjaldið eiga að borga, verði tortryggnir, ef ekkert hámark er sett, og ekki heldur ótrúlegt, eins og á þessu máli hefir verið haldið að sumu leyti. Á ég þar við deilur bæði í blöðum og víðar.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, að ósanngjarnt sé, að láta þá borga verðjöfnunargjald, sem hafa eina kú og ekki einn fullræktaðan hektara, vil ég taka það fram, að ég álít, að þetta hafi enga verulega þýðingu. Áður höfðu sumir menn eina kú, en nú kemur það varla fyrir, af því að það borgar sig ekki að hafa aðeins eina kú. En ef menn gera þetta að kappsmáli, þá má taka þetta til athugunar, því að þetta getur ekki haft nein áhrif á skipulagið sjálft.

Fyrir skrifl. brtt. hefir ekki verið mælt enn, og mun ég því ekki gera hana að umtalsefni að svo komnu. — Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að svo stöddu.