21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég mun reyna að verða stuttorður, því að þessar umr. eru að miklu leyti endurtekning á því, sem sagt var hér við 2. umr. — Ég vil þá fyrst minnast á það ákvæði frv., sem hefir orðið hv. 4. landsk. að ásteytingarsteini. Ég minntist á það í minni fyrri ræðu, að erfitt mundi verða að sanna það á bifreiðarstjóra, að þeir flyttu vísvitandi óleyfilega mjólk til bæjarins. Þeir geta ávallt sýnt sterkar líkur fyrir því, að ekki sé um vísvitandi brot að ræða, vegna þess að þeir hafi átt að flytja mjólkina á þennan og þennan stað. — Ef að bifreiðarstjórarnir eru ekki teknir fyrr en afhending hefir farið fram á mjólkinni, þá getur það leitt til þess, að þeir sleppi. Þess vegna má ákvæði gr. standa; það má gjarnan hitta þá menn, sem brjóta lögin af ásettu ráði. Sú ástæða, sem hv. 4. landsk. færði fyrir því, að ákvæði frv. um refsingu til handa bílstjórunum væri ósanngjörn, var, hversu erfitt væri að sanna, að þeir hefðu brotið lögin vísvitandi. En þetta er ekki nægileg ástæða, þó að hv. þm. vilji vera sanngjarn, því að það er svo algengt um lög. að ekki er auðvelt að sanna brot gegn ákvæðum þeirra, en þrátt fyrir það er þeim framfylgt. Hv. þm. sagðist ekki leggja mikið upp úr þessu ákvæði í frv. og taldi, að refsiákvæðið í brtt. meiri hl. mundi vera nægilegt. Þó kvaðst hann geta gengið inn á, að rétt væri að refsa þeim, sem yrðu uppvísir að brotum á lögunum.

Ég skal játa, að það er rétt athugað hjá hv. 1. þm. Skagf., að orðalag 15. gr. frv., þar sem talað er um að láta bifreiðarstjóra sæta ábyrgð og sektum, er óviðkunnanlegt, því að venjulega er ekki um aðra ábyrgð að ræða en sektir fyrir slík brot. Þar ætti því einungis að standa: að sæta sektum fyrir brotið.

Ég skal ekki endurtaka það, sem farið hefir á milli hv. 1. þm. Reykv. og mín í þessu máli. Hv. þm. taldi, að menn hefðu lifað mest á ógerilsneyddri mjólk hingað til, án þess að nokkuð hefði komið að sök. En þetta er ekki rétt. Það hefir oft komið mjög mikið að sök, að ógerilsneydd mjólk hefir verið flutt í bæinn, og hefir það hvað eftir annað leitt til alvarlegra sjúkdóma bæði hér og erlendis. Ef smitandi veikindi koma upp á heimilum, þar sem framleitt er mikið af mjólk til sölu, og hún send ógerilsneydd á markaðinn, þá getur veikin farið mjög víða og gripið um sig, eins og kom fyrir 1921 eða 1922 hér í bænum. Þó að við höfum ekki verið minntir á þetta nú á síðari árum, þá er slíkt ástand mjög ískyggilegt. Vegna þessarar bættu hafa aðrar menningarþjóðir talið sjálfsagt að gerilsneyða mjólkina, eða stassanisera hana. Ég má fullyrða, að bæði N. Dungal og landlæknir eru sammála um það, að þó að stassaniseruð mjólk hafi ekki alveg sama gildi og nýmjólk, þá vinnist þó meira með því heldur en að mjólkin sé seld óhreinsuð, vegna þeirrar bættu, sem af því kann að stafa.

Hv. 1. þm. Reykv. taldi að enginn skaði væri skeður, þó að framleiðendur hér í bænum hefðu beina sölu á mjólk til neytenda, ef hún borgaði sig ekki; en þetta er röng röksemdafærsla. Það hefir sýnt sig, að þeir mjólkurframleiðendur, sem ekki hafa trú á samtökum, vegna þess hvað þau hafa gengið illa undanfarin ár, hafa tekið sig út úr og farið að selja mjólkina beint til neytenda. Á undanförnum missirum hefir kúabúunum fjölgað mjög hér í lögsagnarumdæmi Rvíkur, og hafa mörg þeirra verið stofnuð á svo óheilbrigðum grundvelli, að þau hljóta að leggjast niður aftur. Ég skal benda á það sem dæmi, að á einum stað, þar sem eru ca. 7 dagsl. af ræktuðu landi, hefir verið komið upp fjósi fyrir 54 kýr. Heyið er flutt að, og fóðurbætir keyptur í stórum stíl. En það er ekki verið að skýra neytendum frá því, hvernig mjólkin er frá þessum búum. Á einu þessara kúabúa hefir mjólkin verið rannsökuð þrisvar til fjórum sinnum á ári. Fitumagn mjólkurinnar fór niður í 2,5%, en var mest 2,7%. Þrátt fyrir þetta er það álit manna hér í bænum, að þetta sé góð mjólk. — Á sama tíma var flutt hingað til bæjarins mjólk austan úr Þykkvabæ, og fitumagn hennar var allt árið 3,7%. Þetta bendir fyllilega til þess, að ekki sé hollt að ýta undir þessa verksmiðjuframleiðslu á mjólkinni, sem stofnuð hefir verið undir skilyrðum heimasölunnar, en hlýtur að leggjast niður aftur. Hitt er betra, að leggja strax grundvöllinn að því skipulagi, sem hlýtur að verða á framleiðslu mjólkurinnar í framtíðinni.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að hinir smærri mjólkurframleiðendur hér í bænum yrðu hart úti, og ég viðurkenndi það við 2. umr., að það væru einu mennirnir, sem yrðu fyrir nokkrum óþægindum af þessu skipulagi hér í bænum og nágrenninu. Þetta stafar af því, að mjólkurframleiðslan í Rvík hefir alltaf verið byggð á fyrirkomulagi, sem ekki á rétt á sér. Til þessara búa hefir verið útbýtt löndum, sem ýmist hafa verið of stór eða of lítil. Það hefir sýnt sig á áberandi hátt við útbýtingu landa í Sogamýri, að land fyrir hvert einstakt bú hefir reynzt of lítið til sjálfstæðrar mjólkurframleiðslu. Síðan voru löndin seld og reynt að bæta við þau, en búreksturinn gat samt ekki borið sig sjálfstætt, nema fleira væri haft með.

Þeir, sem reka mjólkurframleiðslu í nágrenni Rvíkur, verða a. m k. að hafa 10—12 kýr, til þess að búið geti borið sig, þó að mjólkin sé seld í gegnum miðstöð. Þá þurfa þeir líka, hvort sem er að kaupa vinnukraft að til mjólkurflutninga o. fl. Þetta er sannleikurinn um mjólkurframleiðsluna í nágrenni Rvíkur. Og ég held, að þó að þetta skipulag á mjólkursölunni yrði ekki bannað í framkvæmd, þá mundu búin vaxa upp í þetta hér í nágrenni bæjarins, því að það hefir sýnt sig, að slíkt fyrirkomulag á rétt á sér.

Hv. 1. þm. Reykv. geðjaðist ekki að samlíkingu minni við kjötlögin, og færði það til, að hér í bænum væri ekki framleitt kjöt. Ég talaði ekki um kjötframleiðendur í lögsagnarumdæmi Rvíkur, heldur þá, sem búa á öllu verðjöfnunarsvæðinu, austur í Árnes- og Rangárvallasýslu og uppi í Borgarfirði. Ef ákvæði hefðu verið sett í kjötlögin svipuð þeim, sem hv. 1. þm. Reykv. vill koma inn í mjólkurlögin, gat komið að því, að þessir kjötframleiðendur hefðu orðið að borga 6 aura verðjöfnunargjald fyrir hvert kg., fyrir réttinn til þess að selja kjötið beint til Rvíkur, jafnframt því sem kjötframleiðendur í Dalasýslu máttu hafa samtök um sölu á sínu kjöti í bæinn. — Nú vil ég spyrja hv. þm., hvort það hefði verið réttlátt að láta þá, sem selja kjöt af þessu verðjöfnunarsvæði beint til bæjarins, borga verðjöfnunargjaldið, án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því, að þeir gætu komið vöru sinni hér út. En þessi trygging fékkst með því að kjötið var selt undir eftirliti kjötverðlagsnefndarinnar. Og eina tryggingin fyrir því, að þeir, sem búa í nágrenni Rvíkur, fái að sitja fyrir mjólkursölunni í bæinn, er sú, að salan á mjólkinni gangi gegnum miðstöð. Eigi þeir aftur á móti að selja mjólkina beint til neytenda, þá verða þeir að keppa við framleiðendur, sem búa utan lögsagnarumdæmisins og eru í samtökunum. Þó þeir greiði verðjöfnunargjaldið, þá hafa þeir enga tryggingu fyrir því að geta komið allri vinni mjólk út. Þetta hefir verið mjög áberandi síðustu 3 missirin. Samkeppnin við þá framleiðendur, sem selja gerilsneydda mjólk í gegnum samtökin, hefir verið svo hörð, að mörg af búunum hafa orðið að flýja á náðir Mjólkurfél. Rvíkur um að taka af sér mjólkurafgangana og vinna úr þeim. Ef engin samtök eða skipulag væri á sölu mjólkurinnar hér í bænum, þá hefðu þeir ekki að neinu að hverfa með mjólkurafgangana. Það er því rangt, sem sagt hefir verið, að sölusamtökin séu aðallega gerð fyrir þá, sem búa utan lögsagnarumdæmis Rvíkur. Það er þvert á móti; þau eru hreint og beint fyrir þá framleiðendur, sem búa í nágrenni Rvíkur, til þess að þeir fái þó eitthvað tryggilegt fyrir sitt verðjöfnunargjald. Hitt væri rangt, að láta þá borga gjaldið án þess að þeir fengju jafnframt að sitja fyrir markaðinum.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um, að nauðsynlegt væri að gera lögin svo úr garði, að þeim væri tryggður samhugur allra hlutaðeigandi aðila. Ennfremur minnti hann á það, sem ég hafði sagt við 2. umr., að mjólkurlögin skyldu verða framkvæmd afdráttarlaust. Það er rétt, að ég taldi, að þegar búið væri að ganga þannig frá lögunum, að öllum aðilum væri sýnd fullkomin sanngirni, þá dytti mér ekki annað í hug en að þau yrðu framkvæmd til hins ýtrasta, hvað sem hver segði. Ég vil benda á, að mjólkurframleiðendum í Rvík hefir verið sleppt við að greiða verðjöfnunargjald af miklum hluta framleiðslu sinnar, og þó eiga þeir að fá að sitja fyrir markaðinum fyrir þetta litla verðjöfnunargjald. Þetta er betra en þekkist nokkursstaðar erlendis, þar sem svipuðu skipulagi hefir verið komið á mjólkursöluna. Þar verða búin í nágrenni bæjanna alltaf að greiða fullt verðjöfnunargjald. Hér er því gengið lengra í sanngirnisáttina gagnvart Reykvíkingum. Ef þeir menn, sem þetta skipulag er sérstaklega gert fyrir, rísa upp á móti lögunum eftir að búið er að sýna þeim svona mikla sanngirni, þá verður að fara um þetta eins og verkast vill. Það er vitanlega ekki hægt að ganga svo langt til samkomulags, að allir verði í fyllsta máta ánægðir.

Stjórn félags nautgripaeigenda í nágrenni Rvíkur hefir lýst því yfir, að félagsmenn mundu sætta sig við lögin í núv. mynd, og að hún teldi þau til hagsbóta fyrir framleiðendur í nágrenni Rvíkur. Enda hafa þeir verið sanngjarnastir í samningum um þetta mál fyrir hönd Reykvíkinga, og staðið við þá. Þeim hefir líka verið ívilnað þannig, að þeir, sem framleiða mjólk á ræktuðu landi, fá verulegan afslátt á verðjöfnunargjaldinu. (MJ: vill ekki hæstv. ráðh. skýra hina óskiljanlegu till. hv. landbn.?) Jú, ég skal gera tilraun til þess; en náttúrlega stendur það næst, að hv. n. geri það sjálf. Þetta undantekningarákvæði á að ná til kauptúna eins og kaupstaða, ef mjólkursölunefnd þykir ástæða til, þannig að vissar sveitir, hluti úr sveitum eða kauptún skuli tekin undir sölu- og dreifingarrétt mjólkurbúa eða sölumiðstöðva þeirra með þessar afurðir. Ég skal taka dæmi: Ef Reykjavík væri ekki tekin með á verðjöfnunarsvæði Reykvíkur, enda þótt Reykjanesskagi væri að öðru leyti talinn með, þá má taka þetta kauptúnin síðar inn undir verðjöfnunarsvæðið, með því skilyrði, að hlutaðeigandi mjólkurbú sjái um dreifingu mjólkurinnar á þeim stað.

Það er eðlilegt, að hv. 1. þm. Reykv. spyrji um þetta; ég viðurkenni, að það er ekki um venjulegt orðalag að ræða. En ef maður gagnályktar út frá þessu ákvæði, þá kemur út ,á skilningur, sem hér hefir verið haldið fram. — Þetta er að vísu ónákvæmt orðalag, en skilningur minn á till. mun samt vera réttur.